27.09.1943
Neðri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. (SigfS), 1. flm. þessa frv., lét svo um mælt, að það væri ekki óeðlilegt, að umr. um mál væru litlar á fyrsta stigi þeirra. Ég get út af fyrir sig vel skilið, að þennan hv. þm. langi ekki svo ákaflega mikið til að ræða þetta mál, sem hann hefur flutt hér, ýtarlega. En hann verður að gera sér grein fyrir því, að hér er um svo algert og sérstætt nýmæli að ræða í löggjöfinni, að óviðeigandi og óhugsandi er annað en kryfja það nokkuð til mergjar þegar við 1. umr. Annað væri ósæmilegt.

Ég fullyrði, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er algert eins dæmi að fleira en einu leyti. Ég fullyrði, að í þessu frv. er í fyrsta skipti á hæstv. Alþ. Íslendinga lagt til, að framleiðslutæki séu tekin af heilli stétt framleiðenda í landinu, þ. e. a. s. bændum, og þau lögð undir aðra aðila, og að afurðir þessarar stéttar séu teknar ekki fullunnar úr höndum hennar og fjallað um þær þar á eftir af öðrum aðila.

Í þessu frv. er margt nýstárlegt. En meginatriði málsins virðast mér vera þrjú. Í fyrsta lagi á að taka mjólkursöluna og mjólkurvinnsluna og gerilsneyðinguna sömuleiðis úr höndum bænda og leggja þetta í hendur bæjarfélaga og sveitarfélaga, ef þau óska þess að hafa þetta með höndum. Í öðru lagi er lagt til, að verðlagning á þessum vörum sé í höndum n., þar sem hæstiréttur skipar oddamann, m. ö. o., að það verði til frambúðar dómstólamál, hvert verðlag verður á þessum landbúnaðarvörum. Í þriðja lagi er í frv. lagt til, að eignir mjólkursamsölu, sem starfandi kann að vera í mjólkursöluumdæmi, skuli vera af því teknar og lagðar undir viðkomandi bæjarstjórnir og það ekki gegn fullu endurgjaldi, eins og ég hygg, að alltaf hafi áður verið gert ráð fyrir, þegar um eignarnám hefur verið að ræða. Þetta mun, vera í fyrsta skipti, að lagt er til á hæstv. Alþ., að eignir séu teknar, — ekki af einstaklingum, heldur heilli stétt,— án þess að fullt gjald komi fyrir.

Ég ætla fyrst að fara nokkrum orðum um fyrsta atriðið, að taka afurðirnar úr höndum bænda, áður en þær eru fullunnar, og afhenda þær bæjarstjórnum og sveitarstjórnum í kauptúnum til meðferðar úr því. Ég hygg, að flestum hv. þm. sé það ljóst, að bændastéttin í landinu stendur framar um félagsframkvæmdir en nokkur önnur stétt í landinu. Ég held, að það sé ekki ofsagt, að bændastéttin hafi með samtökum sínum í verzlun og framleiðslu orkað því að færa stéttina úr örbirgð til bjargálna. Þetta hefur áunnizt meðal annars með aukinni ræktun, bættri meðferð afurða og samtökum um sölu á þeim.

Hér fyrir nokkrum árum var talað um, að löggjafarvaldið þyrfti að hafa hemil á verðlagi og afurðasölu landbúnaðarins. En ég man ekki, að nokkur rödd kæmi fram um það, að það væri óeðlilegt eða ósanngjarnt, að bændur berðu afurðasöluna með höndum eftir sem áður. Ég man ekki, að það heyrðist nein rödd, sem taldi það annað en eðlilegt, að þeim afskiptum, sem hið opinbera hafði þá af sölu landbúnaðarafurða, skyldi hætt, undir eins og stofnanir bænda komu sér saman um að taka hana í sínar hendur. Ég man ekki, að það væri nokkur þá svo djarfur að vilja taka afurðir bænda, áður en þær voru fullunnar, og halda því fram, að þeir ættu ekkert að hafa með sölu þeirra aðgera.

Nú er erfitt að halda því fram, að það sé meira hagsmunamál fyrir neytendur en framleiðendur, hversu tekst til með afurðasöluna, enda þurfti ekki lengi að bíða til að sjá, hversu merkilega tækist til í því efni. Hv. 8. þm. Reykvíkinga, sem annars er skilmerkilegur maður, reyndi að færa rök fyrir því, að það væri svo miklu stærra atriði fyrir neytendur, hversu tækist til með vinnslu og dreifingu mjólkurinnar, að þess vegna væri sjálfsagt að afhenda neytendum þetta hvort tveggja. Það þarf ekki að benda á, hversu þunn þau rök eru. Það er stór neytandi í bæ, sem kaupir mjólkurafurðir frá einni kú. En bóndinn hefur frá 6 upp í 15 til 20 kýr. Hvort er það þá stærra atriði fyrir neytandann eða bóndann, hvort dreifingarkostnaður eða vinnslukostnaður er einum eyri hærri á lítrann? Þetta eru einu rökin, sem reynt hefur verið að koma með, og þetta er fullkomin firra, eins og allir sjá og ég hef áður bent á.

