20.04.1943
Sameinað þing: 4. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

1. mál, fjárlög 1944

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fram á Alþingi frv. til fjárlaga fyrir árið 1944, og eins og venja er til við 1. umr. fjárlaganna hefur hæstv. fjmrh. gert grein fyrir fjárhagsafkomunni á liðnu ári og gefið skýringu á fjárlagafrv.

Ég hef veitt því athygli, að þótt fjárlfrv. sé að mestu sniðið eftir fjárl. þessa árs, er það nokkuð frábrugðið því í einstökum atriðum. Þannig er lagt til í frv., að framlög til nýrra akvega verði 1,8 millj. á móti 3,5 millj. í ár. Í stjfrv. er framlagið til þjóðveganna sett í einu lagi, ósundurliðað, og geri ég ráð fyrir, að þingið muni ákveða skiptingu þess eins og venja hefur verið. — Þá eru framlög til brúargerða, hafnarmannvirkja, bryggjugerða og lendingarbóta allmiklu lægri í frv. en í núgildandi fjárl.

Ég tel það galla, að hæstv. fjmrh. lætur ekki starfsmannaskrá fylgja frv. fremur en fyrirrennari hans, sá er var næstur á undan honum. Sú regla var hins vegar tekin upp af Eysteini Jónssyni, þegar hann var fjmrh., og tel ég, að aftur ætti að taka upp þann hátt.

Áhrif verðbólgunnar á fjármál ríkisins sjást bezt á því yfirliti, sem ráðh. hefur gefið, og af því, að í þessu nýja fjárlfrv. eru tekjur og gjöld á næsta ári áætluð um 55 millj. kr., en fyrir stríðið voru þessar upphæðir innan við 20 millj. kr. Hin mikla hækkun verðlags- og kaupgjalds í landinu, sem orðið hefur, síðan stríðið hófst, hefur svo mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs, að tæplega verður rætt um fjárlög og fjárhagsafkomu ríkisins á þessum tímum, án þess að um leið sé vikið að dýrtíðarmálinu. Mest af tíma þess aukaþings, sem nú hefur nýlega lokið störfum, fór í athugun á því erfiða viðfangsefni.

Til eru menn, sem ásaka Alþ. fyrir lítinn árangur af starfi þess að dýrtíðarmálunum, þótt langan tíma hafi tekið. Slíkar ásakanir eru ekki sanngjarnar. Oft hefur verið á það bent áður, og er óþarft að endurtaka hér, að erfitt muni reynast að færa dýrtíðina niður, eftir að henni hefur verið leyft að vaxa svo mjög sem hér hefur orðið. Reynslan hefur sýnt og sannað, að aðvaranir þeirra manna, sem þessu hafa haldið fram, hafa verið á fullum rökum byggðar. Það er auðveldara að stöðva flóðið, sé að því horfið í tæka tíð, en koma því aftur í fyrri farveg, eftir að það hefur brotið sér nýjar leiðir. Tvisvar hefur tekizt að stöðva vöxt dýrtíðarinnar. Þjóðstj. tókst að stöðva dýrtíðarvísitöluna í 183 stigum, en eftir að samstarf Framsfl. og Sjálfstfl. rofnaði fyrir ári, af ástæðum, sem hér verða ekki raktar, fór skriðan af stað aftur með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Núverandi ríkisstj. hefur einnig tekizt að stöðva vöxt dýrtíðarinnar. En að þrýsta henni niður aftur, það er stórum erfiðara viðfangs, og þeir ætla að reynast sannspáir, sem áður héldu því fram, að illa mundi fara, ef eigi yrði reynt að koma vörnum við í tæka tíð.

