21.10.1943
Neðri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt það líti út fyrir, að ýmsir af þeim mönnum, sem eiga sæti í þessari hv. d., vilji ekki hafa það, sem sannara reynist, þó að það sé lagt upp í hendurnar á þeim, heldur trúa því, sem þeim þykir bezt að trúa, þykir mér samt rétt að leiðrétta nokkur atriði, sem hér hafa komið fram.

Ég vil þá fyrst benda á, að því hefur jafnan verið haldið fram, ekki reyndar mikið við þessa umr., en áður, annars vegar, að verðjöfnunarsvæðið væri allt of stórt og þyrfti að vera miklu minna, og hins vegar, að það vantaði mjólk til bæjarins. Í þessu sambandi talaði hv. þm. Hafnf. um það rétt áðan, að aukningin á mjólkurmagni því, sem til bæjarins væri flutt, stafaði að verulegu leyti af því, að minna væri neytt af mjólk á heimilunum en áður. Það kann að vera rétt hjá honum, en ég vildi benda honum á tvennt, annars vegar það, að kúnum hefur fjölgað, og hins vegar að nythæð kúnna hefur vaxið. Árið 1933 voru fluttir hingað til bæjarins 3410374 lítrar af mjólk, en nú yfir 15 millj. lítra, og á sama tíma hefur kúnum fjölgað um því nær 3000.

Hv. þm. Hafnf. segir, að ein afleiðing af l. sé sú, að kúm í Reykjavík hafi fækkað, þar sem hann taldi, að þær ættu að vera flestar. Það er rétt, að þeim hefur ekki fjölgað mikið í Reykjavík, en ég hélt, að þar sem þær eru 700 nú, en voru 655 1934, þá væri sú breyt. ekki á þann veg, að þeim hefði ekkert fjölgað hér. Sama er að segja, ef tekin er Gullbringu- og Kjósarsýsla eða Hafnarfjörður. Þar er ekki mikil fjölgun, en fjölgun er það eigi að síður. Það er því rangt, að mjólkurskipulagið hafi leitt til þess, að kúm hafi fækkað. Þeim hefur ekki fækkað, en þeim hefur fjölgað minna en annars staðar, og liggja til þess aðrar ástæður, sem ég skal ekki rekja nú.

Í þessu sambandi vildi hv. þm. halda því ákveðið fram, og það hafa fleiri gert, að það að þurfa að flytja mjólkina svo langt að sem nú væri gert væri orsök til þess, að nú væri mjólkin verri en áður, og það hefur ekki verið hægt að skilja annað á neinum þeirra hv. ræðumanna, sem um þetta hafa talað en að þessi langi flutningur á mjólkinni til að fullnægja þörf bæjarbúa væri orsök þess, að mjólkin væri nú slæm. Nú er þarna ákaflega margt, sem til greina kemur, og þó langmest ýmsir staðhættir heima á hinum fjöldamörgu heimilum, sem mjólkin kemur frá, en þau eru nokkuð á þriðja þúsund. Það eru mjög mörg atriði, sem koma til greina um það, hvort mjólkin verður góð eða slæm. Það er fyrst og fremst aðstaðan til að kæla mjólkina, þrifnaður á heimilunum og í fjósunum o. s. frv. En sé sú kenning rétt, að sú mjólk, sem langt er flutt, verði verri en sú, sem framleidd er hér í nágrenninu, þá ætti að vera hægt að upplýsa það með því að gera samanburð á mjólkinni á hinum ýmsu stöðum.

Þann 12. nóv. 1940 skipaði ríkisstj. mann til að rannsaka ýmislegt viðvíkjandi mjólkurmálunum og athuga, hvernig mætti úr bæta. Eitt af því, sem þessi maður, Stefán Björnsson mjólkurfræðingur, sem var eini maðurinn hér, er hafði fullkomna menntun á þessu sviði, rannsakaði, var einmitt þetta atriði, gæði mjólkurinnar frá ýmsum stöðum. Það eru til tvær aðferðir til að rannsaka gæði mjólkur. Önnur þeirra er litprófun, sem skiptir mjólkinni í fjóra flokka eftir gæðum, þar sem fyrsti flokkur er beztur og sá fjórði lakastur. Hún segir, hvað mikið sé af óhreinindum og bakteríum í mjólkinni og þess háttar. Svo er líka til efnagreining á mjólk, sem segir, hversu feit mjólkin sé. Mér þykir leitt, að hv. þm. Hafnf. er ekki við, því að hann var að hæla mjólkinni í Hafnarfirði. En þar er þannig ástatt, að þar er ekki hægt að dæma um mjólkina, hvort hún er góð eða vond, feit eða mögur. Það hefur verið vanrækt að fitumæla og litprófa hana þar undanfarin ár.

Það liggur fyrir fjölrituð skýrsla, sem Stefán Björnsson samdi að rannsókn sinni lokinni. Þar er mjólkin frá hverjum stað flokkuð í fjóra flokka eftir gæðum samkvæmt litprófun. Kemur þá í ljós, að 45% af mjólkinni úr nágrenni Reykjavíkur er í fyrsta flokki, en af mjólkinni, sem kemur úr Flóabúinu, er 82,5% í fyrsta flokki. Í fjórða flokki er 1,6% af Reykjavíkurmjólkinni, en 0,9% af Flóabúsmjólkinni. Ég veit, að það þýðir ekki að segja þessum hv. þm. þetta. Líklega segja þeir ekki að Stefán Björnsson hafi falsað þessa skýrslu, en þeir segjast bara ekki trúa því, þó að þeir sjái það sjálfir í fjölritaðri skýrslu. Og sjálfsagt hafa margir þeirra fengið hana, því að hún var til í stjórnarráðinu á sínum tíma, og þar fékk ég hana, og ég veit, að hvaða þm., sem er, hefur getað fengið hana, hafi hann óskað þess. Það er því greinilegt, að það er þveröfugt við það, sem þessir hv. þm. hafa haldið fram. Með þessu tel ég þá sannað, að langflutningarnir hafa ekki átt afgerandi né verulegan þátt í því að gera mjólkina verri, því að mjólkin hefur reynzt betri úr austursveitunum þrátt fyrir langan flutning, en af hverju það er, skal ég ekki fara út í að þessu sinni.