Það, sem ber að taka tillit til, er: Hverjir eiga meira í húfi? — Og það er augljóst mál, að bændurnir eiga meira í húfi, bæði um það, hversu það tekst að gera mjólkina vandaða í vinnslu og hversu ódýrt er unnt að gera það. Það er af því, að það eru hagsmunir bænda að auka söluna sem mest og að framleiðslukostnaðurinn geti verið sem lægstur.

Þetta er einfalt dæmi fyrir hvern, sem nennir að hugsa um það og vill hugsa um það með skynsemi. Afkoma landbúnaðarins er komin undir því, að hægt sé að auka neyzluna, og skilyrði það að framleiða hana á sem ódýrastan hátt og koma henni sem ódýrastri til neytenda, þannig að neytendurnir geti keypt hana. Þess vegna er augljóst mál, að salan á að vera í höndum þeirra, sem mest eiga undir því, hversu salan tekst.

Þá kem ég að öðru atriði, hversu troðið er á rétt bændasamtakanna í þessu frv. Það er þannig frá því gengið, að ef t. d. bæjarfélag vildi taka vinnsluna í sínar hendur, þá hefðu bændur ekkert um það að fjalla. En hvar kæmi það verð niður, sem yrði að taka fyrir vinnsluna? Kæmi það bara neytendum við? Hver halda menn, að fengi ábatann ef hægt væri að lækka vinnslukostnaðinn frá því sem nú er? Hvort yrði það neytandinn eða bóndinn, sem hefði hagnaðinn, eftir að þessu skipulagi væri komið á? Ef þetta frv. yrði samþ., þá yrðu bændurnir eins og ánauðugir menn fyrir neytendum í kaupstöðunum, enda er það þetta, sem vakir fyrir flm. frv., og mun ég benda á það síðar í sambandi við grg. frv.

Ég vil leyfa mér að spá því, að ef svo færi, að frv. þetta yrði samþ., — sem verður ekki — þá yrði niðurstaðan sú, að það yrði bóndinn, sem yrði látinn borga hækkun vinnslukostnaðar. Það mundi þá verða svo, að neytendum yrði sama um vinnslukostnaðinn. Hann yrði bara dreginn frá því, sem bóndinn ætti að fá.

Þeir, sem standa að þessu frv., segja ekkert um það, hvað bóndinn á undir því að gera dreifingarkostnað og vinnslukostnað sem minnstan. Ég kem að þessu atriði síðar í sambandi við tilgang frv.

Till. flm. er að oddamaður n. sé skipaður manni úr hæstarétti, en eins og nú er, er oddamaður frá landbn. Ég get bent á, að ef þetta yrði samþ., þá væri það orðið dómstólamál, hver skyldu kjör bænda. Þeir, sem standa að þessu frv., telja sig vera forvígismenn verkamanna. En ef flutt væri frv. á Alþ. um, að kaup verkamanna skyldi ákveðið af tveim mönnum frá vinnuveitendum, tveir frá Alþýðusambandi Íslands og einn frá hæstarétti, hvað mundu þeir segja? En þeir leyfa sér að flytja frv. hér þannig, að þegar um kaupgjald bænda er að ræða, þá finnst þeim ekkert athugavert við slíka till. Það þarf vissulega mikið blygðunarleysi til þess að leggja slíka till. fram.

Svo eru rökin. Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að þetta væri eðlilegt, því að það yrði að vera hlutlaus aðili, sem væri oddamaður. Þarf það þá ekki að vera hlutlaus aðili, sem ákveður kaupgjald verkamanna?

Þá ætla ég að víkja nokkuð að þeim ástæðum, sem flm. telja sig hafa til að flytja þetta frv. hér á Alþ. Það kom ekkert fram í ræðu hv. 8. þm. Reykv., hvers vegna nauðsynlegt væri að breyta fyrirkomulagi því, sem nú gildir. En það kemur meira fram í grg. frv., hvers vegna þeir vilja láta breyta því.

