01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2246)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég tel þetta mjög þarflega þáltill. og er henni algerlega fylgjandi. Ég get að vísu ekki verið sammála hv. 3. landsk. þm. um það, að þessi niðurstaða n. komi mér sérstaklega á óvart þrátt fyrir tölurnar, sem hann nefndi, vegna þess að n. byggir alls ekki niðurstöður sínar á samanburði á Dagsbrúnarkaupi, sem almennir verkamenn í Reykjavík hafa, við þær tekjur, miðað við verðlag, sem bændur þurfa að fá fyrir sínar vörur, heldur er samanburðurinn fólginn í því að finna tekjur, sem bændur þurfa að fá, með samanburði við aðrar vinnandi menn í landinu, þar sem teknir eru með í reikninginn almennir verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, þó ekki sjómenn, sem fá greidda áhættuþóknun. Það er ekki miðað við Dagsbrúnartaxta, heldur við tekjurnar yfirleitt, hvort sem þeirra er aflað með dagvinnu, eftirvinnu eða næturvinnu, og aðeins reiknað eftir skattskýrslum.

Nú er vitað, að með þeim nauma tíma, sem n. hafði til starfa, var þetta meðaltal alls ekki eins öruggt og nauðsyn hefði til borið. Það er mjög fjarri því, að það sé öruggt. Og enn þá minna öryggi er fólgið í útreikningi n. á því, hvað þurfi að selja landbúnaðarafurðir, til þess að bændur hafi þessar tekjur, þar sem byggt er á búreikningum, sem áreiðanlega eru mjög ófullkomnir og n. hafði ekki aðgang að öðruvísi en að vita úr þeim meðaltal undanfarinna ára frá búreikningaskrifstofu ríkisins, án þess að hafa frumgögn í höndum. Þetta er nóg til þess, að allir hljóta að vera sammála um það, að nauðsyn er á að endurskoða þennan grundvöll, ef hann á að gilda til frambúðar.

Þessi þáltill. fer fram á það fyrst og fremst, að öll gögn, sem sex manna n. byggði á, séu lögð fram. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt. Ég býst við, að allir hv. þm. hafi aðgang að þessum gögnum. Og birt hefur verið í blöðum og almenningi er kunnugt, hver er stærð þess bús, sem miðað er við sem meðalbú. En hins vegar er sjálfsagt, að þetta sé allt upplýst og komi fram og n. geri ýtarlega skilagrein. Hitt er vitanlega ekki síður mikils virði og reyndar meira virði, sem er nú aðalefni þáltill., að mér skilst, að það verði reiknað út, hvaða verð mundi hafa verið á landbúnaðarafurðum undanfarin ár, ef reiknað hefði verið út eftir þessum grundvelli, sem n. hefur nú byggt niðurstöður sínar á. Þetta er ákaflega mikils vert að fá að vita til þess að geta gert sér ljósa grein fyrir, hvaða áhrif starf n. hefur haft á dýrtíðina í landinu. Ef það kæmi í ljós, að verð landbúnaðarafurða hefði verið lægra á undanförnum árum, ef það hefði verið reiknað út með reikningsaðferð n., heldur en raun hefur á orðið á undanförnum árum, þá er sýnilegt, að starf n. hefur þrátt fyrir allt og þrátt fyrir hækkun, sem orðið hefur á kjötinu, orðið til þess að minnka dýrtíðina í landinu, þ. e. a. s., ef gert er ráð fyrir, að verðlagsn. hefði annars ákveðið verðið á því í ár eftir sömu reglum og undanfarin ár. Þetta er ekki hægt að fullyrða neitt um, fyrr en gögnin fyrir niðurstöðum n. í þessu efni liggja fyrir.

En það, sem ég tel höfuðatriðið í þessu máli, er, að grundvöllurinn, sem n. byggði á, verði endurskoðaður, áður en næsta verðákvörðun verður gerð á næsta ári. Og til þess skilst mér, að þurfi lagabreyt., því að ég tel sjálfsagt, að næsta ár verði verðlagið athugað á ný eftir sömu meginreglum og nú. Ég sé því ekki annað en nauðsyn beri til þess, að n. haldi áfram störfum. Hins vegar er gert ráð fyrir því í l., að á þeim grundvelli verði byggt til styrjaldarloka, sem n. ákvað nú, af svo miklum vanefnum sem það var gert. En ég tel það ekki rétt, heldur, að n. þurfi nú að endurskoða þann grundvöll sinn, sem hún byggði niðurstöður sínar á fyrir næsta ár og n. þurfi þá að athuga verðlagið á ný.