08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

27. mál, fjárlög 1944

Jakob Möller:

Fjármálaráðherra hefur nú gert allglögga grein fyrir þeim gagngerðu breytingum, sem hann hefur gert á fjárlfrv. frá því í vor, bæði efnislegum og formlegum. Efnislegu breytingarnar felast, í sem fæstum orðum sagt, í því, að rekstrartekjur ríkissjóðs eru í nýja frv. áætlaðar 11 milljónum og tæpum 800 þús. hærri en í því gamla, eða 66 millj. 964 þús. í stað 55 millj. 180 þús., og rekstrarútgjöldin 9½ millj. hærri, eða 62 millj. 519 þús. í stað 53 millj. og 23/4 þús., og greiðslujöfnuður verður hagstæður um 1 millj. 76 þús. í stað þess að vera óhagstæður um 561 þús.

Hækkunin á rekstrartekjunum er fengin með því að áætla tekju- og eignarskattinn og hluta ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti hvorki meira né minna en 10 milljónum hærri en í fyrra frumvarpinu, eða 25 millj. í stað 15, og verðtollinn 3 milljónum hærri, eða 23 milljónir í stað 20. En hins vegar er fellt niður útflutningsgjaldið, sem var áætlað 1 millj., og hæstv. ráðh. virðist vera trúaður á það, að þessar áætlanir geti staðizt.

Um tekju- og stríðsgróðaskattinn er þess getið í aths. við frv., að samkv. bráðabirgðayfirliti nemi þessir skattar 29 millj. í ár, en líkur séu til, að afrakstur sjávarútvegs og verzlunar og afkomuskilyrði almennt verði hagstæð í ár. Og um tollana er sagt, að verðtollurinn hafi verið kominn upp í 16 millj. og vörumagnstollurinn í 5 millj. 1. júlí í ár, og jafnvel þó að allverulega kunni að draga úr innflutningi á næsta ári og þó að verðlag á erlendum varningi lækki, þá þyki áætlunin ekki óvarleg.

En er það nú þetta, sem áætlunin byggist á? Er ekki verðlagið á útflutningsafurðunum því sem næst það sama í ár eins og á s.l. ári? Og er ekki hins vegar allur kostnaður við að framleiða þær jafnvel miklu hærri nú? En ef svo er, hvernig má það þá verða, að afkoma atvinnuveganna geti orðið eins góð í ár og í fyrra og skattþol þeirra því sem næst jafnmikið? Og innflutningsverzlunin? Er ekki jafnt og þétt verið að takmarka innflutning og herða á verðlagseftirlitinu? Og hvernig getur þá arðurinn af verzluninni og tollarnir af innflutningnum haldist í sama eða svipuðu horfi og áður? Þó að innflutningurinn hafi orðið mikill fyrri hluta ársins samkv. gömlum innflutningsleyfum, þá skilst mér, að vaxandi takmörkun innflutningsleyfa, eftir því sem á líður, hljóti mjög að draga úr innflutningnum síðari hlutann.

Athugasemdirnar við tekjubálk fjárl., sem frv. fylgja, byrja á þessum orðum: „Rekstrartekjur ríkisins eru áætlaðar 1212145 kr. hærri en í núgildandi fjárlögum.“ — Ég er ekki alveg óhræddur um, að þessi aths. kunni að fela í sér skýringu á því, hvers vegna hæstv. stjórn hefur látið leiðast til þess að spenna bogann eins hátt og hún gerir í tekjuáætluninni. Að hún hafi litið svo á, að það mundi verða betra til afspurnar í þinginu og jafnvel víðar að vera heldur fyrir ofan en neðan „núgildandi fjárlög“ í áætlunum sínum um tekjurnar og þá jöfnum höndum um gjöldin.