Til þess að þoka dýrtíðinni niður er tæpast annað ráð en það að lækka verðið á innlendum framleiðsluvörum og kaupgjaldið. Innkaupsverð á erlendum nauðsynjavörum höfum við ekki á okkar valdi. Menn virðast yfirleitt sammála um það, að sjálfsagt sé að reyna til þrautar að ná samkomulagi við þá aðila, sem hlut eiga að máli, um niðurfærslu á afurðaverði og kaupgjaldi. Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að í frv. hæstv. ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir hafi verið lagt til, að kaupgjaldið í landinu almennt yrði fast bundið með lögum. Hefur meira að segja rignt yfir Alþ. mótmælum víðs vegar að gegn lögfestingu kaupgjalds, sem höfundar mótmælanna hafa talið vera í stjfrv. En þetta er mesti misskilningur. Í frv. hæstv. ríkisstj. voru aðeins ákvæði um nokkra skerðingu á verðlagsuppbót, en ekkert bann við kauphækkunum. Hæstv. stj. virðist því vera þeirrar skoðunar, eins og þingið, að rétt sé að reyna að ná samkomulagi um nauðsynlega niðurfærslu dýrtíðarinnar. Þetta samkomulag er enn ekki fengið, og þar af leiðandi er þess ekki að vænta, að stórt skref hafi enn verið stigið til lækkunar á framfærslukostnaðarvísitölunni. Málinu hefur í raun og veru verið skotið á frest, en ákveðið eð setja sérstaka nefnd, skipaða fulltrúum frá bændum og launamönnum, til þess að reyna að finna sanngjarnt hlutfall milli afurðaverðs eg kaupgjalds, miðað við það, að tekjur þeirra, er vinna að framleiðslu landbúnaðarvara, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra stétta. Náist samkomulag í n. um þetta hlutfall, er til þess ætlazt, að það verði látið gilda, meðan ófriðurinn varir. En þá þarf einnig í framhaldi af nefndarstarfinu að reyna að komast að samkomulagi við þessa aðila um nauðsynlega niðurfærslu á bæði afurðaverði og kaupgjaldi, til þess að aðalatvinnuvegir landsmanna geti haldizt í eðlilegu horfi.

Í frv. hæstv. ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir og brtt., sem hún bar fram við það síðar, var gert ráð fyrir því, að ákveðin yrði lækkun á verði landbúnaðarafurða að nokkru leyti á kostnað framleiðenda. Virtist það vera skoðun ríkisstj. eða a. m. k. sumra ráðherranna, að verðið á landbúnaðarvörunum hafi hækkað hlutfallslega meira en kaupgjaldið síðan fyrir styrjöldina og því sé réttmætt að lækka verð þeirra nokkuð á kostnað framleiðenda. Munu till. hæstv. stjórnar hafa verið byggðar á þessari skoðun. Í umr. um dýrtíðarfrv. var þessu mótmælt. M. a. benti ég á það í þeim umr. og sýndi með samanburðarreikningi, að hækkun afurðaverðsins hefði alls ekki orðið meiri hlutfallslega en hækkun á kaupi daglaunamannanna, ef tekið er meðaltal af þeirri grunnkaupshækkun á tímakaupi, sem orðið hefur hjá verkamönnum síðan fyrir stríðið. Varð sú stefna ofan á í þinginu, að meðan verið er að leita að eðlilegu hlutfalli milli afurðaverðs og kaupgjalds af þeirri n., sem til þess verður skipuð, skyldi verðið ekki lækkað á kostnað framleiðenda nema hlutfallslega jafnt þeirri lækkun á kaupgjaldi, sem kann að verða á þeim tíma. Í l. um dýrtíðarráðstafanir var ríkisstj. hins vegar veitt tímabundin heimild til þess að verja nokkru fé úr ríkissj. til lækkunar útsöluverðs á innlendum afurðum, koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar og reyna að þoka henni nokkuð niður. Slíkt er vitanlega engin varanleg lækning á dýrtíðarmeininu, og orkar mjög tvímælis, að ekki sé meira sagt, að verjandi sé að nota fjármuni ríkisins, svo að nokkru verulegu nemi, til þess að kaupa niður vísitöluna á þennan hátt. En þetta var sú eina bráðabirgðaráðstöfun, sem hægt var að fá samkomulag um nú, þótt margir hv. þm. muni óánægðir með þessa aðferð. Í umr. var því beint til hæstv. stj. að fara gætilega í því að bera fé í vísitöluna, og vil ég undirstrika það alveg sérstaklega.

