16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2285)

20. mál, byggðasími í Álftaveri

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Ég bjóst ekki við hljóði úr horni á þessu stigi málsins og vil ekki fara inn á almenn samgöngumál. Þetta er náttúrlega hreint ekki neitt sambærilegt við aðra staði á landinu, og þarf ég ekki að endurtaka það, sem ég hef sagt og skrifað stendur í þessu efni, því að hér er ætlazt til, að komi sérstakt öryggiskerfi á milli bæjanna, til þess að allir nái að kallast á, svo að menn geti komizt undan og bjargað sér, þegar voðann ber að höndum, og það er fullkominn misskilningur, bæði á mínum orðum og veruleikanum, að ég hafi látið svo um mælt, að allt væri komið til brúa og vega, sem þarf. Það er öðru nær. Ég skýrði frá því um þau mannvirki, sem hljóta að falla á Mýrdalssandi, að þau hlytu að falla og það er ekki hægt annað. Það er það, sem ég á við.

Annars er það svo, að ég vil vænta þess, að þetta mál verði ekki hindrað með því, að allir þm. telji sér skylt að koma inn í það með öll samgöngumál hvaðanæva af landinu, og ég veit, að þegar hv. þm. les þetta, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að þetta sé sérstakt mál. Hans mál getur verið alveg eins gott fyrir því, en það heyrir bara ekki hér undir.