20.04.1943
Sameinað þing: 4. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

1. mál, fjárlög 1944

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þótt hæstv. ríkisstj. hafi fullnægt þeirri skyldu sinni að leggja nú fyrir hv. Alþ. frv. til fjárl. fyrir árið 1944, mun á flestra vitorði, að frv. þetta verður ekki afgr. nú á næstunni, heldur verður afgreiðslu þess frestað til haustþings og þá sennilega gerðar á því mjög verulegar breytingar, til samræmis við þær aðstæður, sem þá verða fyrir hendi. Það er því ekki ástæða til að fara að ræða frv. hér í einstökum atriðum; og mun ég ekki gera það, heldur leitast við að lýsa með nokkrum dráttum afstöðu flokks míns — Sósíalistaflokksins — almennt til fjármála ríkisins og nokkurra þeirra mála, sem mestu skipta í því sambandi.

Á Alþingi því, sem nú er nýlokið, voru afgr. fjárlög fyrir líðandi ár. Við afgreiðslu þeirra kom að sjálfsögðu fram fjármálastefna þingflokkanna. Ég tel því eiga við að rifja upp í því sambandi nokkur atriði, sem lýsa meginstefnu Sósfl. við afgreiðslu þeirra fjárlaga, því að auðvitað mun hún í grundvallaratriðum verða sú sama við afgreiðslu þeirra fjárlaga, sem hér er lagt fram frumvarp að.

Það, sem Sósfl. lagði megináherzlu á í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, var, að þau fælu í sér sem mest fjárframlög og heimildir til fjárframlaga til ýmiss konar verklegra framkvæmda, — og þetta með það tvennt fyrir augum, annars vegar að hrundið yrði í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum, verklegum athöfnum af hálfu hins opinbera, hins vegar til að mæta því atvinnuleysi, sem verða mundi, þegar setuliðsvinnan minnkaði eða félli niður og stóratvinnurekendur drægju úr atvinnurekstri sínum vegna minnkandi gróðamöguleika. — Sósfl. lagði því til, að í fjárlögum líðandi árs yrði varið 1½ millj. króna „til verklegra framkvæmda í atvinnuaukningarskyni í samráði við bæjar- og sveitarstjórnir“. Þessi till. Sósfl. náði að vísu ekki fram að ganga, en hún orkaði því, að framlag til „framleiðslubóta og atvinnuaukningar“ var hækkuð úr 200 þús. kr. í 500 þús. kr. Enn fremur var ríkisstj. heimilað fyrir atbeina flokksins að verja úr ríkissjóði allt að 2 millj. til atvinnuaukningar, ef atvinnuleysi yrði á árinu.

Í samræmi við þessa stefnu flokksins um framlög til verklegra framkvæmda beitti hann sér mjög ákveðið fyrir því — og fékk fram komið —, að felld var niður heimild sú, sem undanfarið hefur verið í fjárl. og enn stóð í frv., um að skera mætti niður framlög til verklegra framkvæmda um allt að 35%.

Þá barðist Sósfl. fyrir mikið auknum fjárframlögum til ýmiss konar félagslegra umbóta og menningarstarfsemi. T. d. lagði hann til, að varið yrði 5½ millj. króna til alhliða umbóta á alþýðutryggingunum. Að vísu var sú tillaga felld. En barátta flokksins fyrir þessu mikla nauðsynjamáli allrar alþýðu heldur áfram, og hefur flokkurinn komið því til leiðar, að endurskoðun alþýðutryggingalaganna skal fara fram á þessu ári, og í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarfrv. kom flokkurinn því til leiðar, að þrjár millj. króna skulu lagðar í sjóð sem stofnfé væntanlegra endurbóta á alþýðutryggingunum. — Með sérstöku frv., sem flokkurinn lét flytja, hafa þegar verið ákveðin nokkuð aukin framlög hins opinbera til sjúkratrygginga.

Sósíalistafl. bar fram ýmsar tillögur um aukin framlög til menningarmála, þar á meðal að framlag til byggingar barnaskóla utan kaupstaða væri hækkað úr 100 þús. kr. í 400 þús. kr. Árangurinn varð, að framlagið var hækkað í 250 þús. kr. Þá vildi flokkurinn einnig, að launabætur þær, sem samþ. voru til barnakennara, yrðu helmingi hærri en ákveðið var.

