16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2323)

23. mál, afsláttarhross

Gísli Jónsson:

Hv. flm. gerði ekki ráð fyrir, að málið færi til n. Það ætti þó ekki að þurfa að tefjast neitt við það, þar sem aðalatriði till. er þegar í rannsókn hjá ríkisstj. og þess verður að vænta, að Búnaðarfélagi Íslands sé málið ríkt í huga, engu síður þótt ekki sé búið formlega að vísa því til þess, og ætti þá varla að standa á svörum þess.

Í sambandi við þetta mál mætti athuga, hvort einstök héruð eigi að fá að eyðileggja dilkakjötsmarkaðinn fyrir öðrum landshlutum, eins og átt hefur sér stað, og fleira gæti upplýstst, sem verða mætti landbúnaðinum til einhvers hagnaðar. Ég legg til, að umr. sé frestað og till. vísað til allshn.