06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

30. mál, einkasala á tóbaki

Stefán Jóh. Stefánsson:

Eins og mál þetta liggur einangrað og út af fyrir sig, þá finnst mér ekki óeðlilegt, að stj. hefði slíka heimild til þess að verðleggja tóbak. Þar af leiðandi er ég ekki á móti því, að þau ákvæði, sem frv. inniheldur, nái fram að ganga. En út af því, sem komið hefur fram í umr., skal ég geta þess, að það er Alþ. yfirleitt að ákveða, hvernig tekjum ríkisins skuli varið. Og það getur kannske komið til álita síðar á þessu þingi í sambandi við fjárl. og aðrar gerðir Alþ. að ákveða, hvert tekjuaukning af einkasölu þessari eins og aðrar tekjur, sem í ríkissjóð falla, skuli ganga. Ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. með þessu frv., því að mér finnst eðlilegt, að svona mál út af fyrir sig gangi dálítið fljótt gegnum þingið. Ef það færi með venjulegum hraða mála, gætu menn gert tilraunir til að hamstra tóbak.