30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

31. mál, útsvör

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. — Ég vil taka fram viðvíkjandi ummælum hv. 2. þm. S.-M., að við sósíalistar höfum ekki gert okkar til að fá fram þær skattalagabreyt., sem við höfum lagt til, að gerðar væru, og hann gumar af, að hans flokkur standi með, a. m. k. þegar ekki hefur reynt á. Hann veit vel, að ástæðan til þess, að ekki hefur verið reynt að koma þessum breyt. fram á þessu þingi, er sú, að það hefur verið skipuð mþn. í skattamálum, gott ef það var ekki eftir till. hans sjálfs, og var þess ekki að vænta, að hún gæti þegar lokið störfum og komið fram með till. hér á þingi, og það var beðið með afgr. þessara mála eftir till. þessarar n.

Eignaaukaskattinn gæti ég bezt trúað, að réttast væri fyrir hv. 2. þm. S.-M. að minnast sem minnst á, en nú næstu daga mun verða úr því skorið, hvernig fer um það mál og mun þá verða kunnugt hvernig afstaða Framsfl. er í því máli.

Hv. þm. segir, að ástæðulaust sé að bíða með afgr. þessa máls, þar til séð sé um afdrif þeirra breyt., sem nú liggja fyrir í l. um nýbyggingarsjóðina, af því að þær brtt. séu svo lítilfjörlegar. Ég vil þó benda á, að þar er þó um að ræða að ákveða, hvort þessir sjóðir megi fara í taprekstur eða eigi raunverulega að fara til skipasmíða, og í mínum augum er það mjög mikið atriði, því að mér er fullkunnugt um, að á skattaframtölum er útgerðin stundum látin koma út með tap, þótt það sé aðeins á pappírnum. Það er því afar eðlilegt, að þegar slíkar till. liggja fyrir um breyt. á ákvæðunum um nýbyggingarsjóðina, þá sé þetta frv. látið fylgja þeim, en ekki tekið út úr.

Allur málaflutningur hv. 2. þm. S.-M. er líka þannig, að öllum má vera ljóst, að hann flytur mál sitt út frá röngum forsendum, því að hann fer svo óvandlega með allar staðreyndir, að það sætir fádæmum. Hann segir, að hér sé um það að ræða að vernda útgerðarmenn og útgerðarfélög fyrir því, að bæjarfélögin éti upp alla nýbyggingarsjóðina, og hér sé verið að gera út um það, hvort nýbyggingarsjóðirnir eigi að lenda í bæjarkassanum. Þó veit hann vel, að hér er aðeins um það að ræða, hvort leggja eigi samsvarandi gjöld til bæjanna á þessar tekjur útgerðarmanna og félaga og lagt er á aðrar tekjur einstaklinga á þessum stöðum, en ekki hitt, hvort taka eigi sjóðina af eigendum þeirra og leggja í bæjarsjóði.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en vil undirstrika, að það eru réttmætar kröfur frá bæjarfélögunum, að ef þessi auknu skattafríðindi verða veitt, þá beri ríkið kostnaðinn, en hann sé ekki látinn lenda á bæjarfélögunum.