Sósíalistafl. átti mikinn þátt í því, að samþ. voru sérstök fjárframlög til heilbrigðismála, svo sem til viðbótarbyggingar við landsspítalann 200 þús. kr., til byggingar fæðingardeildar 300 þús. kr. og til drykkjumannahælis 150 þús. kr. Flokkurinn bar einnig fram tillögu um 75 þús. kr. framlag til byggingar fávitahælis, en sú till. var felld.

Sósíalistaflokkurinn vildi hækka framlag til slysavarna úr 35 þús. kr. í 100 þús. kr., en fékk því ekki framgengt. — Til byggingar nýrra vita vildi hann hækka úr 200 þús. kr. í 450 þús. kr., en samþ. var 350 þús. kr.

Framlag til rithöfunda, skálda og listamanna vildi flokkurinn hækka verulega, en fékk því ekki fram komið.

Ýmsar smærri till. um framlög til félags- og menningarmála flutti flokkurinn — og fékk að sumu leyti samþ., eins og t. d. aukið framlag til mæðrastyrksnefndanna, hækkaðan styrk til Leikfélags Reykjavíkur o. fl., sem ekki verður hér talið upp.

Þá mun ég fara nokkrum orðum um afstöðu Sósfl. til dýrtíðarmálanna og skattamálanna, og er til þess tvöföld ástæða: Önnur sú, að afgreiðsla þeirra mála verkar mjög mikið á fjármál ríkisins, og hlýðir því að tala um þau í þessu sambandi. Hin er sú, að aðalmálgagn Framsóknarfl. hefur síðustu daga ráðizt mjög heiftarlega að Sósfl. fyrir þann hlut, er hann átti í afgreiðslu dýrtíðarfrumvarpsins á nýloknu þingi, og brigzlað flokknum um þjónustu við stríðsgróðavaldið, en svik við kjósendur sína.

Hver er stefna Sósfl. í dýrtíðarmálunum? Sú sama, sem hann lagði fyrir kjósendur í kosningunum s. l. sumar og haust.

Megininnihald þeirrar stefnuskrár var, að því er snerti kaupgjald og afurðaverð, að komið yrði „fastri skipan á kaupgjaldsmálin“ með frjálsum samningum við verkalýðsfélögin — og að á sama hátt yrðu gerðir fastir samningar við fulltrúa bænda um fast afurðaverð og verðuppbætur, með það fyrir augum, að ákveðið, grunnverð landbúnaðarafurða geti haldizt stríðið út, en breytist, eins og kaupið, samkvæmt dýrtíðarvísitölu. Sé verðið miðað við það, að landbúnaðurinn verði samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar og bændum tryggð viðunandi kjör. Jafnframt séu gerðar allar ráðstafanir, sem unnt er, til aðstoðar landbúnaðinum, til þess að lækka framleiðslukostnað hans og þó einkum til að koma núverandi einyrkjabúskap í það horf, að hann verði samkeppnisfær.

Til þess að lækka verð innfluttra afurða, lagði Sósfl. til, að afnumdir yrðu tollar af öllum nauðsynjavörum, meðan stríðið stendur, og að verðeftirlitið yrði stórum endurbætt. Í staðinn yrði skattur á stríðsgróða stórhækkaður og nýbyggingarsjóðir útgerðarinnar teknir í vörzlu ríkisins eða á annan hátt tryggt, að það skattfrjálsa fé, sem í þá hefur runnið, yrði undanbragðalaust notað í sínum rétta tilgangi, þ. e. til að endurnýja fiskiskipaflotann, svo að haldið yrði við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar.

Öllum þessum sjónarmiðum reyndi Sósfl. að koma fram við afgreiðslu dýrtíðarfrv., — og ber afgreiðsla frv. þess glögg merki, þó að ekki hefðist nema sumt af sjónarmiðum flokksins fram í sambandi við það frv., — og þá fyrst og fremst vegna þess, að ekki var hægt að komast að neinu skynsamlegu samkomulagi við Framsfl. um lausn þeirra mála. — Eins og áður segir, var grundvallarsjónarmið Sósfl. um ákvörðun kaupgjalds- og afurðaverðs, að þær ákvarðanir væru gerðar með frjálsu samkomulagi viðkomandi aðila. Með dýrtíðarfrumvarpi stjórnarinnar átti að lækka hvort tveggja með valdboði, — samkv. upphaflega frv. átti að greiða aðeins 80% dýrtíðaruppbótar á laun, en samkv. síðari tillögum ríkisstj. átti greiðsla dýrtíðaruppbótar á laun að lækka mánuði fyrr en samningar launþega segja til um, og fólst einnig í þeim lögfesting dýrtíðarvísitölu, án þess tryggt væri, að vísitalan lækkaði raunverulega í það mark, sem sett var.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, sagði hér áðan um það, að málgagn Sósfl., Þjóðviljinn, hefði ranglega borið það á Alþfl., að hann hefði viljað fallast á nokkra lögþvingun kaupgjalds, vil ég aðeins minna á það, að Alþýðublaðið 6. apríl s. l. tók fegins hendi undir hinar síðari tillögur stjórnarinnar í dýrtíðarmálunum og birti þær undir gleiðletruðum fyrirsögnum um það, að engin lækkun yrði á launum verkamanna, — þó að tillögurnar fælu raunverulega í sér 12% launalækkun í maímánuði, ef þær hefðu verið samþ., og auk þess lögfestingu vísitölunnar. — Sósfl. vítti þessa afstöðu Alþýðublaðsklíkunnar — og Alþfl. á Alþ. sá sér ekki annað fært en taka einnig afstöðu gegn þessu.

