01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2263)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. (HG) undraðist það, að n. hefði yfirleitt tekið það gilt að byggja á meðaltölum búreikningaskrifstofunnar, án þess að hún birti frumgögn, sem hún hafi haft aðgang að. En hún hafði ekki aðgang að þeim, þau voru ekki fyrir hendi, það var búið að senda þau heim til bændanna, sem búreikningana héldu, og þau síðan álitin einkamál þeirra. Þetta er náttúrlega enn frekari ástæða til, að n. haldi áfram rannsóknum og endurskoði grundvöll þann, sem hún lagði.

Það var ofurlítill misskilningur hjá hv. þm. Str. og jafnvel hjá hv. 3. landsk. líka, að verkamannskaup væri reiknað eftir úrtökum. Úrtök voru ekki tekin nema í Reykjavík. Annars staðar hafa skattframtölin verið tekin öll. N. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Með því að enn er aðeins lítill hluti af skýrslum þessum kominn til Ríkisskattanefndar, varð n. að láta sér nægja kauptún með yfir 1000 íbúa (Ísafjörð, Húsavík og Vestmannaeyjar) og önnur 3 með 300–1000 manns (Bolungavík, Hólmavík og Seyðisfjörð), en hins vegar voru í þeim kauptúnum teknir upp allir þeir, er til greina virtust koma í þessu sambandi. Framvegis verður tíminn væntanlega ekki eins naumur, og mætti þá gera þessar skýrslur víðtækari“ o. s. frv. Þegar ekki eru tekin fleiri kauptún en nú voru talin, eru það alls ekki nægileg úrtök úr kauptúnum landsins. Það veit n. og leggur þess vegna áherzluna á það í þessu sambandi, að framvegis verði hægt að gera þetta betur. Sú yfirlýsing sannar, að n. gekk út frá því og samkomulag hennar byggðist beint á því, að grundvöllurinn yrði endurskoðaður, þegar tök yrðu á.

Sú hlið þessa grundvallar, sem að bændum snýr, þarf þó miklu meiri rannsóknar en hin, er varðar tekjur verkamanna. Það er ákaflega vandasamt að finna rétt meðaltal, þegar mismunur á aðstöðu er eins mikill og er meðal bænda hér á landi. Niðurstaða búreikningsskrifstofunnar eða Guðmundar Jónssonar byggðist aðeins á 40 einstaklingum af sex þúsund bændum. Það er vitanlega allt of lítið. Enn meira getur oltið á því, hvernig unnið er úr þessum framtölum, það þarf að gera af þeirri vísindalegu gerhygli, sem kostur er á, og af sérfróðum mönnum, og þeir þurfa að hafa aðgang að frumgögnum. Í þessum 40 búum eru sum rekin með stórtapi — ár eftir ár — og önnur með álitlegum hagnaði. Þarna kemur margt til greina. Hvaða bú á að taka? Hvernig á að vinna úr búreikningunum? Hvern búreikning um sig þarf að taka til sérstakrar athugunar, áður en byggt er á honum í meðaltalinu. N. öll og þar á meðal Guðmundur Jónsson var sannfærð um, að allt þyrfti þetta endurbóta við, og treysti á, að þær fengjust. Hún reyndi að lagfæra niðurstöður búreikninganna með samanburði við búnaðar- og útflutningsskýrslur. Mig furðar á hv. þm. Str., að hann skuli vera því mótfallinn, að sú endurskoðun sé gerð, sem n. ætlaðist til, og það er misskilningur, að með því sé verið að rifta samkomulagi, heldur þarf þess til að uppfylla samkomulagið.