Ég sá þess getið í blaði einu, að þetta fjárlfrv. væri hæsta fjárlagafrv., sem lagt hefði verið fyrir Alþingi. Það var áreiðanlega ekki sagt hæstv. stjórn til áfellis, enda engin ástæða til þess í rauninni. Hækkun fjárl. frá ári til árs, síðan núverandi ófriðarástand hófst, hefur verið óumflýjanleg. Útgjöld ríkisins hafa hlotið að hækka að minnsta kosti í hlutfalli við dýrtíðina í landinu. Á undanförnum árum má heita, að fjárlagafrumvörp stjórnarinnar hafi nokkurn veginn haldizt í hendur við dýrtíðina. Hins vegar hafa fjárlögin í meðförum þingsins einatt viljað fara nokkuð fram úr því. Þetta frv. er hins vegar fyrsta fjárlagafrv., sem kemur þannig frá stjórninni, að það yfirbýður dýrtíðina. Má sjá það af því, að á árinu 1939 urðu rekstrarútgjöld ríkisins aðeins rúmlega 19 millj., og ættu þau því, miðað við vísitöluna 250, eins og gert er ráð fyrir í frumv., að nema rúml. 48 millj. á næsta ári. En samkv. þessu frv. er þeim áætlað að verða 62½ millj., eða sem næst 30% hærri og ef miða ætti við vísitöluhækkun eins og vísitalan væri komin upp í 325 stig. Ég áfellist nú ríkisstj. ekki svo mjög fyrir þetta. Bæði er það, að það er nokkuð að vonum, að ríkisstj. teldi ekki ástæðu til að hafa slíkan hemil á útgjaldaaukningu ríkissjóðs, eins og gert væri með því að takmarka hana við vísitöluhækkunina og leggja þá jafnframt til grundvallar útgjöldin á kreppuárunum. Og í annan stað rak hæstv. ríkisstj. sig á það í sambandi við afgreiðslu Alþingis á fjárl. yfirstandandi árs, að hún má lítils stuðnings vænta af hálfu þingsins við slíka fjármálastefnu. Það má því telja „mannlegt“ af hálfu ríkisstj., þó að hún félli fyrir þeirri freistingu að láta það á sjást, að hún væri engu síður en hv. Alþingi fær um að sýna af sér rausn í meðferð fjárlaganna. Og fjárlagafrv. er þá heldur ekki nema aðeins örlítið hærra en fjárlög yfirstandandi árs, eins og hv. Alþingi gekk frá þeim.

Ég vil nú að sjálfsögðu ekki fullyrða neitt um það, að tekjur ríkisins á árinu 1944 muni verða minni en áætlað er í frv. En það er fleira, sem hafa verður í huga en það, hvort tekjurnar kunni að bregðast. Undanfarin ár hafa tekjurnar farið síhækkandi frá ári til árs, en að því rekur fyrr eða síðar, að breyting verður á því. En þegar að því kemur, að tekjurnar fara að minnka, þá eigum við það eitt víst, að útgjöldin fylgja þeim ekki eftir. Og við verðum vel að muna það, að það eru ekki aðeins tekjurnar, sem hafa farið langt fram úr áætlun síðustu árin, heldur gegnir sama máli um útgjöldin. Hæstv. ríkisstj. áætlar nú tekjurnar eins hátt og hún gerir í því trausti, að ekki komi fyrir neinar óvæntar breytingar, sem verði þess valdandi, að þær bregðist, t. d. að afkomuskilyrði atvinnuveganna versni til muna. En er það ekki alveg augljóst, að slíkar breytingar muni vera alveg yfirvofandi, ef ekkert verður að gert? Er ekki yfirvofandi og jafnvel skollin á stórkostleg verðhækkun á innlendum afurðum, sem annaðhvort verður að halda niðri með greiðslum úr ríkissjóði eða þá að hún hlýtur að valda stórfelldri hækkun vísitölunnar og þar með kaupgjaldsins? Mér er kunnugt um, að gert er ráð fyrir, að verðhækkunin á kjöti á innanlandsmarkaðinum muni valda 12½ stigs hækkun á vísitölunni. Er þá ekki séð fyrir því, að framleiðendurnir fái eins hátt verð fyrir útflutt kjöt og þeim hefur verið ákveðið af nefnd þeirri, sem falið var að ákveða það, og verður þá varla komizt hjá annaðhvort að greiða uppbót á útflutningsverðið eða þá að hækka enn verðlagið á innlenda markaðinum, en við það mundi vísitalan enn hækka um nokkur stig, en hve mörg, veit enginn að svo stöddu, af því að óvíst er bæði um útflutningsverðið og útflutningsmagnið.

