28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2365)

60. mál, alþjóðlegt félagsmálastarf

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef í grg. fyrir þessari þáltill. á þskj. 72 fært nokkur rök fyrir því, hver nauðsyn það væri, að Ísland reyndi að taka þátt í alþjóðlegu félagsmálastarfi. Þegar Þjóðabandalagið var stofnað, var vikið að því í forspjalli þess, sem sá, er átti hugmyndina að stofnun Þjóðabandalagsins, Wilson, forseti Bandaríkjanna, hafði og áður bent á, hve stórkostlegur þáttur í menningarlegum framförum það væri, ef hægt yrði að koma á hagnýtum úrbótum á alþjóðlegu félagsmálastarfi. Á það var einnig bent í sama forspjalli, að mikill meiri hluti hvers þjóðfélags fyndi rétt sinn fyrir borð borinn og mætti því búast við óánægju innan frá í hverju þjóðfélagi og eins milli þjóðfélaga og gæti það átt þátt í því, að stríð brytist út að nýju.

En hvað sem því líður, hve stórt atriði það hefur verið, að alþjóðleg samtök í félagsmálum skyldu hafa komizt á og hvað áunnizt hefur á annan hátt, þá er það ekkert vafamál, að nú, þegar menn eru farnir að eygja það, að þessum ófriði ljúki, þá er fjöldinn farinn að líta til framtíðarinnar í þeirri trú, að hún beri í skauti sér meira öryggi fyrir borgarana en þeir áttu við að búa, áður en þetta stríð brauzt út. Þessi þrá manna er næsta eðlileg, og það er víst, að hvaða stjórnir, sem verða við völd að stríðinu loknu, þá verða þessar raddir ekki þaggaðar niður, því að kröfurnar um betra þjóðfélag og meira lífsöryggi eru orðnar svo háværar. En einmitt til þess að fullnægja þessari þörf er ekkert líklegra en skynsamlegar aðgerðir í félagsmálum. En eins og hvert land út af fyrir sig stendur einangrað, þá mun ekki nægilegt að gera slíkar framkvæmdir án tillits til annarra þjóða, og liggur því beinast við að hafa alþjóðleg samtök um þessar endurbætur og nýsköpun á félagsmálasviðinu.

Einmitt af þessu var stofnað til Alþjóðlega vinnumálasambandsins eftir lok síðustu heimsstyrjaldar. Þetta samband hefur starfað frá 1919 og fram til þessa, því að öldur styrjaldarinnar hafa ekki megnað að brjóta niður þessa alþjóðlegu félagsmálastarfsemi, þótt þær hafi lagt í rústir aðra alþjóðlega starfsemi.

Skrifstofa þessarar starfsemi var upphaflega í Sviss, en skömmu eftir, að stríðið brauzt út, þótti sýnt, að Sviss gæti dregizt inn í styrjöldina, og var því skrifstofan flutt vestur um haf, til Kanada, og þar hefur hún starfað síðan.

Í grg. fyrir þessari þáltill. er í fáum dráttum skýrt frá því, hvernig þessari starfsemi sé hagað. Þar eru haldin þing öðru hverju, og þar mæta fulltrúar þjóða þeirra, sem eru þátttakendur í sambandinu, og þar mæta ekki einungis fulltrúar frá ríkisstjórnum þeirra þjóða, heldur og frá heildarsamtökum verkamanna og vinnuveitenda þeirra þjóða.

Á þessum þingum ræddu sérfræðingar í félagsmálum um það, hvað hægt væri að gera til þess að hrinda áleiðis umbótum og nýsköpun í félagslegum málefnum. Þá voru og gerðar samþykktir, sem voru ekki bindandi fyrir neitt ríki, þótt fulltrúar þess stæðu að þeim, heldur var um það að ræða að leita samþykkis hlutaðeigandi þinga, til þess að þær gætu komizt í framkvæmd.

Á þennan hátt voru gerðar miklar endurbætur á félagsmálalöggjöf víða um heim.

