21.09.1943
Efri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2216)

6. mál, ákvæðisvinna

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég bjóst við því, einmitt af hálfu kommúnistanna, að þeir mundu styðja þessa þáltill., eins og líka hefur komið fram í öllum almennum aths. um þetta mál hjá síðasta ræðumanni. En hinu furðar mig á, að þótt sá flokkur telji ekki skoðun sína sem neina vinsemd við mig, skuli hv. þm. ekki geta stillt sig um að senda mér nokkra hnýfla og hnútur, sem ég sé ekki, að ástæða hafi verið til. Það gleður mig, að hv. þm. skuli styðja þessa till. og kannske, ef hann með sambandi við Rússland gæti fengið upplýsingar um skipulagningu ákvæðisvinnu, enda þótt gera megi ráð fyrir, að þær yrðu e. t. v. eitthvað flokkslitaðar. En allir geta verið sammála um, að æskilegast sé að fá sem flestar og beztar upplýsingar um slíka hluti.

En ég hafði dregið það mjög í efa, að hægt væri að fá upplýsingar nú frá Rússlandi, þangað væri ekki greiður gangur. Ég veit ekki til, að kommúnistum hafi tekizt að senda neinn mann þangað til endurbóta, eins og þegar Stefán Pétursson var þangað sendur.

Þá sagði hv. þm., að hér væri hallað á íslenzka verkamenn, en ég tel, að það sé ekki rétt athugað hjá honum. Hér í grg. er sagt, að ákvæðisvinna hafi verið hér frá fornu fari og að hún hafi náð hástigi hjá síldarstúlkum á Siglufirði. Ef síldarstúlkur á Siglufirði geta unnið mikið og gott verk í ákvæðisvinnu og fyrir hátt kaup, sýnir það í raun og veru, mjög góðan árangur. Þá gegnir það furðu, að hinir svo hölluðu formælendur verkamanna skuli ekki vilja hagnýta sér slíkar vinnuaðferðir.

Þá hljóp hv. þm. yfir það atriði, að oft hefur komið í ljós mikill mótþrói hjá verkamönnum gegn ákvæðisvinnu, og í því liggur það, að hann finnur til þess, að þar er veikur punktur í afstöðu manna hans, og hann vill svo ekki ganga á móti henni.

Þá er bent á það hér í grg., sem hv. þm. taldi ekki rétt, að vinnuhraði hefði minnkað, eftir að setuliðið settist hér að. Það er hægt að deila um það, hvort ástand í vinnumálum hafi batnað eða versnað, síðan setuliðið kom. Ef einhver maður væri heimskur, menntunarlítill og ósannsögull, þá gæti hann reynt að halda slíku fram, að vinnuhraðinn hafi haldizt óbreyttur, síðan setuliðið kom, en annars ekki. En ef vinnuhraðinn hefur breytzt og verið meiri áður, er tilgangslaust af þm. (StgrA) að neita og ekki hægt um þetta að deila. Orsökin er hin óskaplega eftirspurn eftir vinnu, vegna þess fara menn að vinna verr. Það stendur mörgum stuggur af því, hvernig ganga muni að fá upp aftur þann vinnumóral, sem var. Dæmi um þetta er m. a., að hér var fyrir skömmu Englendingur á ferð og hefur verið hér oft áður og talar íslenzku. Hann gaf sig á tal við dreng, sem var að vinnu í hitaveitunni, og spurði, hvað hann fengi á dag. „50 kr.“, svaraði drengurinn. „Það er gott“, sagði þessi Englendingur, „því að hjá okkur borgum við góðum mönnum við garðyrkju tvö pund á viku“. Það er borgað hér um það bil sama dagkaup og faglærður maður fær fyrir 6 daga í Englandi. Það getur skeð, að þm. hafi ekki séð Spegilinn í sumar. Þar birtist einu sinni forsíðumynd af borgarstjóranum og verkamanni í hitaveituvinnunni. Það var eftir að borgarstjóri var farinn að borga premíu fyrir aukin afköst, eins og þm. segir, að siður sé í Rússlandi, og þarna segir borgarstjóri verkamanninum, að nú komi hann til að borga honum premíuna. „Láttu hana í vasa minn“, segir verkamaðurinn og hreyfir sig ekki svo mikið sem til að veita peningunum viðtöku. Það kom í ljós við þetta ráð borgarstjórans, premíuna, að þá fjórfölduðust afköstin í sumum vinnuflokkunum. Hvernig heldur þm. þá, að áður hafi verið unnið? Ætli það fari þá ekki að sannast, sem ég sagði í vor, að stundum stæðu fjórir þar, sem einn ynni? Tölurnar tala um það. Þegar ég skrifaði þetta, var ég nýbúinn að horfa á þessi vinnubrögð við hús, sem verið var að byggja. Ég þarf ekki að fara til verkamanns norðan af Akureyri til að fræðast um þetta. Það gekk ekki hjá Rússum að borga, eins og þm. segir, að auðvaldið borgi, þeim duglegasta og þeim handónýtasta jafnt kaup. Það veit þm. En honum, sem hefur nú skiljanlega ekki neitt óþarflega mikið af almennri menntun, er kannske ekki kunnugt um, hve mjög Rússar sóttust eftir fagmönnum frá Þýzkalandi og Ameríku, — þeir fóru til þessara vinnukúgara eins og Fords til að fá hjá þeim menn, sem kunnu að vinna og gátu kennt þær vinnuaðferðir í Rússlandi. Þetta er það, sem þm. kallar að útníða verkamennina með of hraðri vinnu. Ég lít á allt það sem vitleysu, sem hann segir um þetta vinnulag, sérstaklega er það bein fölsun um ameríska vinnuaðferð, t. d. um það, hvernig Mr. Ford hafi farið að því að knýja fram aukin afköst. Þm. væri vís til að sækja þá hugmynd í sögu eftir H. K. Laxness, að Ford muni hafa lamið menn sína með svipum eins og böðullinn frá Bessastöðum í einni sögunni, en það er ekki tilfellið. Mr. Ford hefur náð árangri sínum með allt öðrum og betri aðferðum, m. a. með því að búa vel að verkamönnum, láta þá hafa stuttan vinnutíma, en keppast við.

Það er leiðinlegt fyrir þm. að verða að viðurkenna, að taka má aðferðina, sem hann berst móti, frá síldarstúlkum á Siglufirði eða frá hlutaráðningu sjómanna, og leiðinlegt fyrir hann að neita því, að aðferðin hefur alltaf borið góðan árangur. Ég ætla ekki að fara út í það, hvað taka skuli til bragðs til bjargar þeim mönnum, sem ná ekki meðalafköstum með þessu lagi. Þegar þeir þurfa að fá gjafir frá þjóðfélaginu, er um allt annað en vinnulaun að ræða.

Mér gengur ekkert annað til með þessari þáltill. en að hér verði tekið upp það bezta form í þessum efnum, sem hægt er að fá, þegar aftur er unnt að fara að rétta við. Enginn vafi er á, að það yrði hagur fyrir duglegu mennina. Með því að taka annars vegar hið ameríska form og hins vegar formið frá hinu eina sósíalistíska ríki, Rússlandi, ætti að vera hægt að kreppa að þeim, sem vilja standa með vinnusvikunum, eins og þessi hv. þm. hefur reynt. En nú er hann búinn að játa töluvert mikið um Rússa, sem kannske gæti orðið erfitt við að fást fyrir þá, sem verja vinnusvikin.