Í dýrtíðarfrv. hæstv. stj. voru till. um nokkrar breyt. á skattal. Voru þær allar um hækkanir á sköttum, og skyldi fénu að mestu varið til dýrtíðarráðstafana. Till. stj. um skatta má skipta í þrennt. Í 1. kafla frv. voru aðallega till. um niðurfellingu á varasjóðshlunnindum hlutafélaga, annarra en útgerðarfélaga, og um það, að allt skattfrjálst varasjóðstillag útgerðarfélaga skyldi renna í nýbyggingarsjóð.

Í 2. kafla frv. voru ákvæði um viðbótartekjuskatt, allháan, en nokkuð af því fé átti að endurgreiða síðar. Sá kafli frv. var samþ. á þinginu, þó með nokkurri lækkun á skattinum frá því, sem stj. hafði lagt til, og skyldusparnaður felldur niður. Var ekki unnt að fá samkomulag um að samþ. þennan kafla frv. óbreyttan.

Í 3. kafla frv. var lagt til, að lagður yrði sérstakur skattur á eignaaukningu, sem orðið hefur á árunum 1940 og 1941 og er umfram 50 þús. kr. hjá hverjum gjaldþegni. Þessi kafli var felldur niður úr frv. Varð það að samkomulagi í fjhn. Nd., en nm. eða a. m k. meiri hl. þeirra lýsti þó yfir fylgi sínu við þá hugmynd að leggja slíkan skatt á eignaaukningu stríðsáranna. Þeir töldu aðeins rétt að fresta málinu þar til á framhaldsþingi síðar á árinu og nota tímann til þess að undirbúa það betur. Er það eftirtektarvert, að einn þeirra nm., sem vildi hafa þessa málsmeðferð, var form. Sósfl., hv. 2. þm. Reykv., E. Ol., og kemur mönnum því undarlega fyrir sjónir að flokkur hans skuli nú færa það sem ástæðu gegn þingfrestun nú þegar, að nauðsynlegt sé að samþ. áður frv. um eignaaukaskatt, sem fram er komið í Ed.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um 1. kaflann í stjfrv., sem snertir, eins og áður segir, varasjóðshlunnindi hlutafélaga, því að um þetta mál hefur orðið ágreiningur á þinginu og allmikið umtal. Í stjfrv. var lagt til, að skattfrjálst varasjóðstillag hlutafélaga, annarra en útgerðarfélaga, skyldi niður falla.

Þegar lagafyrirmælin um, að hluti af varasjóðstillögum hlutafélaga skyldi undanþeginn tekjuskatti, voru upphaflega sett, voru hlutafélögin miklu færri en nú og rekstur þeirra yfirleitt áhættusamur. Síðan hefur sú breyting orðið, að félögunum hefur fjölgað mjög. Mörg af þeim eru fámenn, og er algengt að aðeins ein eða tvær fjölskyldur mynda slík félög, að því er virðist einkurri í þeim tilgangi að njóta varasjóðshlunninda skattalaganna. Innborgað hlutafé er lítið hjá mörgum þessum nýju félögum og ábyrgð félagsmanna þar með takmörkuð við litla fjárhæð. Virðist rekstur margra þessara félaga þannig, að vafasamt er, að rétt sé að veita þeim sérstök fríðindi umfram einstaka skattgreiðendur, sem bera ótakmarkaða ábyrgð með öllum eignum sínum á þeim atvinnurekstri og viðskiptum, er þeir hafa með höndum. A. m. k. virðist sanngjarnt að afnema þessi hlunnindi fyrir árið, sem leið, þar sem bilið milli hlutafélaganna og einstaklinga mundi að öðrum kosti stækka vegna þess viðbótarskatts, sem nú hefur verið lagður á tekjur ársins 1942 (verðlækkunarskattsins), og enn fremur vegna þess, að mörg af þessum félögum munu þegar vera búin að safna allmiklum sjóðum.