Sami hv. þm. harmaði það mikið, að ekki hefði tekizt að mynda það, sem hann kallaði vinstri stjórn, — og kenndi Sósfl. um, að svo hefði farið. Þessum hv. þm. hlýtur þó að vera kunnugt eins og öðrum, á hverju slík samvinna flokkanna strandaði, þ. e. a. s. á því, að Framsfl. reyndist að hafa í því sambandi eitt áhugamál öðrum fremur, þ. e. að koma fram sem mestri kauplækkun. — Það er rétt, að Sósfl. vildi ekki ganga til stjórnarsamstarfs við Framsókn og Alþfl. upp á slíka skilmála, — en þegar málsvari Alþfl. er nú að hella yfir okkur skömmum fyrir það, er það aðeins ný sönnun fyrir því, sem hann þóttist vilja bera af Alþfl., þ. e., að Alþfl. hafi verið reiðubúinn að ganga til stjórnarmyndunar með Framsókn, þótt það kostaði kauplækkun hjá verkamönnum, ef það hefði ekki strandað á ólukku Sósfl.

Við ekkert af þessum ákvæðum dýrtíðarfrv. stj. hafði Framsfl. neitt að athuga. Lögbindingin var honum síður en svo þyrnir í augum, enda hefur hún frá upphafi verið fyrsta og eina aðferð þess flokks í hinni svo kölluðu baráttu hans gegn dýrtíðinni, en kom þó gleggst fram í setningu gerðardómsl., sem frægt er orðið. En Framsfl. hafði annað áhugamál í þessu sambandi, sem hann aldrei hvikaði frá, heldur strandaði á því allt samkomulag við hann um lausn málsins. Og þetta áhugamál Framsfl. var: Að kaupgjald lækkaði sem mest og hlutfallslega meira en afurðaverðið. Aðferðin, sem Framsfl. reyndi að nota til að koma fram þessu áhugamáli sínu, var sú að leitast við — með fölskum útreikningum á grunnkaupshækkunum verkamanna — að „sanna“, að kaupgjaldið hefði hækkað jafnmikið eða meira en verð landbúnaðarafurðanna — og þess vegna yrði nú kaupið að lækka, a. m. k. í sömu hlutföllum og verð landbúnaðarvaranna, sem skrúfað var upp úr öllu viti s. l. haust, svo sem kunnugt er. Þar sem kaupið hefur hins vegar raunverulega hækkað minna en verð landbúnaðarvaranna, hefði þetta í framkvæmdinni þýtt, að kaupið lækkaði hlutfallslega meira, — og það virtist vera höfuðsjónarmið Framsfl. Sem sagt: Framsfl. hafði ekkert á móti því, að afurðaverð bændanna væri lækkað, eftir því sem verkast vildi, bara ef séð væri fyrir því, að kaup verkamanna lækkaði enn þá meira!

Annað sjónarmið Framsfl. í þessu máli var einnig athyglisvert vegna þess, að hann vill láta telja sig málsvara smábændanna í dreifbýlinu.