Fyrsta ástæðan, sem færð er fram fyrir því, að nú þurfi að gera breyt., er sú, að bændur hafi nú einir tekið við stjórn Mjólkursamsölunnar. M. ö. o., þar sem bændur hafa sýnt slíka ósvífni að koma sér saman um að selja eigin afurðir, þá þurfi að setja löggjöf um að taka þessi mál algerlega úr höndum þeirra.

Þegar mjólkurl. voru sett hér á sínum tíma, heyrðist ekki ein rödd um, að ekki væri sjálfsagt, að bændur hefðu stjórn sölu sinna afurða á hendi, ef þeir gætu komið sér saman um það. En nú er einn flokkur í þinginu, sem hefur tekið að sér að berjast fyrir því, að afurðirnar verði teknar hálfunnar af bændum og skuli það vera verk neytenda að taka við vinnslu þeirra, þar sem það sé svo miklu stærra atriði fyrir neytendur, hver kostnaðurinn verði. Í öðru lagi segja þeir, að nú hafi verðlagið verið ákveðið fast, kr. 1,23 fyrir lítra af mjólk til bænda, og sé það því ekki lengur neitt atriði fyrir bændur, hvað mikill dreifingar- og vinnslukostnaðurinn verði. Þegar hér er komið, segja þeir, er kominn nýr grundvöllur og þá eðlilegt, að neytendur taki við. Þetta á að vera nægileg ástæða, — að það hefur náðst samkomulag um, að bændur fái 1,23 kr. fyrir hvern lítra mjólkur.

En hvernig er þetta samkomulag, sem á að byggja á framtíðarskipulagningu mjólkurmálanna? Það er til eins árs og sett undir alveg óvenjulegum kringumstæðum, sem við vitum allir, að ekki getur staðizt til framtíðar. Það er sett undir þeim kringumstæðum, að í landinu gildir kaupgjald, sem getur ekki gilt til frambúðar. Það fer því svo fjarri, að framleiðendum sé tryggt, að þeir fái í framtíðinni fast verð fyrir mjólkina. Og það verður svo, að þegar til lengdar lætur, þá verða það markaðsskilyrðin í bæjunum, sem ákveða, hvað bændur geta fengið fyrir afurðir sínar.

Þetta er því tylliástæða. Samkomulagið er aðeins til bráðabirgða og getur aðeins verið til bráðabirgða. Það er ekkert fast framtíðarskipulag. Hv. flutningsmenn hafa borið þetta samkomulag fyrir sig, en ég hef sýnt, að það er ekki hægt að byggja á því neitt framtíðarskipulag.

Eins og allir vita, var sett sex manna n., sem átti að finna hlutfallið milli kaupgjalds og afurðaverðs bænda, og það, sem hún ákvæði, átti að vera bindandi, ef hún kæmi sér saman. Og hún kom sér saman. Hún átti að finna, hvað bændur þyrftu að fá fyrir afurðir sínar, svo að það yrði hliðstætt við annað kaupgjald í landinu. Hún miðaði niðurstöður sínar við, hvað þeir þyrftu að fá fyrir alla framleiðslu sína, en ekki bara það, sem selt væri á innlendum markaði.

Ég fullyrði, að allir þeir, sem vilja á heiðarlegan hátt standa við það, sem gert var á Alþ. s. l. ár, hljóti að líta þannig á, að þá hafi Alþ. skuldbundið sig til þess, að þetta verð fengist fyrir vöruna. En það einkennilega skeður einmitt í sambandi við þetta mál, að Sósfl., — sem að vísu, átti ekki fulltrúa í n., en Alþýðusamb. Ísl. átti fulltrúa í n., sem var sósíalisti og stóð í sambandi við flokkinn, — hann sker fyrst upp úr um það, að ekki komi til mála að greiða uppbætur á útflutningsverð til bænda, en vill binda bændur við fast verð innanlands, sem byggt sé á því, sem fáist fyrir útfluttar afurðir. Síðan ætlar hann að svíkjast undan því að vinna að því, að þetta verð fáist á innlendum markaði.

Nú skyldu menn ætla, að komið væri nóg í bili af hálfu sósíalista. en svo er ekki. Nú kemur í ljós að sósíalistar láta fulltrúa sinn í sex manna n. samþ. á pappírnum það, sem þeir ætla svo að svíkja í framkvæmdinni, til þess að fá grundvöll undir aðra kröfu, — að þar sem búið sé að ákveða fast verð til bænda, þá megi taka af þeim framleiðslutækin, því að nú komi þeim ekki lengur við, hvaða verði varan sé seld.

Svona hafa verið heilindi þeirra í sambandi við starf sex manna n.