Þá er enn fremur vitað, að verðhækkunin á neyzlumjólk mun valda 3½ stigs hækkun á vísitölunni, auk þeirrar hækkunar, sem af hlutfallslegri verðhækkun ýmissa mjólkurafurða mundi leiða. Enn bætist hér við stórfelld verðhækkun á kartöflum, sem væntanlega hlyti að hækka vísitöluna um mörg stig, jafnvel þó að kartöflur yrðu lítt fáanlegar.

Hæstv. stjórn hefur nú fengið heimild til að hækka álagningu tóbakseinkasölunnar á tóbaksvörur um 200%, en mér er tjáð, að hún muni þó ekki ætla sér að nota þá heimild til fulls. Einnig mun vera í ráði að auka álagningu á áfengi jafnvel enn meira, og hefur heyrzt, að þessum tekjuauka, sem með þessum hætti fengist af tóbaks- og áfengisverzlununum, ætli stjórnin að verja til lækkunar á útsöluverði á kjöti og mjólk á innanlandsmarkaðinum. En jafnvel þó að það ráð verði upp tekið, þá er enn eftir að taka afleiðingunum af verðhækkuninni á þeim afurðum öðrum, sem ég taldi upp, og að bæta upp útflutningsverðið á kjötinu, ef ekki á að leggja verðmuninn á því ofan á innlenda verðið. Hér er því um að ræða annaðhvort hækkun vísitölunnar væntanlega um 20–30 stig, og er þá ekki djúpt tekið í árinni, eða þá greiðslur úr ríkissjóði, er nema mundu allt að því jafnmörgum milljónum. Og er ég ákaflega hræddur um, að tekjuáætlun fjárlagafrv. muni ekki reynast svo varleg, að hún þyldi þann ábæti ofan á venjulegar, óhjákvæmilegar umframgreiðslur.

Það var talið hér áður, að gera yrði ráð fyrir því, að fjárlagaútgjöldin færu ævinlega a. m. k. 15% fram úr áætlun, og reynslan virtist staðfesta það. Síðustu árin, eða síðan ófriðarástandið hófst, hafa umframgreiðslur farið langt fram úr þessu. Ég væni hæstv. núv. ríkisstj. ekki um það, að hún hafi ekki fullan hug á að halda útgjöldunum sem mest í skefjum í framkvæmdinni. En ég bendi þó á það, að það er ákaflega óvarlegt að gera ekki ráð fyrir því, að slíkar óhjákvæmilegar umframgreiðslur kunni að verða sem svarar 20–25% af áætluðum útgjöldum. Ég þykist vita, að hæstv. stjórn hefur viljað vanda sem mest allar áætlanir sínar og gert það eftir því, sem föng stóðu til. En ég tel það ákaflega vel sloppið, ef útgjöldin samkv. þessu frv. fara ekki mun meira fram úr áætlun en þetta. Það þarf engar „óvæntar breytingar“ til þess, að bein rekstrarútgjöld ríkisins, sem eru áætluð 62½ millj., verði allt að 80 millj., þegar öll kurl koma til grafar. Og þar við bætist svo, að frv. á eftir að ganga í gegnum hreinsunareld fjvn. og Alþingis, og má því vafalaust enn vænta hækkunar á því, áður en það fer út úr þinginu.