Eins og kunnugt er, eru verðuppbæturnar til bænda eingöngu miðaðar við það vörumagn, sem þeir selja, þannig, að stórbóndinn fær því fleiri þúsundir í verðuppbætur sem hann hefur meiri afurðir að selja en smábóndinn. Þannig var þetta einnig í dýrtíðarfrv. Nú lagði Sósfl. til, að verðuppbæturnar til bænda yrðu greiddar þannig, að helmingur upphæðarinnar væri greiddur út á selt vörumagn, en hinn helmingurinn skiptist milli þeirra bænda aðeins, sem hefðu ekki haft yfir meðaltals tekjur, — og þá í öfugu hlutfalli við tekjur þeirra, þannig að þeir tekjulægstu fengju hlutfallslega mestar uppbætur — og yrðu uppbæturnar þannig til að jafna tekjur bændanna og bæta sérstaklega kjör þeirra fátækustu.

Þetta mátti Framsfl., málsvari bændanna, ekki heldur heyra nefnt, og sýnir það glöggt, málsvari hverra bænda hann er, þ. e. a. s. stórbændanna.

Einnig lagði Sósfl. til, að ríkisstj. væri heimilað að leggja fram úr ríkissjóði 3 millj. kr. í sjóð, er nefndist: Sjóður til eflingar íslenzkum landbúnaði. — Skyldi hann vera í vörzlu Búnaðarfél. Íslands og honum varið samkv. nánari fyrirmælum í reglugerð til samfelldra ræktunarframkvæmda og stofnunar byggðahverfa í sveitum til fjárhagslegrar aðstoðar við ábúendur byggðahverfanna, til vélakaupa til sameiginlegra nota þessara ábúenda og til stofnunar fyrirmyndarbúa.

Þetta vildi Framsfl. ekki heldur hafa.

Sósfl. gat sem sagt ekki komið fram grundvallarsjónarmiðum sínum í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarfrv. með samvinnu við Framsfl. Framsfl. hafði allt önnur sjónarmið: lögþvingunarleiðina — og umfram allt sem mesta kauphækkun verkamanna.

Sjálfstfl. hins vegar hafði lært það mikið af sögu gerðardómsl., að honum skildist, að ekki væri til neins að ætla sér að leysa málið í fullri andstöðu við verkalýðssamtökin. Við hann náðist því samkomulag um þá afgreiðslu dýrtíðarfrv., sem nú er öllum kunn og að því leyti er í samræmi við sjónarmið Sósfl., að úr frv. voru þurrkuð öll lögþvingunarákvæði gagnvart verkalýðssamtökunum og að enga kauplækkun leiðir af þeim, fyrr en vísitalan verkar á launagreiðslurnar samkvæmt samningum launþegasamtakanna sjálfra. Enn fremur, að leitazt er við að leggja framtíðargrundvöll að verðmyndun landbúnaðar afurðanna og finna hlutfall milli verðs þeirra og kaupgjalds verkamanna með frjálsu og samhljóða samkomulagi fulltrúa neytenda og framleiðenda.

Einnig náðist samkomulag um, eins og áður er á minnzt, að af skattatekjum þeim, sem innheimtar verða samkvæmt l., skulu þrjár millj. ganga til endurbóta á alþýðutryggingunum. Enn fremur var leiðrétt það misræmi, sem áður var í l. um skattaívilnanir smáútgerðarinnar og þær gerðar hlutfallslega jafnar skattaívilnunum stórútgerðarinnar.

Þm. úr Sósfl. fluttu brtt. við dýrtíðarfrv., sem fól í sér ákvæði um afnám varasjóðshlunninda hlutafélaga, annarra en þeirra, sem sjávarútveg stunda, og að skilyrði fyrir hlunnindum þeirra hlutafélaga, sem sjávarútveg stunda, væri, að allt hið skattfrjálsa fé rynni í nýbyggingarsjóði þeirra. Enn fremur, að smáútgerðin nyti hlutfallslega sömu hlunninda með sömu skilyrðum, en að skattahlunnindin féllu hins vegar niður, þegar nýbyggingarsjóðirnir hefðu náð ákveðnu marki.

Reynslan sýndi, að ekki var unnt að fá þessi ákvæði inn í dýrtíðarl., svo að hagur væri að. Í fyrsta lagi vegna þess, að tillagan var stórskemmd við 3. umr. í neðri deild, þótt hún næði samþykki við aðra umr. En samtímis þurfti að tryggja framgang víðtækari breyt. á skattal., m. a. til að efla meir nýbyggingarsjóðina og búa tryggilega um þá. Þess var enginn kostur við afgreiðslu dýrtíðarfrv.

Í öðru lagi sýndi það sig, að ekki var hægt að fá viðunandi lagfæringar á dýrtíðarl., nema þau væru skilin frá skattal.