Þá kem ég að þriðju ástæðunni, sem fleygt er fram í grg. frv. fyrir því, að frv. sé fram komið, og hún sýnir betur en nokkuð annað, hvernig flm. er innanbrjósts, og skal ég lesa þau orð, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir: „Gildandi lög um mjólkursölu hafa tryggt Framsfl. einræðisvald í mjólkursölumálunum. Í Reykjavík og Hafnarfirði, þar sem Framsfl. er fylgislaus, er hann einráður um allt fyrirkomulag mjólkursölunnar, verð mjólkurinnar og allt annað, er að því lýtur“.

Hér mun sem sagt komið að kjarna málsins. Nú er það fyrst að segja, að Framsfl. sem slíkur hefur engin ráð á mjólkursölumálum Reykjavíkur. Hitt er annað mál, að sumir bændur hafa gerzt svo djarfir að vera framsóknarmenn, sumir af þeim fulltrúum, sem bændur hafa kosið til að hafa þessi mál með höndum, eru framsóknarmenn. En takið eftir, — flm. segja, að það sé óþolandi, að Framsfl., sem sé fylgislaus í Reykjavík og Hafnarfirði, skuli vera þar einráður um allt fyrirkomulag mjólkursölunnar. — M. ö. o., af því að bændum hefur ekki þóknazt að fylgja þeim flokkum að málum, sem eiga meginfylgi sitt í Hafnarfirði, þá skuli þeir ekki hafa leyfi til þess að hafa mjólkursöluna í þessum bæjum. En ef þeir hefðu verið svo vitrir að fylgja Sósfl. eða Sjálfstfl., — þá hefði ekkert verið athugavert við það. En af því þeir hafa falið Framsfl. umboð sitt, þá er sjálfsagt að taka af þeim mjólkursöluna. Þannig er hugsunarháttur þeirra, sem að frv. standa, og svo tala þeir fagurlega um það, eins og hv. 8. þm. Reykv., að athuga verði nú gaumgæfilega, hvað bezt muni vera að gera í þessum málum. En stillinguna vantar til að halda hinum raunverulega tilgangi leyndum, svo að þegar kemur aftur á 2. bls. í grg., kemur skýrt í ljós, að hér er á ferðinni opinber pólitísk ofsókn á hendur bændastéttinni, af því að hún hefur gerzt svo djörf að taka þessi mál í sínar hendur og felur sósialistum hvergi að fara með mál sín, eins og ég gat um áðan. Hér segir orðrétt í grg. fyrir þessu frv.:

„Með samkomulagi vísitölunefndar landbúnaðarins er stigið skref til að afnema ófriðarástandið milli framleiðenda í sveit og neytenda. Ef það samkomulag á að koma að notum, þarf að svipta Framsfl. því tæki, sem hann hefur öðrum fremur notað til að skapa þá úlfúð, sem vísitölunefnd átti að eyða, en það eru mjólkursölumál bæjanna“.

M. ö. o. kemur það fram æ ofan í æ í grg., að málið er fyrst og fremst pólitísk ofsókn á hendur bændum, af því að þeir hafa ekki skoðanir flutningsmanna. En út af samkomulagi vísitölun., sem svo tíðrætt hefur orðið um bæði í grg. og framsöguræðu hv. 8. þm. Reykv., vil ég segja nokkur orð. Flm. hafa þá gert sitt til eða hitt þó heldur að halda þetta samkomulag. Í fyrsta lagi hefur þetta aðeins orðið að samkomulagi í orði, ef farið væri eftir þeirra skilningi, þar sem þeir hafa aðeins viljað láta það ná til innanlandsmarkaðsins, en þegar tryggja átti útflutningsuppbætur, þá notuðu þeir tækifærið til að ráðast heiftarlega á bændur í blaði sínu.

Næsta skrefið sem þeir hafa svo stigið til samkomulags framleiðenda og neytenda, er þetta frv., sem gerir ráð fyrir að taka afurðir bænda, áður en þær eru framleiddar, og afhenda þær bæjarstjórnum. Og þeir eru svo blygðunarlausir, að það er sagt berum orðum, að þetta sé gert í því skyni, að fylgislaus flokkur í bæjunum hafi ekki umráð yfir þessum málum. M. ö. o. af því að bændur eru svo djarfir að vera í öðrum flokki en íbúar þessara bæja, þá á að ræna þá rétti sínum með lagasamþykkt.