Af fyrri ummælum Alþfl. og Sósfl. og till., sem frá þeim höfðu komið um varasjóðshlunnindi hlutafélaga, hefði mátt vænta þess, að þeir flokkar vildu samþ. þetta ákvæði í stjfrv. Vil ég í þessu sambandi minna á það, að á þ. 1941 kom fram till. frá Sósfl. um meiri takmörkun á varasjóðshlunnindum félaga en þá var ákveðin. Og á aðalþinginu 1942 komu till. bæði frá Sósfl. og Alþfl., sem gengu í sömu átt. Í Alþýðublaðinu 1. apríl 1942 segir svo í ritstjórnargrein um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að útgerðarfyrirtækin fengju að halda talsverðum hluta stríðsgróðans framan af stríðinu, meðan þau voru að vinna upp töp, greiða skuldir og safna varasjóðum. En eftir að öll félögin hafa. margfaldað eignir sínar, gegnir allt öðru máli“.

Þó að hér sé talað um útgerðarfyrirtæki, á þetta að sjálfsögðu eigi síður við um önnur gróðafyrirtæki, sem hafa áhættuminni rekstur. Og í Alþblaðinu 14. maí 1942 segir enn fremur svo:

„Hver heilvita maður sér, að það er ekki nóg að hækka skattstigann, ef svo og svo mikið af tekjunum er algerlega undanþegið skatti og útsvörum“.

Þessi ummæli eru þar vegna ákvæða skattalaganna um varasjóðsfrádrátt félaganna.

Ég hef hér rifjað upp lítið eitt af því, sem Alþflmenn hafa sagt um varasjóðshlunnindin, en þm. Sósfl. og blöð hans hafa ekki síður tekið hraustlega upp í sig síðustu árin um þetta mál. Eins og áður segir, hafa þeir flutt till. á þingi 1941 og 1942 um frekari takmarkanir á varasjóðshlunnindunum og í flokksblaði þeirra hinn 31. marz 1942, þar sem sagt var frá framkomnum skattafrv., er getið um auðfélag, sem „fær að draga 1/3 gróðans frá til að leggja hann í varasjóð, áður en skattar eru á lagðir, og skattarnir koma svo á afganginn“! Virtist blaðið mjög hneykslað yfir þessu.

Það hlýtur því að koma mörgum einkennilega fyrir sjónir, að þessir flokkar skuli nú sameinast Sjálfstfl. um að fella nú stjfrv.ákvæðið um, að skattfrjálst varasjóðstillag hlutafélaga, annarra en útgerðarfélaga, skuli niður falla og tekjur þessara félaga árið 1942 skuli skattlagðar samkvæmt því, á sama tíma, sem lagður er allhár viðbótarskattur á tekjur ársins 1942 yfirleitt.

Í fjhn. Nd., þar sem dýrtíðarfrv. var lengi til meðferðar, var reynt, eftir því sem hægt var, að sneiða hjá árekstrum og deilum og komast að niðurstöðu, sem allir nm. gætu sæmilega við unað, þótt enginn væri fullkomlega ánægður. Ég átti sæti í þessari n., og þegar málið var afgreitt þaðan, skrifaði ég undir nál. með fyrirvara um 1. kafla frv., sem fjallaði um varasjóðshlunnindin, þar sem ég vildi áskilja mér rétt til að flytja till. um það efni, sem færu í sömu átt og till. hæstv. stjórnar. Taldi ég það sanngjarnt og eðlilegt eins og á stóð, að þessi hlunnindi yrðu felld niður eða takmörkuð að einhverju leyti.