Lagfæringarnar á dýrtíðarl. náðu fram að ganga, 3 millj. voru lagðar til alþýðutrygginga án nokkurra kvaða, og felld voru niður tilmælin til verkalýðsfélaganna um 12% kauplækkun í maímánuði. Hins vegar varð ekki annað ráðið af umræðunum en að öruggur meiri hluti væri í þinginu fyrir þeim höfuðbreyt. á skattal. — út af fyrir sig —, sem Sósfl. vill fram koma, og því hættulaust að láta það bíða nokkra daga.

Það er því ofur skiljanlegt, þó að skattamálin yrðu að víkja í þessu sambandi að öðru en því, sem þurfti til að afla tekna vegna sjálfra dýrtíðarráðstafananna. Enda fór það svo. Og það er einmitt það atriði, sem Framsfl. þykist geta notað sem árásarefni á Sósfl. — og hefur hingað til a. m. k. getað notað til að veita útrás þeirri geysilegu heift, sem greip hann, þegar dýrtíðarfrv. fékk afgreiðslu án hans atbeina.

En af hverju stafar þessi heift Framsfl.? Er það af því, sem hann segir, að skattamálin voru að mestu skilin frá afgreiðslu dýrtíðarfrv.? — Nei, það er ekki af því. Enn hefur Alþ. setu, og Framsfl. veit vel, að hann getur, hvenær sem hann vill, fengið þingmeirihluta fyrir nýjum skattal., til þess að taka stríðsgróðann af burgeisunum, ef hann jafnframt vill fallast á, að fénu, sem þannig kæmi inn, væri verið til raunhæfra, þjóðfélagslegra umbóta. Stríðsgróðamennirnir eru þess vegna alls ekki sloppnir — og sleppa ekki lengur en Framsfl. vill vera láta!

En það er annað, sem veldur heift Framsfl.

Ég gat þess áður, hvert hefði verið höfuðsjónarmið hans í viðræðunum um dýrtíðarfrv., þ. e. að fá fyrst og fremst kaup launþeganna lækkað. Framsfl. bjóst við að geta fengið Sjálfstfl. til að samþykkja þetta sjónarmið með sér gegn verkalýðsflokkunum. Þess vegna lét hann samkomulagið við þá stranda. Og þegar verkalýðsflokkarnir í staðinn ná samkomulagi við Sjálfstfl. — án nokkurrar kauplækkunar — þá þykist Framsfl. illa hafa misst spóninn úr askinum sínum og lætur heiftina fá útrás í svívirðingum um Sósfl. — Og það er ekkert skorið utan af sneiðunum! — „Moskva-klíkan og Kveldúlfsklíkan fallast í faðma“, segir Tíminn stórhneykslaður. — „Fella niður afnám sjóðshlunninda hjá gróðafélögunum . . .“ „Verður ríkjandi skattastefna á þessu ári, að útsvör og skattar á flestum vinnustéttum stórhækka, en gróðamennirnir, heildsalar og stórútgerðarmenn, halda hlunnindum sínum óbreyttum“. Og svo telur Tíminn upp með tárin í augunum nokkur hlutafélög, eins og Völund, h.f. Gamla Bíó, h.f. Eddu o s. frv., sem græði stórfé á þessum ólukku skattahlunnindum.

Já, það er ekki ofsögum sagt af því, hversu stríðsgróðamennirnir sleppa billega, og það er svei mér gott, að Tíminn og þá væntanl. Framsfl. líka er farinn að finna það! En einu gáir Framsfl. ekki að í þessu sambandi, og það er, að það er að hengja bakara fyrir smið að vera að hella svívirðingum yfir Sósfl. fyrir gildandi skattal. og hinar afleitu afleiðingar þeirra. Það vita sem sé allir, að Sósfl. hefur ekki átt nokkurn minnsta þátt í setningu þessara skattal. Hins vegar gortaði Framsfl. mikið af því á sínum tíma, að hann hefði notað sér pólitíska örðugleika Sjálfstfl. í sambandi við frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík í ársbyrjun 1942 til þess að kúga Kveldúlfsvaldið til að fallast á þessi ágætu skattalög. Þann siguróð söng Framsfl. við raust, þangað til hv. þm. G.-K., Ólafur Thors, þáv. atvmrh., sá sér færi á að hrópa enn hærra út yfir landsbyggðina, í eldhúsdagsumræðum, ef ég man rétt: „Þetta eru skattalögin mín!“ Svo eru þessi skattalög, sem allir „innangarðsmenn“ þá vildu eiga, orðinn mesti smánarblettur á Sósfl., sem engan stafkrók í þeim á né vill eiga!

