30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

31. mál, útsvör

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., og vil ég nú lýsa henni nokkuð. Frv. þetta miðar að því að banna, að útsvar verði lagt á það fé, sem lagt er til nýbyggingarsjóða, og er þá greinilegt, að þeir, sem lagt hafa útsvör á þessi framlög, eru hér sviptir tekjustofni. Ég tel það réttmætt, ef Alþ. vill auka skattfríðindi, að þá sé það ríkið, sem ber kostnaðinn af því, en ekki bæjar- og sveitarfélög, sem vantar tilfinnanlega tekjur. Ef þessi breyt., sem hér er ráðgerð, verður samþ., þá hlýtur það að ganga á tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil benda á það, að það hafa ekki verið sett nein takmörk um útsvarsálagningu inn í útsvarsl., heldur hefur verið heimilt að leggja útsvör á eftir efnum og ástæðum. Og það hefur ekki þótt þörf á því að veita einstaklingum rétt til þess að undanskilja vissan persónufrádrátt við álagningu útsvara, eins og þegar um skattaálagningu er að ræða, heldur hefur niðurjöfnunarnefndum verið heimilað að leggja á útsvar, eftir því sem þeim hefur þótt þurfa.

Hér er hins vegar lagt til, að nýbyggingarsjóðir útgerðarinnar skuli njóta sérstakra hlunninda. Ég tel óverjandi, að lagt sé inn á þá braut að ganga þannig á tekjur bæjar- og sveitarfélaga, sem þá þurfa að hækka útsvör á öðrum einstaklingum, á meðan útgerðin leggur fyrir í sjóði, þó að það sé annars í sjálfu sér gott. Alþ. hefur áður veitt skattfrelsi á framlögum til nýbyggingarsjóða, en ég tel ekki verjandi að krefjast þess af bæjar- og sveitarfélögum að þau veiti þetta skattfrelsi einnig af sinni hálfu, og ef þingið telur nauðsynlegt, að gengið verði lengra í þessu en þegar hefur verið gert, þá verður það að vera á kostnað ríkisins, en ekki bæjar- og sveitarfélaga. Ég hef því flutt brtt. um það, að ríkið bæti bæjar- og sveitarfélögunum upp þennan tekjumissi, eftir því sem skattanefndir komi til með að ákveða. Ég vil taka það fram, að ég tel rétt, að efni þessa frv. hefði verið tekið með skattal. breyt., því að það er ekki fært að veita þarna fríðindi, meðan skattal. bíða endurskoðunar, því að þau standa enn þá jafnóréttlát og þau hafa gert.

Það er skilyrði af minni hálfu fyrir því, að ég geti gengið til fylgis við þetta frv., að það verði ríkið, sem ber kostnaðinn af þessu, en ekki bæjar- og sveitarfélög.