06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

30. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Ég tel rétt, að það komi fram, út af þeim orðum, sem fallið hafa, að hæstv. ríkisstj. tilkynnti formönnum flokkanna á laugardaginn var, að hún hefði í hyggju að flytja slíkt frv., sem hér liggur fyrir. Ég gerði tilraun til að ná saman fundi í þingflokki sjálfstæðismanna í morgun, og þann fund sóttu allmargir þm., en ekki allir, og þar á meðal ekki hv. 7. þm. Reykv.

Ég hef ekki umboð til þess að segja neitt sérstakt um þetta mál fyrir hönd Sjálfstfl. En eftir þeirri hugmynd, sem ég hef gert mér um málefnalega afstöðu á grundvelli þeirra upplýsinga, sem ég hef fyrir mér um málið, þá mun ég fyrir mitt leyti styðja það, að stj. fái þessa heimild. Og eðli málsins er nú þannig, að ef þingið á annað borð vill veita þessa heimild, er bezt, að það sé gert tafarlaust, því að ég tel, að meðan málið liggur fyrir þinginu, sé heppilegast, að hægt væri að halda Tóbakseinkasölu ríkisins — og jafnvel áfengisverzluninni — lokaðri, því að annars mundu menn gera tilraun til þess að birgja sig upp, áður en verðhækkun kæmi fram.

Ég endurtek, að ég mun persónulega fylgja málinu og að ég mun einnig greiða fyrir því, að það fái fljótan framgang á Alþ., með þeim rökum, sem ég gat um.