Nei, Framsfl. ætti ekki að láta heiftina hlaupa þannig með sig í gönur. Hann veit, að engu tækifæri þarf að vera sleppt, þótt skattamálin væru slitin úr tengslum við afgreiðslu dýrtíðarfrv. Og það er miklu hyggilegra af honum að taka upp alvarlegar viðræður við Sósfl. um gagngera breytingu skattal. og aðgerðir til þess að ná í stríðsgróðann og hagnýta hann til þjóðfélagslegra umbóta heldur en að eyða orku sinni og útgáfutækja sinna til að svívirða Sósfl. fyrir það, sem Framsfl. sjálfur hefur illa gert í þessum málum. Og síðustu daga skildist manni, að ekki væri loku fyrir það skotið, að Framsfl. sneri sér inn á þessa braut, þ. e. a. s. gengi til samstarfs við Sósfl. um lausn skattamálanna í stað ástæðulausra brigzlyrða. Fyrsta sporið hafði þegar verið stigið með því, að Sósfl., Alþfl. og Framsfl. hafa borið fram sameiginlega frv. um eignaaukaskatt.

Samkvæmt frv. þessu skal á árinu 1943 leggja sérstakan skatt á eignaaukningu, sem orðið hefur á árunum 1940, 1941 og 1942 og er umfram 80 þús. kr. hjá hverjum skattþegni, enda nemi skuldlaus eign hans að skattinum frádregnum eigi lægri upphæð. Skatturinn reiknast þannig: Af 80–200 þús. kr. greiðist 20% af því, sem er umfram 80 þús. kr.

Af 200 þús. til l millj. greiðist 24 þús. af 200 þús. og 25% af afgangi.

Af 1 millj. greiðist 224 þús. og 30% af því, sem er þar fram yfir.

Gert er ráð fyrir, að í reglugerð verði sett sérstök ákvæði til tryggingar réttum framtölum, svo sem með nafnskráningu verðbréfa. Áætlað er, að með skatti þessum muni nást allt að 20 millj. af stríðsgróðanum, og kveður frv. svo á að því fé skuli varið þannig: 1/3 gengur til alþýðutrygginga og byggingar verkamannabústaða, 1/3 til raforkusjóðs, byggingar nýbýla og landnáms í sveitum og 1/3 til framkvæmdasjóðs ríkisins, en hann er ætlaður til endurnýjunar atvinnutækja og nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar að lokinni þessari styrjöld.

Sósfl. vildi, að nokkru af þessu fé yrði varið til heilbrigðis- og menningarmála, þ. e. a. s. til byggingar sjúkrahúsa og skólahúsa, en um það fékkst ekki samkomulag.

Auk þess, að áðurnefndir þrír flokkar flytja sameiginlega þetta frv. um eignaaukaskatt, hafa farið orð á milli Framsfl. og Sósfl. um frekara samstarf að skattamálunum. Þannig barst Sósfl. hinn 16. þ. m. bréf, þar sem Framsfl. býður honum samkomulag um að flytja nú þegar á Alþ. frv. um nánar tilgreindar bráðabirgðabreyt. á skattal. og jafnframt samkomulag um að fylgja frv. fram með þeim mesta hraða, sem unnt er, þannig að það verði afgreitt sem lög fyrir þingfrestun.

Sósfl. svaraði þessu bréfi um hæl þannig: „Sósfl. hefur í undirbúningi tillögur um breyt. á skattal. og um stríðsgróðaskatt, og fjalla þær meðal annars um afnám varasjóðshlunninda, að svo miklu leyti sem sjóðunum er ekki varið til nýbygginga, og um eflingu og tryggingu nýbyggingarsjóðanna. Eru þar í þau aðalatriði um þetta efni, sem áður hafa fram komið af hálfu flokksins og hann telur nauðsynleg, auk nokkurra víðtækari breytinga. — Vér munum sýna yður þessar tillögur, jafnskjótt og þær eru tilbúnar, og þætti mjög æskilegt, að samvinna gæti tekizt við yður um þær og að þeim yrði hraðað svo, að hægt yrði að afgreiða málið, áður en þ. verður frestað“.

Eins og þessi bréfaskipti bera með sér, hefur Framsfl. þrátt fyrir kastið, sem hann fékk út af afgreiðslu dýrtíðarfrv., nú viðurkennt, að enn sé tækifæri til að gera nauðsynlegar breyt. á skattalöggjöfinni, og hafði Sósfl. vænzt þess, að samstarf tækist um þetta nú í byrjun þessa þings. En nú hefur Framsfl. aftur sýnt sitt rétta andlit.

