06.09.1943
Neðri deild: 9. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

30. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Ég vil ógjarnan láta líta svo út, að ég neiti að svara fyrirspurn hv. 7. þm. Reykv. En mér finnst málið liggja svo beint við, að það þarfnist í raun og veru engra skýringa. Ég get gjarnan skýrt frá því, að hér er aðeins um heimild að ræða fyrir einkasöluna. Ríkisstj. er ekki búin að taka ákvörðun um það, að hve miklu leyti þessi heimild verði notuð. Hitt vitum við, að það má alltaf búast við, að halla taki undan fæti í fjárhagnum, og það er margt, sem þarf að nota fé til. Þessi tekjustofn út af fyrir sig virðist vera tilvalinn, ef ríkið þarf á auknu fé að halda, tilvalinn, þótt ekki sé af öðru en því, að verð á tóbaki hefur að heita má ekkert hækkað, frá því að stríðið hófst. Það er líklega engin vara í landinu, sem hefur hækkað jafnlítið. Tóbakið hefur í raun og veru staðið í stað.

Þetta er sem sagt heimild, og mér finnst ástæðulaust að binda heimild einkasölunnar við það, að hún megi leggja 10–50% á. Það verður náttúrlega matsatriði á hverjum tíma hjá þeim, sem hafa framkvæmdir á hendi, hvernig þetta yrði notað. Og í samræmi við það, sem hv. þm. G.-K. tók fram, vil ég geta þess, að það er ekki eins og ríkisstj. geti hlaupið burt með það fé, sem hún kynni að fá inn með þessu móti. Þingið hefur í hendi sér, hvernig þessum tekjustofni og öðrum er varið. Ég vænti þess vegna, að hv. d. taki þessu máli með skilningi og sjái sér fært að afgr. frv. eins og það liggur fyrir.