01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2265)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. dm. vinsamlegar undirtektir við till. á þskj. 94. Það er satt bezt að segja, að ég held, að aldrei hafi verið komizt að niðurstöðu, sem sé ríkissjóði dýrari en niðurstaða sex manna n. Þm. telja, að ef eigi að halda dýrtíðinni í skefjum, muni grundvöllur n. kosta ríkissjóð 15–20 millj. á ári. Það er gífurleg fjárhæð, og er ekki óeðlilegt, að menn óski eftir rökstuðningi við svo gífurleg fjárframlög, tæmandi skýringum. Hinu er ekki hægt að leyna, að fram hefur komið ágreiningur um, hvort öruggt sé, að sá grundvöllur, sem nú er fundinn, sé sá rétti. Ég vil taka undir það með hv. 3. landsk. þm., að eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, er ekki hægt að gera sér grein fyrir, hvort grundvöllurinn er réttur, og ég tel þá fyrst tímabært að taka afstöðu til þess, hvort þörf er á endurskoðun eða ekki, þegar þm. hafa fengið þau gögn, sem um er beðið.

Ég undrast það, að n. skyldi telja sínu verki lokið án þess að prófa það á útkomu síðustu ár a, hvaða áhrif grundvöllurinn hefði haft.

Út af þeim ummælum hv. 3. landsk. þm., að það væri auðvitað rétt, sem n. gerði, þegar hún umreiknaði, hverjar tekjur mundu hafa orðið frá septemberbyrjun 1942 til ágústloka 1943, að telja verkamenn og iðnaðarmenn, en ekki sjómenn, vil ég segja það, að hér sýndist hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum einmitt vera töluverður galli, sem leiðir ekki til lækkunar. Á tekjum ársins 1942 kemur grunnkaupshækkun aðeins til greina um vissan hluta teknanna, en hjá n. er ekki tekið tillit til þessa, heldur eru bara teknar dýrtíðarvísitölurnar. Þarna er um furðulega reikningsskekkju að ræða, sem leiðir til þess, að verðlagið hjá bændum hefði orðið stórum hærra en nú er. Það getur verið, að n. hafi ekki gert þessa villu, en eftir því sem hún orðar þetta, sýnist svo vera. Ég tek undir það með hv. 3. landsk. þm., að meðalkaup n. fer langt fram úr því, sem búizt var við, úr því að ekki er tekið tillit til áhættuþóknunarinnar hjá sjómönnum. Í Ægi hafði birzt grein um, að þetta væri miklu hærra en sjómenn í einum fjórðungi hefðu haft. Meðaltalið 15500 er langt fyrir ofan það, sem verkamenn Reykjavíkurbæjar hafa haft, og eru þeir þó bezt settu verkamennirnir, með fasta vinnu og eftirvinnu. Það er ekkert við því að segja, því að n. átti að taka tillit til fleiri en verkamanna, en það vantar bara að gera grein fyrir, til hvers hún tók tillit.

Ég vil taka það fram, að þáltill. felur ekki í sér neina tortryggni í garð nefndarinnar.