Að sjálfsögðu er Sjálfstfl. hið mesta kappsmál, að breytingar á skattal. nái ekki fram að ganga nú þegar, því að ef tekst að draga það, þó að ekki sé nema fram á haustið, eru stríðsgróðamennirnir sloppnir við hina nýju álagningu á tekjur þeirra árið 1942. Sjálfstfl. beitir sér þess vegna fyrir því, að Alþ. sé frestað nú þegar, áður en tími vinnst til að afgreiða skattafrv., og formaður Framsfl. hefur nú lýst yfir því, að flokkur hans fallist á þessa kröfu Sjálfstfl. um tafarlausa þingfrestun, þ. e. a. s. Framsfl. er reiðubúinn að gera það fyrir stríðsgróðamennina að hlaupa frá skattafrv. óafgreiddum, svo að þeir geti bjargað stríðsgróða sínum frá síðasta ári. Framsfl. ræðst heiftarlega á Sósfl. fyrir að sleppa skattamálunum í sambandi við afgreiðslu dýrtíðarfrumvarpsins, þótt ekki væri þá hægt að ná samkomulagi við hann um sameiginlega lausn þeirra mála. Síðan viðurkennir Framsfl., að enn sé tími til að leysa skattamálin, og tekur þátt í að bera fram frv. um þau. En þegar á skal herða, hleypur hún frá öllu saman af hlífð við stríðsgróðamennina. Þannig lýsir Framsfl. sjálfum sér með starfsháttum sínum.

Tillögur Sósfl. í skattamálunum, sem hann nú hefur lagt fram frv. um, eru í fáum orðum þessar:

Felld séu niður varasjóðshlunnindi hlutafélaga, annarra en þeirra, sem sjávarútveg stunda. Hlutafélög, sem stunda sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, svo og einstaklingar og sameignarfélög í þessari atvinnugrein, geta hins vegar fengið 1/3 af hreinum tekjum sínum skattfrjálsan, ef þau leggja þann hluta allan í nýbyggingarsjóð. Nú er nýbyggingarsjóður orðinn jafnhár hæfilegu vátryggingarverði skips eða skipa skattþegns að dómi ríkisskattan. eða sjóðurinn er orðinn 2 millj. kr., og má hið skattfrjálsa framlag í nýbyggingarsjóð þá eigi nema hærri upphæð en 1/6 af hreinum tekjum félagsins. Þessi takmörkun á skattfrjálsu nýbyggingarsjóðsframlagi skal þó ekki koma til greina, fyrr en sjóðurinn er orðinn 200 þús. kr.

Heimild, sem nú er í skattal. til þess að nota fé nýbyggingarsjóðs í taprekstur, verði felld niður. Enn fremur sett ákvæði um það, að ef skattþegn verður gjaldþrota, skal nýbyggingarsjóður hans ekki renna til þrotabúsins, heldur í sérstakan sjóð, sem Sósfl. leggur til, að stofnaður verði, og nefnist hann: Hinn almenni nýbyggingarsjóður.

Allur sá skattur, sem verða kann vegna slíkra laga, af tekjum þeirra skattþegna, er stunda sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, — þ. e. a. s. sá aukni skattur, sem þessir aðilar greiða, þegar nýbyggingarsjóður þeirra færi fram úr áðurgreindu hámarki, skal renna í þennan almenna nýbyggingarsjóð.

Sá hluti skattaukans, sem inn kemur af tekjum skattþegna í hverju bæjar-. og sveitarfélagi, skal vera séreign viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags í sjóðnum. Einnig verður séreign viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags það fé, sem í sjóðinn rennur við gjaldþrot skattþegns, sem nýbyggingarsjóð hefur átt, samkv. því, sem áður segir.

Fé þessa sjóðs má aðeins nota til endurnýjunar fiskiflotans.

Allar aðrar skatttekjur, sem leiddi af framkvæmd till. þessara, þ. e. vegna afnáms varasjóðshlunninda almennra hlutafélaga, ætlast Sósfl. til, að gerðu ríkissjóði kleift að lækka eða afnema tolla af almennum neyzluvörum, aðkeyptum vörum, sem sjávarútvegurinn þarf til framleiðslu sinnar, og efni til skipasmíða. Ef fé yrði afgangs frá þessu, rynni það í Framkvæmdasjóð ríkisins.

