09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Þá talaði hv. 2. þm. S.-M. með fjálgleik um það, að Framsfl. vildi ekki taka fram fyrir hendurnar á ríkisstj. Nei, aðra eins ósvinnu dytti Framsfl. ekki í hug að fara að gera. En hvað gerðu hinir 23? Tóku þeir fram fyrir hendurnar á ríkisstj., eða ráðfærðu þeir sig við hana? Mér þætti afar vænt um að fá upplýsingar um það frá hæstv. ríkisstj., hvort þessir 28 þm. hafa ráðfært sig við hæstv. ríkisstj., áður en þeir undirskrifuðu, um það, hvort þeir væru nú að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstj. með þessu athæfi. Mér er ekki grunlaust um, að meðal þessara 28 manna hafi verið einhverjir af framsóknarmönnum. Og ég gæti meira að segja trúað því, að enginn framsóknarmaður, sem er á þingi, hafi verið eftir fyrir utan hóp þessara 28 manna. Ég held, að hver framsóknarmaður, sem er á þingi, hafi gengið í hóp þeirra 28 manna til þess að taka fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstj. Og mér er ekki kunnugt um, að Framsfl. hafi ráðfært sig við hæstv. ríkisstj., áður en hann gerði það, Mér er ekki grunlaust um, að þessi sami Framsfl., þessir sömu hv. þm., sem hv. 2. þm. S.-M. talaði þarna í umboði fyrir, hafi komið sér saman á bak við. hæstv. ríkisstj. um það að ráðstafa fé úr ríkissjóði þvert ofan í vilja hæstv. ríkisstj. Ég man ekki betur en hæstv. ríkisstj. hafi sagt, að hún hafi verið búin að útvega sér fé, en svo hafi komið aðrir menn og tekið peningana. Svo kemur hv. formaður Framsfl. og segir:

Hvernig dettur ykkur í hug að taka fram fyrir hendur hæstv. ríkisstj.?!

Svo talaði hv. 2. þm. S.-M. um, að Framsfl. vildi hindra það, að dýrtíðin yxi. Hann kom inn á það, að smáútvegurinn ætti svo bágt, að það væri synd, ef nokkur v ildi gera annað eins og það að láta dýrtíðina vaxa. Og til þess að hlífa smáútvegsmönnum þá lýsti þessi hv. þm. yfir, að hann væri með því að leggja 2% innflutningsgjald á allar vörur, sem landbúnaðurinn þarf að kaupa frá útlöndum, 2% innflutningsgjald á olíu, 2% innflutningsgjald á allt, sem kaupa þarf til smáútvegsins frá útlöndum, bæði veiðarfæri, salt og efni til skipasmíða og hvað annað, sem vera skal, 2% innflutningsgjald á matvöru, m. ö. o. 2% innflutningsgjald á meira en helming á öllu því, sem vélbátaútvegsmenn þurfa til báta sinna. Og þetta segist hann ætla að gera til þess, — þó að dýrtíðin vaxi við þetta allt og komi þyngra niður á smáútvegsmönnum, — að þá lækki vísitalan, þegar borgað er niður verð á landbúnaðarafurðum. Og hvað skyldu vera margir smáútvegsmenn á landinu, sem hafa menn upp á kaup? Meginhlutinn af þessari útgerð er rekinn með hlutaskiptafyrirkomulagi, sem sé það kemur alls ekki við vísitölunni. Það kemur alls ekki til gagns fyrir þessa menn, þó að vísitalan lækki, ef dýrtíðin hækkar að verulegu leyti. Og þessi hv. þm. segir svo, að af umhyggju fyrir smáútveginum ætli hann sér að vera með því að hækka dýrtíðina um 2%, til þess að það sé hægt að kaupa vísitöluna í landinu niður um nokkur stig, sem smáútvegsmenn hafa ekki nokkurt gagn af. Þegar menn eru komnir út í svona aðferðir til þess að styðja málstað sinn, þá eru þeir orðnir fremur illa settir. Ég get þess vegna ekki betur séð en að afstaða Framsfl. — eftir þessari ræðu hv. formanns hans að dæma — sé alveg með endemum, hún sé svo vesalmannleg, að flokkurinn þori bókstaflega ekki að horfast í augu við, hvað hann gerir. Hann slengir fram einhverjum „frösum“, sem eiga ekki stoð í veruleikanum, talar fjálglega um, að þeir séu að lækka vísitöluna, en það sé til góðs fyrir smáútveginn, sem hafi versta aðstöðu, og fara svo að tala um, að það sé ósvinna af þinginu að fara að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstj. og lofa henni ekki að gera það, sem hún vill, eftir að þeir hafa gert það sjálfir, þessir menn, að taka svo freklega fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstj. að nota eftir geðþótta sínum tekjur, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að hafa í allt annað. Ef þetta eru einu rökin, sem koma fram með þessu frv. frá hv. þm. Framsfl., þá kemst þetta frv. ekki langt með rökum í þinginu.

Einn þingflokkurinn, og sá stærsti, hefur tekið þá mjög skynsamlegu afstöðu í þessu máli að segja ekki neitt, og er það honum til mikils sóma samanborið við þá frammistöðu, sem formaður Framsfl. hafði hér. Hins vegar verður varla hjá því komizt fyrir þann þingflokk að taka afstöðu, þegar til atkvgr. kemur (SigfS: Hann veit, hvað hann vill).

Ég held nú, að þegar þetta frv. kemst kannske til n., þá væri það heppilegast fyrir alla afgreiðslu dýrtíðarmálanna almennt í þinginu, að hæstv. ríkisstj. vildi mjög svo endurskoða afstöðu sína um það, hvort ekki væri heppilegra að taka það tillit til þeirra skrifa, sem hvað eftir annað hafa komið fram frá hálfu eins flokks í þinginu og margra samtaka utan þingsins, að fara aðra leið til þess að lækka dýrtíðina í landinu en þá að kaupa niður verð á landbúnaðarafurðum. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. er ekki svo ánægð með þá aðferð, að hún geti ekki fellt sig við að prófa aðra. Og það ætti að vera tími til þess, ef skaplega er að öllu farið og ekki beinlínis er verið að gera leik að því að sá hér til hins stærsta ófriðar í landinu. Og ég held, að það ætti ekki að fara að bæta því ofan á þann laumuleik þeirra 28 samsærismanna hér að fara að reyna að þvinga þetta frv. fram með offorsi.