Þegar frv. kom til 2. umr. í Nd., báru tveir af þm. Framsfl., 2. þm. S.-M. og 2. þm. N.-M., fram brtt. við till. fjhn. Voru þær um niðurfellingu á varasjóðshlunnindum hlutafélaga, annarra en útgerðarfélaga, og um það, að allt varasjóðstillag útgerðarfélaga skyldi lagt í nýbyggingarsjóði, eins og ráðgert hafði verið í stjfrv., — eins og um, að skattfrjáls varasjóðshluti útgerðarfélaga skyldi lækka, eftir að sjóðir þeirra hefðu náð ákveðnu marki, þannig að þá héldu þau aðeins skattfrjálsum þeim hluta teknanna, sem fer í nýbyggingarsjóð eftir ákvæðum núgildandi laga. Þá var í till. þeirra það þýðingarmikla atriði, að skattfrjálst nýbyggingarsjóðstillag einstakra útgerðarmanna og sameignarfélaga, sem reka útgerð, skyldi hækkað úr 1/5 í 1/3 af tekjunum. Tekjur ríkissj., sem fengizt hefðu skv. till., áttu að fara í framkvæmdasjóð ríkisins.

Það er hin mesta fjarstæða, sem borin hefur verið út, að í till. þeirra EystJ og PZ hafi verið ákvæði um að draga úr framlögum til nýbyggingarsjóða útgerðarfyrirtækjanna. Þvert á móti hefðu framlögin í nýbyggingarsjóðina aukizt verulega, ef till þeirra hefðu verið samþ. En till. þessar voru felldar af þm. annarra flokka, þ. á m. ákvæðið um að auka nýbyggingarsjóðshlunnindi einstaklinga, sem hafði mikla þýðingu til hagsbóta fyrir smáútvegsmenn. Var þó till. um þetta borin undir atkv. sérstaklega, en felld af sumum þeim mönnum og flokkum, sem oft tala mest um umhyggju sína fyrir sjávarútveginum.

Eftir að þessar till. Framsfl. voru komnar fram í þinginu, fluttu tveir af þm. Sósfl. till., sem fóru í sömu átt. Þar var lagt til, að varasjóðir og nýbyggingarsjóðshlunnindi útgerðarfélaga skyldu niður falla, eftir að sjóðirnir hefðu náð einhverju hámarki. En það ákvæði var þannig, að í þetta sinn hefði það ekki snert nema örfá stærstu útgerðarfélögin, sem mest hafa grætt og mestum sjóðum hafa safnað nú þegar. Eftir að búið var að fella till. Framsfl., voru þessar till. Sósfl. samþykktar með atkv. meiri hl. sósíalista, framsóknarmanna og nokkurra af Alþflmönnum.

Við 3. umr. málsins fór hins vegar strax að bera á því, að sósíalistar höfðu engan áhuga haft á því að fá þessar skattatill. samþ., og fóru að leita að möguleika til þess að snúast gegn þeim. Kom það greinilega fram við atkvgr. um málið að lokinni 3. umr. í Nd. og sannaðist fyllilega síðan af ræðu, sem einn af þm. Sósfl., hv. þm. Siglf., flutti við lokaafgr. frv. Þeir höfðu lagt til, að tekjurnar af niðurfellingu varasjóðshlunnindanna skyldu ganga til að greiða kostnað við endurbætur á alþýðutryggingunum.

Við 3. umræðu málsins kom fram till. frá einum þm. Sjálfstfl. um, að tekjur þessar skyldu ganga til raforkusjóðs. Þá kom yfirlýsing frá Sósfl. um, að ef sú till. yrði samþ., mundi hann snúast gegn sinni eigin till. um aukinn skatt á gróðafélögin. M. ö. o., þeir vildu heldur sleppa stríðsgróðahlutafélögunum við aukinn skatt en taka féð af þeim og leggja það í raforkusjóð. Er þó öllum kunnugt, að fólkið í sveitum og kauptúnum landsins bíður þess með eftirvæntingu að fá rafmagnið og sósíalistar munu hafa talað fagurt við mörg tækifæri um áhuga sinn á því máli.

