25.10.1943
Efri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

119. mál, lyfjagerð og afgreiðsla lyfja

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er borið fram eftir ósk landlæknis og — ég held megi segja — eftir ósk eftirlitsmanns lyfjabúða. Það hafa komið fyrir mistök við afgreiðslu í lyfjabúð, og er eitt dæmi, sem ég hef sérstaklega í huga. Hafa þessi mistök orsakað heilsubrest, án þess að upplýst yrði, hver persónulega ætti sökina. Dómsrn. hefur ekki séð sér fært að höfða mál út af þessum mistökum, með því að ekki er víst, hver sökina átti. Aðalnýmæli þessa frv. er það, að lyfsalar og forstöðumenn lyfjabúða skulu sæta refsingu sem opinberir starfsmenn fyrir brot í starfi sínu. Þetta virðist hafa orkað tvímælis, en það virðist auðsætt, að menn, sem hafa jafn ábyrgðarmiklar skyldur með höndum, séu látnir sæta refsingu sem opinberir starfsmenn. Annað nýmælið er, að lyfsali eða forstöðumaður lyfjabúðar skuli bera ábyrgð á mistökum, sem verða kunna við afhendingu lyfja, og skal þá refsing mælt honum, nema það sannist, að annar maður sé sekur og lyfsali eða forstöðumaður eigi enga sök á. Samsvarandi reglur skulu gilda um lyfjasveina og sérfróða aðstoðarmenn í lyfjabúðum, þannig að þeir sæti refsingu eftir sömu reglum sem opinberir starfsmenn fyrir brot í starfi sínu. Skal ég svo ekki fara nákvæmar út í þetta, en vil þó aðeins benda á, að í þessum nýmælum hér er farið nokkru lengra en almennt er talin hæfa í refsirétti, í því að einstakir forráðamenn eru látnir bera fulla ábyrgð á misferli undirmanna sinna, nema það sannist, að undirmenn eigi sökina. Hins vegar telur landlæknir mikla nauðsyn á slíkri reglugerð sem þessari, og að vísu eru til í íslenzkum l. nokkur samsvarandi fyrirmæli. Skal ég þá t. d. benda á fyrirskipun frá árinu 1885, þar sem prentsmiðjustjórar bera ábyrgð á því, sem hjá þeim er prentað, og sömuleiðis er samsvarandi dæmi að fínna í áfengisl., sem kveður á um, að skipstjóri beri ábyrgð á smygli skipverja sinna, svo að af þessu má sjá, að með þessu frv. er ekki verið að breyta út af hinni venjulegu refsiréttarreglu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, en legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til allshn.