30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

31. mál, útsvör

Emil Jónsson:

Við umr. um þetta mál í gær gat ég ekki tekið afstöðu til þess, fyrr en ég sæi, hversu færi um skyld mál. Þetta vill þm. S.-M. hafa, að sé að gera ekki greinarmun á skatta- og útsvarslögum. (EystJ: Ég átti einkum við aðra nefndarmenn). Ég varð ekki var við aðrar raddir í gær við atkvgr. og hlaut því að taka þetta til mín. Annars er það auðvitað, að skatta- og útsvarslög eru skyld, eins og þm. gat um. Því er svo háttað í bæjum, að útsvörin eru því nær eina tekjulindin, og nægja þau hvergi nærri fyrir útgjöldum. Ég tel því algerlega óverjandi að taka slík ákvæði sem hér um ræðir inn í lögin. Till. 6., landsk. er eðlileg tilraun til bóta, en þó tel ég, að sú leið sé ekki fær, sem þar er lagt til, að farin sé. En fráleitt er, að bæirnir þoli, að aðaltekjustofn þeirra sé skertur á þann hátt, sem hér er lagt til.