Þá flutti hv. 2. þm. S.-M. till. um, að fénu skyldi skipt að jöfnu milli raforkusjóðs og alþýðutrygginganna, í þeirri von, að samkomulag gæti orðið um þá lausn málsins. Var sú brtt. samþ. í Nd.

Allir flokkar munu sammála um, að æskilegt sé að gera alþýðutryggingarnar fullkomnari en þær eru nú, ekki sízt ellitryggingarnar, svo að gamalt fólk, hvar sem er á landinu, geti framvegis fengið hærri lífeyri en það hefur notið að undanförnu.

Þegar frv. um dýrtíðarráðstafanir var afgr. frá Nd. til Ed., voru í því þau ákvæði, sem ég hef nú lýst, um takmörkun á varasjóðshlunnindum hlutafélaga, sem þýddi aukinn skatt á þau á þessu ári af tekjum ársins 1942 og að þeim skattauka skyldi varið á þennan veg, að helmingur færi í raforkusjóð, en hinn hlutinn til endurbóta á alþýðutryggingunum. Enn fremur var samkv. frv. gert ráð fyrir, að ríkisstj. leitaði samninga við félagasambönd verkamanna og launamanna um, að þau féllust á, að verðlagsuppbót fyrir maí yrði ákveðin eftir vísitölu, sem byggð er á verðlaginu 1. dag þess mánaðar. Með því móti hefði væntanleg lækkun vísitölunnar orsakað lækkun á verðlagsuppbótinni einum mánuði fyrr en annars mundi verða. Þá var ríkisstj. samkv. frv. veitt heimild til að leggja fram 3 millj. kr. í atvinnutryggingarsjóð, ef samningar tækjust við félagasambönd launamanna um þessa lækkun á verðlagsuppbótinni fyrir næsta mánuð.

Nú hefði mátt vænta þess, að samkomulag gæti orðið í Ed. um afgreiðslu málsins á þessum grundvelli. Fulltrúi Framsfl. í fjhn. þeirrar deildar, hv. 1. þm. Eyf., lýsti yfir því, að hann vildi fylgja frv. óbreyttu. En þá gerðist það undarlega fyrirbrigði, að þm. Sósfl. og Alþfl. gerðu samning við Sjálfstfl. um að fella niður úr frv. þau ákvæði um aukinn skatt á hlutafélögin, sem samþ. höfðu verið í Nd. eftir till. frá tveim þm. Sósfl. Einnig sömdu þessir flokkar um að fella úr frv. greinina um samningaumleitanir við launþegasamböndin um verðlagsuppbótina og ákvæðið um atvinnutryggingarsjóðinn. Í staðinn. settu þeir inn í frv. fyrirmæli um, að 3 millj. kr. skyldu lagðar fram til alþýðutrygginganna. Það er gáta, sem enn er óleyst, af hvaða ástæðum þeir sósíalistar og Alþflmenn gerðu þennan samning við Sjálfstfl. Er þessi framkoma þeirra í fullu ósamræmi við allt, sem þeir hafa áður haldið fram um varasjóðshlunnindi hlutafélaganna. Sú ástæða, að helmingur tekjuaukans hafi átt að fara í raforkusjóðinn, er alls ekki frambærileg, þar sem þeim sjóði er ætlað að styðja nauðsynlegar framkvæmdir, sem allir hafa talið sig vilja vinna að. Það var auðvelt fyrir þessa flokka að koma frv. fram án þess að taka skattaákvæðin út úr því, þar sem Framsfl. hafði lýst yfir fylgi sínu við málið. En þeir gerðu enga minnstu tilraun til að fá samkomulag við Framsfl. um að afgreiða frv. án þess að fella úr því skattagreinina, en slíkt samkomulag hefði verið mjög auðfengið, eins og þegar er fram tekið. Alþfl. og Sósfl. bera því ábyrgð á því ásamt Sjálfstfl., að mörg stríðsgróðahlutafélög, sem fást ekki við sjávarútveg, halda varasjóðshlunnindum sínum óskertum, þrátt fyrir það að skattar eru yfirleitt mjög þyngdir á landsmönnum á þessu ári. Þeir reyna að vísu að bera það fram sér til málsbóta, að með samkomulaginu við Sjálfstæðisflokkinn hafi þeir tryggt 3 millj. kr. framlag til alþýðutrygginga. En þetta bjargar ekki málstaðnum, þegar litið er á það, að í frv. var gert ráð fyrir 3 millj. kr. framlagi í atvinnutryggingarsjóð, gegn nokkurri lækkun á verðlagsuppbót í l mánuð, og að helmingur af skattauka hlutafélaganna gengi til alþýðutrygginga. Þetta var hægt að fá án þess að semja við Sjálfstfl. um að fella skattagreinina úr frv.

