09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Finnur Jónsson:

Ég kemst ekki hjá því að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. forseta, því hann hefur rétt nýlega upplýst, að Alþ. hafi fellt mál, „sem ríkisstj. stóð að“, hvaða mál það var, sem hann átti við. Ég hef ekki orðið var við, að ríkisstj. hafi staðið að neinu máli um tekjuöflun til handa ríkissjóði, sem flutt hefur verið hér á Alþ., og þar sem það er ekki sjáanlegt í neinum skjölum, verð ég að fræðast af forseta.

Það kom fram í Ed. frv. um tekjuöflun, þskj. 401, frá hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Dal., og var það fellt. Á þskj. sést hvergi, að það hafi verið flutt að beiðni ríkisstj. Það er ekki í sjálfu frv. og ekki heldur í grg. Það, sem hæstv. forseti upplýsti, hlýtur því að vera rangt, nema því aðeins, að það hafi verið upplýst í umr. um málið. Það er alveg eins og hæstv. ríkisstj. hafi ekki óskað eftir því að láta nafns síns getið, þótt hún e. t. v. hafi staðið á bak við frv.

Venja er, þegar mál eru flutt að tillagi ríkisstj., að hún flytji þau sjálf eða þess sé getið í grg. Mér koma því upplýsingar hæstv. forseta einkennilega fyrir, án þess að ég vilji rengja þær. Vera má, að hann hafi einhverjar taugar til ríkisstj., sem aðrir hafa ekki.

Nú er ljóst af því, sem komið hefur fram síðustu daga, að störf Alþ. og stjórn landsins eru að komast í öngþveiti. Ég er ekki að álasa hv. ríkisstj. með þessum orðum, því að hún getur ekki gert annað en það, sem þingið leyfir. Hins vegar verður ekki hjá því komizt að minnast á þau atvik, sem valda því, að frv. þetta er komið fram. Atvikin eru þau, að í byrjun þings fóru fram undirskriftir af hálfu þm. 28 þm. undirskrifuðu samkomulag um að tryggja bændum það verð, sem þeim bar samkv. niðurstöðum sex manna n. Því hefur verið haldið fram, að dýrtíðarl. hafi gert ráð fyrir slíkum uppbótargreiðslum, en hafi svo verið, hvers vegna þurfa þá þm. að forsvara sig á sérstöku skjali? Gerðu þeir ráð fyrir, að ríkisstj. mundi ekki greiða uppbæturnar? Gerðu þeir ráð fyrir, að hún mundi brjóta l. á bændum? Annan veg verður þetta ekki skilið. Það er alveg óvenjulegt að safna undirskriftum þm. til að segja fyrir um, hvernig verja skuli fé úr ríkissjóði, þegar fyrir liggur afgreiðsla fjárlaga.

Snemma á þessu þingi leitar ríkisstj. fyrir sér um leyfi til að hækka álagningu á tóbaksvörur og gerir ráð fyrir, að þær tekjur ásamt hækkuðu verði á áfengi nemi ca. 8 millj. kr., og lætur þess getið, að ætlazt sé til, að fé þessu sé varið til að greiða niður verð landbúnaðarafurða eða til að halda niðri vísitölunni. Í sambandi við þetta urðu nokkrar umr., og lofaði þá ríkisstj. því, að hún mundi leita heimildar Alþ. um þessar greiðslur. En öllum var ljóst, í hvaða skyni álagningin var hækkuð.

Næsti liður er svo samkomulag fjvn. um að taka þessa tekjuáætlun inn á fjárl., og létu þá nokkrir menn í fjvn., — án þess að ég sé að segja frá því, sem gerðist í n., — þess getið, að þeir mundu síðar leggja fram till. um útgjöld móti þessum tekjum. Ég held, að menn hafi almennt skilið það, að það yrði þá komið á móti ósk hæstv. ríkisstj. um heimild til að greiða þetta fé. Þann 19. nóv. gekk fjvn. frá höfuðtill. sínum. Þá var enn spurt um, hvort till. lægi fyrir um það, hvernig verja skyldi þessum tekjuauka. Ég gerði þá till., að 9,5 millj. kr. skyldi varið til skipakaupa, og sú till. mun liggja fyrir til atkvgr., þegar fjárl. eru afgr. við 3. umr. Þessi till. kom ekki fram í till. fjvn., og liðu þá 16 dagar, þangað til við 3. umr. fjárl., að meiri hl. n. kom fram með till. um að verja því fé, sem ríkisstj. aflaði eins og ég hef greint, til greiðslu á uppbót á útfluttar landbúnaðarafurðir. Þetta mun hafa komið ríkisstj. og öðrum nokkuð á óvart, og þegar spurt var, hvort þessar 10 millj. væru ekki óþarflega mikið fé til þessa, þá var svarað, að verðuppbætur yrðu einhvers staðar á milli 8 og 16 millj. kr. Ef þær skyldu ekki verða nema 8 millj., þá verður tekjuafgangur 2 millj., en ef þær verða 16 millj. króna, hvar ætla þá þeir, sem standa að þessum undirskriftum, að taka þessar 6 millj., sem á vantar?