Ef einhverjar „óvæntar breytingar“ verða, t. d. ef dýrtíðin vex enn til muna og kaupgjald og launagreiðslur hækka þá samtímis, þá verða svona 10 millj. í viðbót ekki lengi að safnast saman. En slíkar breytingar mundu þá einnig geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir afkomu atvinnuveganna og því samfara fyrir tekjuáætlun fjárlaganna.

En ef nú á að forða því, að dýrtíðin, þ. e. a. s. hin viðurkennda vísitöludýrtíð, vaxi okkur yfir höfuð og leggi framleiðsluatvinnuvegi landsmanna alveg að velli, hvar á þá að taka það fé, sem til þess þarf að borga hana niður, eins og það er kallað? Það er alveg augljóst, að tekjuaukinn af áfengis- og tóbakseinkasölunum muni hrökkva skammt til þess, jafnvel þó að hann yrði í reyndinni allt að 9 millj., eins og ég hef heyrt að áætlað sé. Mér er ókunnugt um, á hvaða rökum sú áætlun er byggð, en hitt veit ég, að gera verður ráð fyrir, að verðhækkunin á þessum vörum dragi til stórra muna úr sölu þeirra. Það er rétt, að verðinu á tóbaksvörunum hefur verið haldið lægra en í rauninni mætti telja eðlilegt með tilliti til verðlags á öðrum neyzluvörum almennings, en það hefur verið gert m. a. vegna þess, að kunnugt hefur verið um það, að óleyfileg sala hefur farið fram á þessum vörum í allstórum stíl með miklu lægra verði, og má gera ráð fyrir því, að sú verzlun færist mjög í aukana, svo að gróðinn á verðhækkuninni geti orðið nokkur vonarpeningur. Og svipuðu máli er að gegna um áfengið. En eins og ég sagði áðan, þá hrekkur jafnvel hinn áætlaði ágóði af þessari verðhækkun skammt til þess að borga niður þá dýrtíðaraukningu, sem yfirvofandi er. Ég fæ ekki betur séð en að hvað sem í þessu verður gert, þá hljóti það að bitna á framleiðsluatvinnurekstri landsmanna, þeim, sem til þessa hefur getað staðið óstuddur, hvort sem heldur verður látið skeika að sköpuðu um dýrtíð og vísitölu og framleiðslukostnaðurinn þannig látinn aukast von úr viti, eða þá, að til þess ráðs yrði gripið að hefja nýja herferð á þennan atvinnurekstur með nýjum álögum í því skyni að afla fjár til að borga dýrtíðina niður. En í því efni er þegar svo langt gengið, að til fulls ófarnaðar horfir, ef lengra verður haldið á þeirri braut.

Við verðum að fara að gera okkur það ljóst, að tímar stríðsgróðans eru senn á enda og að erfiðleikarnir eru á næstu grösum. Við verðum að fara að búa okkur undir það, að sú breyting geti fyrr en varir orðið á fjármálaþróuninni, að í stað sívaxandi tekjuafgangs á rekstrarreikningi ríkisins kunni að koma tekjuhalli. Og þó að tekju- og stríðsgróðaskattur verði í ár 29 millj. og 25 millj. næsta ár, og þó að vörumagnstollur og verðtollur fari langt fram úr áætlun í ár og standist áætlun á næsta ári, þá er þess að gæta, að allt það fé, sem ríkissjóði kann þannig að áskotnast, er kreist út undan blóðugum nöglum atvinnuveganna og alls almennings í landinu. Og því meira fé, sem þannig er tekið til þarfa ríkissjóðs til mismunandi aðkallandi og nauðsynlegra nota, því hallari fótum stendur framleiðslan og afkoma alls almennings, þegar að þrengir.