Þetta er það samkomulag, sem sósíalistar beita sér fyrir. Þetta er þó aðeins byrjunin. Í eðlilegu framhaldi af þessu gæti hv. 8. þm. Reykv. flutt þá kenningu, að bændur létu dilkana af hendi, áður en þeim væri slátrað, og þá væntanlega á fæti, að bæirnir tækju að sér rekstur frystihúsa eg sláturhúsa, eða hver veit, hvar þeir mundu stöðva sig, ef litið væri við þessari ósvífni. Það er vitað, að eitthvað þessu líkt mundi koma á eftir. Og til þess að sýna jesúítaháttinn í þessu öllu saman er blandað inn í grg. fögrum orðum um, að heilsa barnanna sé í veði, ef ekki sé að gert.

Í 6. gr. er svo ákveðið, að þeim, sem sérleyfi hafa til sölu mjólkur, skuli skylt að sjá um, að ávallt sé nóg fyrir hendi af henni til sölu.

Það er m. ö. o. sama, hvaða verð hæstarétti þóknaðist að setja á mjólkina eða hvaða sleifarlag sem væri á mjólkursölunni hjá bæjarstjórnum, bændum væri í öllum tilfellum skylt að afhenda nýmjólkina. Ég hefði gaman að sjá, að þetta væri alltaf framkvæmanlegt. Í fyrsta lagi gæti oft reynzt ómögulegt að fullnægja þessum kröfum af óviðráðanlegum orsökum, og gætu legið til þess ýmsar ástæður. Í öðru lagi yrði sennilega búið þannig að bændum, að áhugi þeirra á framleiðslunni dofnaði og framleiðslan drægist saman, þar eð réttur þeirra væri fyrir borð borinn.

Ég geri nú ráð fyrir, að aðrir geri ýmsum atriðum í þessu frv. nánari skil. Ég mun því ekki fjölyrða um það sjálft að sinni. En það eru nokkur atriði í sambandi við það, sem ég vildi aðeins drepa á.

Hér er þá komið fram frv. um að taka mjólkurstöðvarnar af bændasamtökunum. Aftur á móti bólar ekki neitt á sams konar till. í öðrum efnum, sem sósíalistar hafa þótzt ætla að flytja, t. d. viðvíkjandi annarri verzlun, að bæjarstjórnir taki hana í sínar hendur, — eða þá iðnaðurinn, að hann væri rekinn á þann hátt, að hagsmuna neytenda væri gætt sem bezt. Ég hef ekki heldur séð, að þeir legðu til, að tæki og áhöld kaupmanna væru tekin af þeim „með skuldum, sem á þeim kunna að hvíla og án annars endurgjalds“, eins og svo meistaralega er að orði komizt í grg. Nei, — það er mest aðkallandi að taka framleiðslutæki bænda og gera þeim þessi skil.

Það er full ástæða til að gera sér grein fyrir, hvað vakir fyrir þessum mönnum. Það er ekki málefnaáhugi, það hlýtur önnur hvöt að vera hér á bak við. Ég fyrir mitt leyti hlýt að álykta, að annað geti ekki ráðið framkomu þeirra gagnvart bændum en þeir vilji flytja mál, sem koma í veg fyrir samkomulag milli verkamanna og bænda, meðan verkalýðurinn fær þeim forustuna, í stað þess að stefna að því, að þessar fjölmennu stéttir geti komið sér saman. Ég sé enga aðra skýringu á framferði þeirra. Og þetta er í sjálfu sér ekkert einkennilegt frá sjónarmiði þeirra, er vilja láta allt draslast og undirbúa jarðveginn fyrir byltingu. Frá sjónarmiði þeirra, er vilja ekki umbætur, er rétt að stía sundur stéttum. Við könnumst við þessar aðferðir, t. d. hegðun þeirra gagnvart stj. á árunum 1934–1937. Ég minnist mjólkurverkfallsins frá þeim tíma og hvernig kommúnistar sameinuðust þá sjálfstæðisverkamönnum til þess að reyna að fá verklýðssamtökin á móti stj. Þeim tókst þetta, og síðan hafa þeir leikið þetta hlutverk. Nú hafa þeir ætlað að vera klókir og láta fulltrúa sinn í sex manna n. verða með í samkomulaginu, en ráðast síðan á bændur á tvennum vígstöðvum, — í fyrsta lagi með því að leggja þann skilning í samkomulagið, að það næði aðeins til innanlandsmarkaðsins, og í öðru lagi með þessu frv., sem mun vera eins dæmi í þingsögunni. (SigfS: Síðan 1917. Hæstv. forseti þessarar d. flutti þá frv. sama efnis). Þetta er aðeins til að ala á óvild. Sósíalistar eru orðnir vonlausir um, að bændur aðhyllist stefnu þeirra, og þá er sjálfsagt að taka af bændum ráðin með l., ráðin um þeirra eigin mál.