19.04.1943
Neðri deild: 3. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

5. mál, rannsókn skattamála

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Á þinginu, sem lauk fyrir nokkrum dögum, flutti ríkisstj. frv. til l. um rannsókn skattamála. Þetta frv. er samhljóða því. Flm. hafa kynnt sér, hvað stj. hafði í hyggju með flutningi málsins. Kom í ljós, að hún ætlaði ekki að flytja það nú þegar, en að öðru leyti var afstaða hennar óbreytt. Flm. þótti rétt að láta frv. koma strax fram, svo að hægt verði að nota til þess þann tíma, sem líður, þar til þ. verður frestað.

Í frv. er gert ráð fyrir, að landinu verði skipt í 4 rannsóknarumdæmi, og enn fremur, að í Reykjavíkurumdæmi verði skipaður skattadómstóll með 2 eða 3 rannsóknardómurum, eru í hinum umdæmunum verði einn dómari.

Við flm. erum sammála ríkisstj. um, að nauðsyn beri til að gera þessar ráðstafanir, af því að svo óvenjulega stendur á um öll viðskipti í landinu og erfiðleikar eru á eftirliti með framtölum.

Þá er gert ráð fyrir, að rannsóknardómararnir fái vald til að hefja rannsókn af sjálfsdáðum, og er það til bóta frá gildandi l., að þessir nýju dómarar fá aukið valdsvið.

Ég sé ekki ástæðu til lengri framsögu, þar sem frv. er samhljóða frv. frá síðasta þ., en legg til, að því verði vísað til fjhn.