Hér á hinu háa Alþingi hefur mikið verið um það rætt, hve mjög ríði á því, að hið opinbera sé við því búið, þegar stríðinu lýkur, að hefjast handa um framkvæmdir, sem skapað geti atvinnulausu og aðþrengdu fólki sæmileg lífsskilyrði, og í því skyni er þess krafizt, að safnað sé fé í digra sjóði, með því að skattleggja sem mest allan lífvænlegan atvinnurekstur í landinu, og helzt svo nærri þeim atvinnurekstri gengið, að honum sé ekkert eftir skilið til þess að tryggja afkomu sína og þeirra, sem af honum eiga að hafa framfærslu, einmitt þegar þrengingarnar ber að höndum, sem nauðsynlegt er talið að létta öðrum með opinberum aðgerðum.

Það er engu líkara en að það þyki litlu máli skipta og jafnvel engu varða, hvort sá atvinnurekstur, sem fyrir er, fær að lifa eða deyja, aðeins ef einhverju nýju er komið á fót, sem það opinbera beitir sér fyrir. Mér skilst hins vegar ekki annað en að fyrst og fremst verði að kosta kapps um það að halda þeim atvinnurekstri við lýði, sem fyrir er, en síðan að auka þar við eftir beztu getu og eins og nauðsyn krefur til þess að öllum geti vegnað vel í landinu. Það gildir alveg jafnt um þann atvinnurekstur, sem fyrir er, eins og þann, sem koma skal, að á velgengni hans veltur öll afkoma og velmegun landsfólksins.

Þegar að atvinnuvegunum kreppir, svo að þeir verða að draga saman seglin, þá hlýtur óhjákvæmilega að kreppa að landsfólkinu í heild. Og til þess að tryggja velmegun alls almennings er aðeins ein leið, og hún er sú, að tryggja afkomu framleiðslunnar í landinu, og skiptir í því sambandi engu, hvort það er einkaframtakið, sem ber veg og vanda af framleiðslunni, eða hún er að meira eða minna leyti á vegum þess opinbera eða algerlega þjóðnýtt. Hver leiðin, sem er valin, verður að sjá fyrir því, að hún sé rekin á fjárhagslega tryggum grundvelli, að reksturinn hafi alltaf að baki sér öfluga sjóði til þess að geta staðizt áföll.

Af því leiðir, að þar sem einkaframtakið á að beitast fyrir framleiðslunni, verður að varast það að ganga svo nærri afkomu atvinnurekendanna með skattaálögum, að þeim sé ekkert eftir skilið nema rétt til hnífs og skeiðar. Það verður að sjá fyrir því, að þeir geti lagt til hliðar ríflegar fúlgur í góðu árunum til að standast áföll erfiðari tíma og til þess að endurnýja framleiðslutæki sín. Með því er ekki aðeins verið að tryggja þeirra hag, heldur einnig jafnframt allra, sem afkomu sína eiga undir viðskiptum við þá og fyrirtæki þeirra og þá, sem að þeim starfa. Og alveg með sama hætti yrði að sjá þjóðnýttum atvinnurekstri borgið. — Slíkur rekstur mundi alveg eins fara á hausinn á erfiðleikatímunum og einkareksturinn, ef öllum afrakstri hans í góðu árunum væri úthlutað ýmist til þeirra, sem að honum vinna, eða þá sem eyðslueyri þess opinbera.

En það eru ekki aðeins framleiðslufyrirtækin, sem þurfa að hafa aðstoð til þess að safna sjóðum. Í þjóðfélagi, sem byggist á grundvelli einkaframtaksins, er nokkur fjársöfnun einstaklinganna þjóðfélagsleg nauðsyn og lífsskilyrði heilbrigðrar þróunar athafnalífsins og hvers konar framkvæmda. Því meiri, sem slík fjársöfnun er, því betri verða skilyrðin til bættrar afkomu almennings. Fé, sem lagt er fyrir, framkallar athafnir, sem miklu fleiri njóta góðs af en eigendur þess, og verða oft og einatt öðrum margfalt meiri féþúfa.

Það er þannig auðsætt, að varhug verður að gjalda við því að ganga of langt í beinum skattaálögum, bæði á atvinnufyrirtæki og einstaklinga, eða svo langt, að það hamli nauðsynlegri fjársöfnun til tryggingar og aukningar verklegra framkvæmda í landinu, og það engan vegin vegna hagsmuna þeirra, sem fénu kunna að safna, heldur fyrst og fremst vegna hagsmuna alls almennings.