Ég bið forseta afsökunar, að ég hef rakið þetta mjög almennt, en ég verð að gera það, vegna þess, að það er þessi 10 millj. kr. till., er valdið hefur öngþveiti því, sem nú er orðið á Alþ. og stendur í sambandi við það mál, sem nú er á dagskrá.

Nú hef ég sagt, að ég vil ekki ásaka ríkisstj. um, að þetta öngþveiti hefur orðið, en hitt verður að segja, að eins og ástatt er í landinu, hefði þurft að bera fram till. um að miðla á milli stétta og atvinnuvega á allan mögulegan hátt. Þetta hefði verið veglegt hlutverk fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún hefði borið fram till. um að miðla milli stéttanna því fé, sem nú á að verja til að bæta hag einnar stéttar í landinu, og þá einnig borið fram till. um framtíðargrundvöll atvinnuveganna að stríðinu loknu. Þeim ágætu mönnum, sem í stjórn sitja, hefði verið það til sóma. En annaðhvort hefur hún ekki skoðað það sem verkefni sitt eða ekki treyst sér til þess. Ef hún hefur ekki skoðað það sem verkefni sitt, þá átti hún ekki eins mikið erindi inn á þing og hún virðist hafa haldið. Ef hún hefur ekki treyst sér til þess, þá átti hún að biðjast lausnar. Það verður auðsjáanlega ekki lyft minnstu ábyrgð af þinginu í þessu efni. En eins og ég benti á, þá lágu þessi mál fyrir til lausnar. Þingflokkarnir báru ekki gæfu til þess að ná samkomulagi um lausn þeirra, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki borið fram neina sáttatill.

Nú hefur verið talað um, að nauðsynlegt væri að halda niðri vísitölunni, en því miður hefur komið í ljós, að það að halda niðri vísitölunni er ekki það sama og að halda niðri dýrtíðinni.

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið niðri flutningsgjöldum á innfluttum vörum. Hins vegar eru flutningsgjöld á öðrum vörum, sem verka ekki á vísitöluna og þau hafa farið fram úr öllu valdi. Og um flutningsgjöld gilda ein l. fyrir Rvík og önnur fyrir aðra landsbúa. Ef vörur frá útlöndum eru fluttar til Rvíkur, eru flutningsgjöld tiltölulega lág. Aðrir, sem fá þessar sömu vörur fluttar frá Rvík með Eimskip, verða að greiða 25% hærri flutningsgjöld og enn hærri, ef þær eru fluttar með öðrum skipum. Vísitalan er því hreinlega orðin fölsuð. Ég er ekki þar með að segja, að hún sé ekki rétt reiknuð út eftir þeim reglum, sem vísitölun. hefur. Þetta eru góðir reikningsmenn og fara eftir þeim reglum, sem þeim eru gefnar. En þegar farið er að gilda tvenns konar flutningsgjald á vörum, sem verka ekki á vísitöluna, þá er grundvöllur vísitölunnar orðinn rangur.

Ég get bent á, að við rannsókn, sem farið hefur fram á kostnaði útgerðarinnar, hefur komið í ljós, að hann hefur aukizt um 45%, síðan fisksölusamningurinn var gerður í fyrra. Vísitalan hefur því ekki komið að því gagni fyrir útveginn, sem til var ætlazt. Það hefur verið sagt, að vegna útgerðarinnar væri nauðsynlegt að „borga niður dýrtíðina“, eins og það er kallað, en eins og það er framkvæmt, hefur reynslan sýnt, að það hefur ekki komið að gagni fyrir útgerðina. Fyrir útgerðina er ekkert, sem kemur að gagni, nema að fá hækkað fiskverðið sem svarar hækkuðum kostnaði.

Nú má segja, að „frestur sé á illu beztur“ og að hver vertíð, sem hægt er að halda þetta út, sé þjóðinni í hag, en þegar horfur eru á, að á Alþ. ríki sú stefna, að verja þurfi tugum milljóna á ári til að borga niður vörur innan lands og greiða uppbætur á útfluttar vörur eins atvinnuvegar án þess að athuga, hvað öðrum líður, þá verður að spyrna á móti.

Það er ekki hægt að horfa þegjandi upp á það, að ríkissjóður sé þurrausinn á þeim mestu veltutímum, sem komið hafa hér á landi, án þess að reynt sé að leggja grundvöll að framtíðarskipulagi fyrir atvinnuvegi landsmanna. Eftir því sem ég get komizt næst, eru það milli 3l og 45 millj. kr., sem búið og ætlað er að verja til að greiða í uppbætur á landbúnaðarafurðir þriggja ára. Hvað greitt verður til að halda niðri dýrtíðinni innan lands þessi 2–3 ár, hygg ég, að geti ekki verið minna en 16–20 millj., og að viðbættu hinu eru það þá alls 45–60 eða 65 millj. kr. Það er auðséð, að þessu getur ekki haldið áfram, þetta er stjórnarstefna, sem er dauðadæmd, og því fyrr sem við gerum okkur það ljóst, því betra.