Eftir að þetta er skeð, tala sósíalistar að vísu mjög um að þeir vilji skattleggja stríðsgróðann, og einn af þm. þeirra hefur gerzt meðflm. að frv. um eignaaukaskatt. Reynslan ein getur sýnt, hvort við það verður staðið. Vitanlega gætu þeir eins snúizt gegn sínum eigin skattatill. síðar, eins og þeir gerðu 12. og 13. apríl. Ég skal engu um þetta spá, en þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar þeirra um, að þeir vildu skattleggja stríðsgróðann, m. a. með því að fella niður varasjóðshlunnindi hlutafélaga, annarra en útgerðarfélaga, enduðu þeir 5 mán. þingsetu á aukaþinginu fyrir nokkrum dögum með því að drepa þær till. um þetta efni, sem þeir höfðu sjálfir borið fram.

Þessi reynsla um vinnubrögð Sósfl. sýnir, að tæpast er hægt að treysta því, sem þeir nú segja um vilja sinn til að fylgja fram ýmsum skattalagabreytingum. Framsfl. hefur síðustu dagana gengið eftir svörum frá þeim um það, hvort þeir vildu fylgja till. um niðurfellingu oftnefndra varasjóðshlunninda nú þegar á þessu þ. og vinna að því, að sú breyting næði samþ. hið allra fyrsta, svo að unnt yrði að ákveða skattana á þessu ári í samræmi við það. Við þessu út af fyrir sig hafa engin ákveðin svör fengizt, en málið tengt við önnur atriði, sem geta valdið deilum. Eru slík skilyrði sýnilega fram borin af hálfu sósíalista til þess að reyna með þeim að fá nýja átyllu til þess að snúast gegn málinu og koma í veg fyrir framgang þess. Hefur þannig komið í ljós, að frá þeim er ekkert að hafa nema vífilengjur og undanbrögð í þessu efni, enda nýlega búnir að semja við Sjálfstfl. um að láta gróðafélögin halda varasjóðshlunnindunum óskertum í þetta sinn. Má líka nærri geta, hve auðvelt muni að ná samkomulagi um þetta mál við menn, sem víla ekki fyrir sér að snúast gegn sínum eigin skattal., af því tilefni einu, að því er þeir segja, að helmingur tekjuaukans á að fara í raforkusjóðinn.

Þar sem þannig eru ekki einu sinni líkur, hvað þá vissa, fyrir því, að hægt sé að fá samþykktar innan skamms breyt. á varasjóðsákvæðunum, sem hafi áhrif á skattaál. á tekjur ársins 1942, er engin ástæða til að halda þinginu nú áfram um óákveðinn tíma vegna skattamálanna, þar sem aðrar breyt. á skattal., sem tillögur eru um, geta komið nógu snemma til framkvæmda og að fullum notum, þó að eigi verði frá þeim gengið fyrr en á framhaldsþingi í haust. Og sérstaklega er alveg óviðeigandi að halda þingstörfum áfram nú að nauðsynjalausu, þar sem talið er, að þingið verði að koma saman til framhaldsfunda þegar í septembermánuði.