Þá vill Sósfl. hækka að miklum mun persónufrádráttinn til þess þannig að lækka skatta lágtekjumanna.

Ef þessar till. Sósfl. næðu fram að ganga, mundu þær í fyrsta lagi hafa í för með sér stórkostlega aukningu á nýbyggingarsjóðum útgerðarinnar, þar sem hið skattfrjálsa framlag rynni allt í nýbyggingarsjóðina, í stað þess að samkvæmt núgildandi l. skal aðeins helmingur þess ganga til nýbygginga. Enn fremur hækkar skattfrjálst framlag smáútgerðarinnar úr 1/5 í l/3, og rynni það einnig allt í nýbyggingarsjóði. Við þetta bætist svo hinn almenni nýbyggingarsjóður, samkv. því, sem áður segir, og yrði með öllu þessu séð miklu betur fyrir endurnýjun fiskiflotans en nokkru sinni fyrr.

Þá yrði einnig með þessum tillögum tryggt, svo sem verða má, að allir nýbyggingarsjóðir yrðu eingöngu notaðir til að endurnýja skipastólinn — og til einskis annars —, og er það mest um vert.

Þá er með till. stefnt að því að gera ríkissjóði kleift að lækka tolla á nauðsynjavörum, vörum til útgerðarinnar og efni til skipasmiða, draga þannig úr dýrtíðinni og bæta starfsskilyrði útgerðarinnar. Féð til þessa væri eingöngu tekið af skattþegnum, sem tekið hafa stórgróða af öðru en útgerð og notið hafa sérstakra skattahlunninda til þessa.

Tillögurnar fela einnig í sér, að þegar auðug gróðafélög hafa safnað mjög stórum sjóðum, þá sé takmörkuð einkaeign þeirra á þessum fjármunum, sem orðið hafa til vegna stríðsgróða. Hins vegar er með stofnun hins almenna nýbyggingarsjóðs, sem á að vera almenningseign, séð fyrir því, að þessar takmarkanir verði ekki til þess, að minna fé sé lagt til nýbyggingar fiskiflotans — nema síður sé. Rétt þykir, að þessi almenni nýbyggingarsjóður skuli vera eign þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þar sem skatturinn er á lagður, til þess að hann geti fyrst og fremst orðið á þeim stöðum á landinu, þar sem menn byggja mest afkomu sína á útgerð. Með því er hins vegar engu slegið föstu um opinberan rekstur á útgerð í framtíðinni, heldur aðeins verið að tryggja, að fiskiskip og framleiðslutæki fyrir sjávarútveginn verði smíðuð fyrir féð, og má síðar fá þau í hendur einstaklingum eða félögum, ef hentara þykir.

Sósfl. hefur ekki einn út af fyrir sig, eins og kunnugt er, atkvæðamagn í þinginu til að koma fram þessum eða öðrum umbótamálum. Reynslan, sem hann til þessa hefur af samstarfsmöguleikum við Framsfl., er ekki glæsileg. Varla nokkurri umbótatill. Sósfl. hefur Framsfl. fengizt til að fylgja, heldur stritazt á móti í stöðugri viðleitni til að stilla hvorum gegn öðrum: Hagsmunum sveitafólksins og alþýðunnar við sjávarsíðuna.

En eftir þann hávaða, sem Framsfl. nú hefur gert út af því, að skattamálunum var að mestu sleppt við afgreiðslu dýrtíðarfrv., verður að vænta þess, að Framsfl. láti ekki á sér standa að afgreiða skattamálin á viðunandi hátt, — og ættu þá verulegar umbætur í því efni að vera tryggðar.

En hvernig sem það kann að fara, mun Sósfl. halda áfram baráttu sinni fyrir ýmiss konar þjóðfélagslegum umbótum og bættum kjörum alþýðunnar til sjávar og sveita. Og í þeirri baráttu mun hann án allra hleypidóma gera bandalag við hvern þann flokk og hvert það afl, sem hverju sinni vill ljá góðum málstað lið.

Slík barátta flokksins fyrir þjóðfélagslegum umbótum miðast þó engan veginn við það, að varanleg lausn vandamálanna um sambúð þjóðfélagsþegnanna rúmist innan ríkjandi þjóðskipulags, heldur aðeins við hitt, að gera alþýðu manna lífið lítið eitt bærilegra í þessu þjóðskipulagi, unz skilyrði eru sköpuð til að afnema það og byggja upp annað betra.