13.09.1943
Neðri deild: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

31. mál, útsvör

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hef orðið þess var, að það er ekki alls staðar siður, að í framtölum útvegsmanna sé viðurkenndur við útsvarsálagningu frádráttur á þeim hluta tekna þeirra, sem þeir leggja í nýbyggingarsjóði. Hins vegar tel ég, að gera megi ráð fyrir, að það hafi vakað fyrir löggjafanum, að útvegsmenn skyldu einnig njóta þessara hlunninda við útsvarsálagningu. En um það er ekki getið í löggjöfinni. Ég tel því réttara að setja skýlaus ákvæði um þetta í löggjöfina og hef flutt þetta litla frv. í því skyni. Ég hef flutt þetta sem viðauka til bráðabirgða, vegna þess að ákvæðin um nýbyggingarsjóði eru til bráðabirgða í löggjöfinni, og væri það þá til samræmis.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að menn geti orðið sammála um þetta litla mál, og vil svo að lokum leggja til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.