Ég geri ráð fyrir því, að margir kjósendur, sem fylgdu Sósfl. í kosningum á síðastl. ári, verði fyrir vonbrigðum í sambandi við framkomu hans í skattamálunum o. fl. á aukaþinginu, þar sem hún er í fullu ósamræmi við þau fyrirheit, sem flokkurinn gaf fyrir kosningarnar. Þá var því yfirlýst af frambjóðendum flokksins, að þeir vildu taka upp samstarf við Alþfl. og Framsfl. um afgreiðslu mála í þingi og um stjórn landsins. Hinir flokkarnir hafa nú í vetur átt viðræður við Sósfl. um þessi mál. Ég ætla ekki nú að skýra frá þeim samningaumleitunum, sem fram hafa farið í þeirri n., sem til þess var valin af flokkunum þremur. Það mun verða gert við annað tækifæri. En af ritstjórnargrein, sem birtist í flokksblaði sósíalista, Þjóðviljanum, þ. 30. marz s. l., eftir að samningaviðtöl höfðu staðið svo mánuðum skipti — sést, að þann dag var flokkurinn ekki kominn lengra inn á samkomulagsbrautina en það, að hann benti á stefnuskrá sína og sagðist standa við það að fylgja henni fram., ef hinir flokkarnir tveir vildu fallast á hana. Segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Síðasta atriðinu í tali Alþbl. og Tímans, því, að það sé sósíalistum einum að kenna, að ekki hafi tekizt að mynda vinstri stjórn, er raunar fullsvarað með því, sem þegar er sagt, því einu er við að bæta, að enn geta flokkar þessir fallizt á stefnu sósíalista, þannig að vinstri stjórnarmyndun yrði möguleg“. — Svo hljóðar boðskapurinn. Og í Þjóðviljanum 3. þ. m. kveður mjög við sama tón. Af þessu geta menn nokkuð markað, hvað mikið þeir sósíalistar meina með öllu skrafi sínu um það, sem þeir meina „vinstra samstarf“. Sá flokkur, sem bendir á sína eigin stefnuskrá og segir við hina: Þetta óbreytt eða ekkert, — hann ætlar sér sýnilega ekki að taka þátt í neinu samstarfi. Og samstarf getur vitanlega ekki orðið meðan þannig er á málum haldið.

Við fjárlagaafgreiðslu á síðasta þingi fluttu þm. Sósíalistafl. allmargar tillögur um aukin útgjöld, eins og þeirra er siður, og fylgdu yfirleitt við atkvæðagreiðsluna öllum tillögum frá öðrum um auknar fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Þetta kom fáum á óvart, en hinu hafa sjálfsagt margir búizt við, að þeir mundu einnig fúsir til þess að sjá ríkissjóði fyrir auknum tekjum á móti gjöldunum með því að hækka skatta á stórgróðafyrirtækjum. En áðurnefndur samningur þeirra við Sjálfstfl. bendir til þess, að þeim sé ekki svo mjög annt um þá hliðina. Verði framhald samvinnu milli þessara flokka, slíkrar sem varð í lok aukaþingsins, — samvinna um að auka útgjöld ríkisins, en jafnframt um að hlífa stórgróðafyrirtækjum við sköttum, — þá er sýnilegt, hvert stefnir um fjárhagsafkomu ríkisins. Þá er skammt út í fullkomið fjárhagsöngþveiti.

Ég hef dvalið svo lengi við dýrtíðarmálið og meðferð þess á nýafstöðnu þingi vegna þess, að allt atvinnulíf í landinu og þar með fjárhagsafkoma einstaklinga og ríkisins á næstu árum fer að langmestu leyti eftir því, hverja lausn dýrtíðarmálið fær. Vegna dýrtíðarinnar hafa útgjöld ríkissjóðs margfaldazt, og sú hætta vofir yfir, að tekjurnar lækki fyrr en gjöldin og að af því leiði tekjuhallarekstrar og skuldasöfnun hjá ríkinu, fyrr en varir. Þessa hættu er þm. skylt að hafa í huga, þegar ákvarðanir eru teknar um fjárlagaafgreiðsluna, og reyna að stýra fram hjá henni.