Þing þetta stóð ekki lengi yfir í hvert sinn, en á milli þinga kom stjórn sambandsins saman, þegar þurfa þótti, og auk þess ýmsar nefndir, sem voru kosnar til þess að ræða um ýmis málefni. En auk þess setti þingið á stofn skrifstofu til þess að vinna að skýrslusöfnun, veita upplýsingar og annast um rannsóknir á félagsmálum yfirleitt. Þessi skrifstofa er mjög voldug og merkileg stofnun, sem látið hefur frá sér fara óteljandi rit og skýrslur um málefni, sem hana varðar, og veitt margvíslegar uppl. um félagsleg málefni. Það getur líka oft verið ómetanlegur styrkur að leita upplýsinga hjá þessari stofnun. Þessi skrifstofa starfar enn í dag og starfar nú í Kanada, og hefur hún nú til meðferðar þau mál, sem hljóta að verða efst á baugi að stríðinu loknu, en það er, hvað eigi að gera til þess að tryggja félagslegt öryggi þjóðanna eftir stríðið. Skrifstofan gefur enn út fjölmargar bækur og rit, veitir upplýsingar og leiðbeiningar og safnar skýrslum um öll lönd um sérstök tiltekin atriði, sem mest ástæða virðist til, að séu athuguð gaumgæfilega.

Íslenzka ríkið hefur alltaf staðið utan við þessa alþjóðlegu starfsemi. Upphaflega kom það til af því, að við stóðum utan við Þjóðabandalagið, en Alþjóðlega vinnumálasambandið stóð í nánu sambandi við það.

En eins og bent er á í grg., tóku síðar ýmis ríki, sem voru ekki meðlimir í Þjóðabandalaginu, þátt í starfsemi Alþjóðlega vinnumálasambandsins, og má þar á meðal nefna Bandaríki N.-Ameríku og einnig Sovétríkjasambandið, sem þá var ekki meðlimur í Þjóðabandalaginu.

Eins og getið er um í grg., þá er hér ekki um það að ræða, að Ísland eigi að ganga í Þjóðabandalagið, eins og sakir standa, enda kemur það af sjálfu sér, þar sem ekkert þjóðabandalag er nú starfandi. En hitt er víst, að Alþjóðlega vinnumálaskrifstofan hefur alltaf haldið uppi starfsemi sinni frá byrjun og er enn starfandi, og gæti Ísland því tekið þátt í þeirri starfsemi, og ég býst líka við, að hugir margra hnígi í þá átt. Einangrun sú, sem landið átti við að búa, er nú horfin, og hún verður aldrei aftur neitt svipuð því sem áður var, og þótt þjóðin, sem byggir þetta land, sé lítil, þá er það engu minni ástæða til fyrir okkur að vera þátttakendur í alþjóðlegri félagsmálastarfsemi.

Ég hef bent á það í grg., að nú eru svo mörg félagsleg mál á döfinni hjá íslenzka ríkinu og að gera má ráð fyrir, að þátttakan í Alþjóðlega vinnumálasambandinu verði ríkinu til mikils hagræðis við að fá góða lausn á þeim málum. Ég legg því til í þessari þáltill., að Alþ. feli ríkisstjórninni að láta gera athuganir á því, á hvern hátt Ísland geti orðið aðili að slíkum alþjóðlegum samtökum og hve mikið slíkt mundi koma til með að kosta.

Það vill svo vel til, að hæstv. forsrh. er þessum málum kunnugur, vegna þess að hann dvaldi eitt sinn í Genf til þess að kynna sér starfsemi Þjóðabandalagsins yfirleitt og þá einnig starfsemi Alþjóðlega vinnumálasambandsins. Hann hefur því góð skilyrði til þess að meta, á hvern hátt þessu yrði bezt fyrir komið. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta.

Það hefur verið ákveðin ein umr. um þessa þáltill., og ég sé ekki ástæðu til þess að gera till. um að fresta umr. og vísa þáltill. til n., en ég mun þó ekki vera á móti slíkri till., ef hún kemur fram. Annars held ég, að hv. þm. þurfi ekki að velta þessu lengi fyrir sér, þar sem hér er ekki verið að fara fram á, að Ísland gerist aðili í neinum alþjóðlegum samtökum, heldur er aðeins um það að ræða, að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á því, hvernig slíkri þátttöku yrði komið fyrir. Ég vil því vænta þess, að hið háa Alþ. sjái sér fært að afgreiða þessa þáltill. á þann veg, sem lagt er til, og að hún hljóti sem bezta og skjótasta meðferð. Þá kemur og líka síðar, að fengnum upplýsingum, til kasta Alþ. að ákveða það, hvort það kíp, að Ísland verði aðili í Alþjóðlega vinnumálasambandinu eða ekki.