15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2295)

20. mál, byggðasími í Álftaveri

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun ekki leggjast móti þessari till., þótt ég telji hana mjög vafasama. Það er harla vafasamt, að Álftaver sé eina byggðin, sem í hættu sé af jökulhlaupum. Ef flóð frá Kötlugosi færi yfir þá byggð, er engin trygging fyrir, að það fari ekki yfir Meðalland hinum megin Kúðafljóts. Mætti því segja, að sömu aðgerða væri þar þörf og í Álftaveri. Í öðru lagi má geta þess, að í Álftaveri er nú þegar sími á 3 bæjum af 12, og í svo lítilli byggð má það kallast allþétt símað. Mér hefði þótt eðlilegt að svara málaleitun þessarar byggðar á þá leið, að við viðurkenndum, að þarna gæti verið að ræða um einhverja hættu, bæði í Álftaveri og Meðallandi, og við skulum þess vegna sætta okkur við það, að þið gangið fyrir öðrum, sem bíða eftir síma, en þið kostið ykkar síma eins og aðrir landsmenn. — Þessari skoðun hreyfði ég í n., en hún fékk ekki byr, og þar sem ég vil engan veginn tefja það, að byggðin fái símann, mun ég ekki verða móti till., en láta málið annars afskiptalaust.