Og enn er það auðsætt, að ef nú horfir illa um afkomu framleiðsluatvinnuveganna í landinu vegna yfirvofandi aukningar dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðarins, svo að jafnvel liggi við borð, að þeir komist í þrot af þeim sökum, þá verður ekki úr því bætt með því að leggja á þá nýjar skattabyrðar, þó að það væri í því skyni gert að koma í veg fyrir hækkun beina framleiðslukostnaðarins með því að borga niður dýrtíðina. Og ef það á að gera, þá verður að finna aðrar leiðir til þess að standa straum af þeim kostnaði. Og yrði það þá ekki helzt með þeim hætti, að stillt væri öðrum útgjöldum ríkisins svo í hóf, að núv. tekjustofnar hans nægðu til að standast öll útgjöld, sem óhjákvæmilegt þætti á hann að leggja?

Það komu fram í ræðum annarra hv. þm. nokkur atriði, sem e. t. v. væri ástæða að taka til athugunar, en ég get þó ekki nema að mjög litlu leyti, af því að mínum tíma er að verða lokið. Ég get ekki látið hjá líða að beina því til hv. 2. þm. S.-M., að hafi hann orðið fyrir vonbrigðum út af því, hve lítinn árangur löggjöfin um skattadómara hefur borið, þá getur hann engum um kennt nema sjálfum sér. Lögin um skattadómara voru sett alveg eins og hann vildi hafa þau. Og skattadómari, sem skipaður var, er einnig kunnur sem þrautreyndasti maður í landinu í þessum málum. Hins vegar hefur skattanefnd, sem einmitt er skipuð af hv. 2. þm. S.–M., ekki talið ástæðu til að nota sér aðstöðu hans að neinu leyti.

Þá sagði hv. þm., að það furðulega hafi skeð eftir að stjórnarskiptin urðu árið 1942, að þá hafi stjórnarvöldin látizt ætla að skipta sér af þýðingarmesta máli þjóðarinnar, en keypt sér hlutleysi kommúnista með því að lofa að leggja engar hömlur á kauphækkun. En hér skýtur svo skökku við, að þetta er þveröfugt. Að því leyti, sem samningar voru milli Sjálfstfl. og Kommfl. í sambandi við stjórnarskiptin, þá var það áskilið, að löggjöfin um gerðardóminn væri óhögguð. Hitt kom í ljós, eins og undanfarin reynsla hafði þá þegar sýnt, að mundi verða niðurstaðan, að sú löggjöf mundi verða algerlega gagnslaus í framkvæmd. Það hafði hún reynzt, meðan þessi hv. þm. átti sæti í stjórninni. Það var ekki fyrst eftir stjórnarskiptin, sem stjórnarvöldin létu sig þetta ekki skipta, því að í hans stjórnartíð var einnig látið skeika að sköpuðu um þessa hluti, enda bersýnilegt, að ekki varð við ráðið, eins og allt var.

Hv, þm. Ísaf. gerði hér sjálfstæðismálið að umtalsefni. Hann er sjálfsagt búinn að gleyma, að í sambandi við stjórnarskiptin 1942 var samið milli Alþfl. og Sjálfstfl. að leiða sjálfstæðismálið til lykta á því ári með þeim hætti, sem nú er haldið fram af Sjálfstfl., að eigi að gera tafarlaust. Það er eins og þessi hv. þm. sé ekki vel að sér í stjskr. Hann talar um það, að það ríði mest á ákvæðum þeim, sem eiga að vera í hinni nýju stjskr., — að það eigi að tryggja mannréttindi. Ég veit ekki betur en að í núgildandi stjskr. séu ákvæði, sem eiga að tryggja mönnum það, sem hann taldi mesta nauðsyn, að tryggt væri.