06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

30. mál, einkasala á tóbaki

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það virðist eiga að taka hér upp nokkuð ströng og ákveðin vinnubrögð, þegar stj. ætlast til þess, að þetta frv. gangi gegnum þrjár umr., án þess að það fari til n. og þá án þess að um það verði nokkrar umr., og ég held, að sumir hv. þm. hafi ekki átt þess kost að sjá þetta frv. enn þá, a. m. k. hefur það ekki komið á mitt borð, og ég hef ekki séð það.

Ég heyri, að það er um að ræða að hækka álagningu á tóbaki. Mig langar til að spyrja: Hvers vegna? Hver er tilgangurinn? Ég geri ekki ráð fyrir, að horfið verði að þessu ráði, nema tryggt sé nokkurn veginn, að nota eigi þennan tekjuauka í einhverjum ákveðnum tilgangi. Það væri líka gott að fá að heyra það hjá hæstv. ráðh., hvað hann áætlar, að þessar tekjur muni nema miklu fyrir ríkissjóð.

Ég verð sem sagt að lýsa yfir því, að meðan ekki liggja nánari upplýsingar fyrir, þá sé ég mér alls ekki fært að taka afstöðu til málsins. Hér er aðalatriðið, hver tilgangurinn er, til hvers á að verja þessu fé, sem ríkisstj. kann að áskotnast fyrir þessa hækkun.

Að svo stöddu vil ég ekki fjölyrða meira um þetta, — vona að fá fullnægjandi svör frá hæstv. ráðh.