Ég held það hafi verið hæstv. fjmrh., sem var að reikna út, hverju þessi skattur mundi nema, og ég heyrði hv. 2. þm. S.-M. minnast á, að það mundi vitanlega valda einhverri dýrtíð, ef þessi 2% kæmu að einhverju leyti fram í verðhækkun á vörunni. Ef lagðir eru 2% á vöruverðið, þá getur það með öðrum kostnaði aldrei munað minna en 3%, þannig, að ef hér er um tolla að ræða að verulegu leyti, þá getur það aldrei orðið undir 1½ millj., sem almenningur þarf að greiða á þennan hátt, — eða sem næst það, sem hæstv. ríkisstj. ætlar til að greiða niður dýrtíðina.

En hvaða vit er það að taka úr öðrum vasanum til að láta í hinn? Er ekki betra að láta það eiga sig að vera að leggja þetta gjald á? Ég segi fyrir mig, að mér finnst það hrein hringavitleysa. Og það lítur út fyrir, að ríkisstj. sé búin að breyta um skoðun á því, hvað það sé, sem orsakar verðbólguna, — nema þeir tollar, sem gefnir verða eftir af nauðsynjavörum, verki á vísitöluna. En þá verður árangurinn sá, að vísitalan gefur rangari hugmyndir um verðið í landinu en hún hefur gert áður.

Mér skilst, að þeir 28 menn hér á Alþ., sem hafa með undirskriftum í byrjun þings komið þessu öngþveiti af stað í þinglokin, með því m. a. að setja ekki till. sínar fram fyrr en á síðustu stundu, þegar ekki er hægt að koma með till. til samkomulags, séu sekir um vítaverða framkomu. Þetta verður ekki skrifað á reikning ríkisstj. En hitt verður að játa, að ríkisstj. hefur ekki komið fram með neinar úrlausnartill. um það höfuðvandamál, sem fyrir þinginu lá, nema það eigi að skoða þetta frv. sem úrlausnartill. Ég veit það og a. m. k. Alþfl. lítur svo á, að slíkt frv. sem þetta verði á engan hátt til þess að leysa vandræðin. Það virðist vera sá andi ríkjandi hér á Alþ. meðal þeirra, sem öflugust ítök hafa í Framsfl. og Sjálfstfl., að þeir ætli sér að vinna að sínum málum alveg án tillits til þess, hvað fjárreiðum ríkissjóðs líður og hvað afkomu annarra stétta liður. Ég hygg, að það muni ekki ofmælt að segja, að bændastéttin óski ekki eftir þessum heimildum, en hitt er það, að fulltrúar hennar hér á Alþ. virðast vera þeirrar skoðunar, að þeir haldi ekki trúnaði sínum við bændastéttina, nema þeir noti þessa aðferð. Á ófriðartímum hlýtur slík togstreita með ríkisfé að leiða til hreins glundroða og þeir 28 menn, sem stóðu að þessum undirskriftum, bera í rauninni ábyrgðina á þessu. Nú er eftir að vita, hvað þeir ætla sér að gera, hvort þeir ætla að taka að sér að stjórna landinu.

Það hefur verið bent á það, að það væri farið að halla undan fæti fyrir sjávarútveginum og þetta fé, sem verið er að borga þessar uppbætur með og kemur frá sjávarútveginum, hefði þurft að nota til þess að endurnýja skipastólinn. Skipastóllinn okkar er orðinn hrörlegur, og hann verður að endurnýja. Ef það verður ekki gert, ef þar með kippt fótunum undan atvinnurekstri landsmanna og þá einnig undan slíkum uppbótargreiðslum sem þessum úr ríkissjóði. Vera má, að mönnum finnist að ég lýsi þessu með nokkuð dökkum litum, en ég held, að svo sé ekki. Ég held, að við séum með þessari togstreitu um ríkissjóðinn að koma ríkisbúinu í hið mesta öngþveiti, og hvað viðvíkur framtíðinni, þá ætti núverandi ástand að sannfæra þá, sem hafa haldið, að hægt væri að stjórna landinu með till., sem gengju milli flokka, um það, að það er ekki hægt að stjórna landinu, svo að vel fari, nema með ríkisstj., sem hefur þingflokka bak við sig og stjórnar eftir einhverri stefnu. Ef ekki verður innan skamms til ábyrgur meiri hl. þings, sem annaðhvort myndar stj. eða stendur að núverandi stj., er auðséð, að það leiði til vandræða. Ef til vill má segja, að það sé engin ástæða til að ræða þetta, það sé mönnum ljóst, en það væri ástæða til að óska þess, að þeir, sem standa að því að setja fram þessa 10 millj. kr. till., skýrðu frá því, hvort till. er lögð fram í hreinu ábyrgðarleysi eða hvort á bak við þetta stendur einhver vilji til þess að taka við stj. í landinu og stjórna því öðruvísi en nú er gert.