16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2283)

20. mál, byggðasími í Álftaveri

Gísli Jónsson. Herra forseti. Ég vil á engan hátt leggja á móti þessari till., sem hér er til umr., en vil nota tækifærið til þess að benda á, að það er annað hérað á landinu, sem að vísu líður ekki af völdum Kötlugosa, heldur einangrunar, og það er Barðastrandarsýsla. Það eru hreppar þar, sem eru símalausir. Þeim var lofað síma árið 1935, og á síðasta þ. bar ég fram till. um, að veitt væri ákveðið fé til þess að efna þetta loforð, en hún var felld. Ég mun áskilja mér þann rétt að gera kröfu til þess að þau loforð, sem gefin voru á undan, verði efnd á undan þeim loforðum, sem síðar voru gefin. Ég geri ekki mikinn mun á einhverjum ógnum hugsanlegra Kötlugosa í þessari sveit og ógnum þeirra byggða, sem sakir samgönguleysis og símaleysis er gert örðugt að lifa sama menningarlífi og aðrar byggðir á landinu. Þetta er mál, sem ekki er hægt að ganga lengur fram hjá, og ég vil nota tækifærið til þess að benda á, að þingið getur ekki sett ákvæði um nýjar framkvæmdir á þessu sviði, — ef það á að vera nokkuð nema pappírsgagn, — en ganga fram hjá öðrum loforðum. Hv. frsm. gat um það, að það væri sími í sveitinni, en það er enginn sími í þeim hreppum, sem ég tala um, fólkið verður að fara 6–8 tíma til þess að komast til næstu stöðvar, og þar að auki er allt kerfið þannig, að það er ekki samboðið landssímanum að hafa það svo, enda er það viðurkennt af landssímastjóra. En hann segir, að það sé ekki hægt að bæta úr því nú, vegna þess að það skorti efni til framkvæmdanna. Ég tók eftir því, að frsm. lýsti einnig yfir því í sambandi við þetta mál, að þarna væri lagt til brúa og vega og síma eins og þurfa þætti. Það er meira en vesalings Barðastrandarsýsla getur sagt um sín héruð, þar sem þess er allt af vel gætt að afskipta þessi héruð um allt, sem að samgöngubótum lýtur.