21.09.1943
Efri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2221)

6. mál, ákvæðisvinna

Flm. (Jónas Jónsson) :

Það hefur hafzt upp úr þessum ræðuhöldum, að það hefur sézt, að þessi fulltrúi verkamanna, sem gerður var óreyndur að forseta þessarar d., hefur tekið að sér að afsaka vinnu, sem er neðan við meðallag. Punkturinn, þar sem þessi þm. hefur valið sér legurúm, er ástandið, eins og það er nú, sérstaklega í setuliðsvinnu og hitaveituvinnu í Reykjavík. Ég hef alls ekki borið öllum verkamönnum á brýn, að þeir væru samsekir um ástandið í þessari vinnu. Þeir eru auðvitað margir, sem hafa ekki unnið þar. Það er vitað, að meiri hluti þjóðarinnar vinnur vel eftir sem áður, eins og ég kom að í grg. till. (StgrA: Hvar stendur það?) Þessum hv. þm. er velkomið að halda áfram að verja sinn bága málstað og gera sig með því nægilega hlægilegan. Því, sem ég hef sagt um ástandið, neitar enginn heilvita maður nema e. t. v. hann, og það er ekki aðeins það sögulega ranga, sem þm. hefur tekið að sér að verja, heldur einnig „principið“, hugsunarhátturinn bak við vinnusvikin. Hann er sekur, og hann fer bara aftur upp í sinn forsetastól sem sá þm., er fyrstur hefur gerzt sekur um það að afsaka óafsakanleg vinnusvik.