01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2239)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Haraldur Guðmundsson:

Ég get tekið undir það, sem hv. 1. flm., frsm. málsins, sagði hér áðan. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess, nema fram komi um það óskir, að tefja málið með því að vísa því til n. En ég vil leggja áherzlu á það, að þessari athugun verði hraðað svo sem verða má. Vildi ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að leggja hér fram skrifl. brtt. við þáltill., þess efnis, að á eftir orðunum, „að reiknað verði út“ í meginmáli till. komi: svo fljótt sem verða má. — Ber ég þessa till. fram til þess að leggja áherzlu á, að hafizt verði handa tafarlaust um að gera þessar athuganir. Ég hygg, að þar sem um jafnstórvægilegt atriði er að ræða og ákvörðun verðlags á landbúnaðarafurðum hér innan lands, — ekki aðeins í bili, heldur til styrjaldarloka, þá verði að teljast fullkomin ástæða til þess, að sá grundvöllur, sem verðákvörðunin samkv. 1. og starfi sex manna n. er byggð á, verði svo traustur og almenningi svo kunnur sem nokkur tök eru á.

Ég skal ekki frekar en hv. frsm. benda á einstök atriði, sem mér finnst vanta upplýsingar um, heldur aðeins vekja athygli hv. þdm. á því, að bændur þurfa að fá fyrir kjötið kr. 6,82 fyrir hvert kg heim, sem mér skilst sjö og hálffalt það verð, sem var meðalverð fyrir þessa vöru til bænda fyrir stríð, sem mun hafa verið 90 aur. fyrir hvert kg, og kr. 1,23 fyrir hvern lítra mjólkur heim, sem mun vera um það bil fimmfalt verð á við það, sem fyrir stríð var á verðlagssvæði Reykjavíkur. Á sama tíma virðist mér kaupgjaldið hafa 3,6 — faldazt hér í Reykjavík, miðað við Dagsbrúnarkaup, frá því fyrir stríð. M. ö. o., kjötið hefur þurft að hækka tvöfalt meira en Dagsbrúnarkaup í Reykjavík. Þessar niðurstöður n. komu mér svo á óvart, að ég vil styðja að hverjum skynsamlegum aðgerðum, sem mega verða til þess að gera almenningi ljóst, á hverju þessar niðurstöður eru byggðar.

Ég vænti, að hv. 1. flm. hafi ekkert á móti þessari brtt. (BBen: Nei, nei).