01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2252)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Brynjólfur Bjarnason:

Ég veit vel, að þessi till. heimtar ekki endurskoðun á útreikningum sex manna n., en tel nauðsyn, að hún fari fram eigi að síður, og um það var n. sjálf sammála, að því er virtist, þótt hv. þm. Str. sé á gagnstæðri skoðun. Til þess að útreikningar n. gætu orðið nægilega traustir, þurfti lengri tíma en hún réð yfir og söfnun miklu víðtækari gagna. N. vissi, að henni hafði ekki tekizt að fá nándar nærri nógu víðtæk úrtök til að álykta af um tekjur landsmanna utan Reykjavíkur. Hún tekur fram, að í Rvík hafi verið teknir 226 manns, verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, en utan Reykjavíkur gerð fullkomin talning í einum 3 kauptúnum með yfir 1000 íbúa og öðrum 3 með 300–1000 íbúa og segir: „Framvegis mætti gera talninguna víðtækari, ef ástæða þætti til og tími ynnist til þess“. Vegna tímaskorts miðaði n. við það að geta fengið sæmilegar bráðabirgðaniðurstöður og meira ekki, í því trausti, að síðar mætti víkka rannsóknargrundvöllinn, ef til frambúðar yrði á honum byggt. Nú er hægt að halda rannsókninni áfram, og er brýnt að gera það tafarlaust. Sérstaklega er það þó rannsókn búreikninganna, sem gera þarf miklu víðtækari. Hv. þm. Str. hélt því fram, að nákvæmlega sama væri að hafa niðurstöður búreikninganna og að hafa þá sjálfa og frumgögnin öll. Þetta nær vitanlega engri átt. Þó að ég hafi enga ástæðu til að rengja það, að Guðmundur Jónsson, sem allar niðurstöður búreikninganna eru hafðar eftir, sé hinn trúverðugasti maður, er vitanlega margt í þeim álitamál og getur þurft leiðréttingar við. Eins og ljóst er af nál. sex manna n., voru sumir hlutir þar svo bersýnilega villandi, ef byggja átti á þeim sem meðaltölum, að hægt var að leiðrétta þá eftir hagskýrslum um útflutning og öðrum opinberum heimildum. Þarna koma til greina afar mörg sjónarmið og ekki á annarra færi en æfðra hagfræðinga í þessari grein að vinna óyggjandi niðurstöður út úr frumgögnum búreikninganna. Ég get ekki skilið annað en allir hljóti að vera sammála um, að grundvöll útreikninganna þurfi að endurskoða. Um það er a. m. k. enginn ágreiningur meðal þeirra, sem að þessu hafa starfað. Verkið þarf að vinna, áður en verðlag verður ákveðið í næsta skipti í hlutfalli við kaupgjald.