Þá gætum við hugsað sem svo, að Reykjavíkurmjólkin væri þó feitari og það miklu feitari. Því svarar einnig þessi athugun. Og hvað segir hún um það? Þar er mjólkinni skipt niður í fimm flokka eftir fitumagni. Í lægsta flokki var mjólk með fitu fyrir neðan 3%, en 3% er það minnsta fitumagn, sem mjólk má hafa, sem hér er seld. Annar flokkur var 3–3,3%, þriðji flokkur með 3,3–3,6%, fjórði flokkur með 3,6–3,9% og fimmti flokkur með yfir 3,9%. — Sá samanburður er þannig:

Undir:

Yfir:

3%

3–3,3%

3,3–,6%

3,6–3,9%

3,9%

Reykjavík

2,14

15,89

39,87

24,97

17,13

Flóabúið

0,25

5.32

30,95

38,12

25,16

Þetta er þá það, sem þessi skýrsla segir um fitumagn mjólkurinnar: Reykjavík og nágrenni hafa hærri prósenttölu af mögru mjólkinni, en austursveitirnar hærri prósenttölu af feitu mjólkinni alveg eins og mjólkurgæðin voru meiri að austan en úr nágrenni Reykjavíkur. Þetta er það raunverulega ástand. Svona er það, en ég efast um, að það þýði að segja frá þessu, því að menn vilja ekki heyra staðreyndirnar í þessu efni.

Það eru því ekki flutningarnir á mjólkinni, sem valda því, ef eitthvað er áfátt um gæði hennar. Það er eitthvað annað, sem þar kemur til greina, og þá fyrst og fremst það, að á Reykjavíkursvæðinu hefur enginn verðmismunur verið gerður á mjólkinni eftir gæðum eða fitumagni. Þar hefur sama verð verið borgað fyrir hvern lítra, hvort sem mjólkin hefur verið feit eða mögur. Á Flóabússvæðinu aftur á móti fá bændur mjólkina borgaða eftir fitumagni, og þar að auki er hún verðfelld, ef hún lendir í lægri gæðaflokkunum. Bændur þar eystra gera því, sem þeir geta, til að hafa mjólk sína sem bezta og feitasta. Þetta er fyrst og fremst ástæðan til þess, að mjólkin er betri og feitari í austursveitunum en í nágrenni Reykjavíkur.

Í umr. í dag var starf sex manna n. dregið nokkuð inn í þessar umr. Þar var því haldið fram, að verð á landbúnaðarafurðum hefði hækkað á undan kaupgjaldinu. Þessu mótmæli ég. Verð á landbúnaðarafurðum hefur aldrei hækkað fyrr en á eftir kaupgjaldinu í sveitunum. Þeir, sem halda hinu fram, hafa ekki áttað sig á, að kaupið í sveitunum hefur hækkað hálfu og heilu ári og stundum meira en heilu ári fyrr en taxtakaupið í bæjunum hefur verið hækkað.

Ef menn reyna að afla sér upplýsinga um, hvað kaupið hefur verið í sveitum á hverjum tíma, þá munu menn sannfærast um þetta.

Það virðist svo, að ýmsum mönnum sé það lítt skiljanlegt, hvers vegna hefur orðið vart mjólkurskorts hér í bæ á s. l. hausti, þó að vitað sé, að meira hefur verið selt af mjólk í bænum nú en undanfarin haust. Ég hygg, að þetta þurfi ekki að vera mönnum neitt undrunarefni. Til þess liggja tvær ástæður og kannske fleiri. Önnur er sú, að kaupgeta almennings er nú hin mesta, sem hún hefur verið, mjólkurkaupendur því flestir nú og mjólkurkaupin hjá hverjum manni hvað mest. Þó hugsa ég, að það sé ekki það, sem ræður hér úrslitunum, heldur hitt, að það er búið að hræða fólkið með og telja því trú um, að það fái ekki mjólk. Afleiðingin af því er sú, að í staðinn fyrir að koma smátt og smátt allan daginn og sækja mjólk sína eins og á venjulegum tímum, þá þyrpist fólkið í hópum í búðirnar á morgnana, líkt og fé er smalað úr högum í hús eða rétt. Allir vilja fá afgreiðslu í einu af ótta við, að ef þeir komi ekki svona fljótt, muni þeir ekki fá neitt. Þetta verður til þess, að afgreiðslan verður miklu erfiðari og verri. Og þegar fólk hefur staðið lengi í þrengslum og beðið, þá kaupir það meira þegar það kemst að en það er vant að gera. Þetta hugsa ég, að geri mest, biðin í þrengslum og hræðslan við að fá ekki nóga mjólk. Og af þessu hefur svo leitt allt þetta umtal og allur þessi hávaði, sem orðið hefur út af vöntun á mjólk hér í bæ.

Það er nú farið að fréttast út til bænda um þetta frv., hvert það stefnir og hvert efni þess er. Þó að það sé langt síðan samþ. var hér á þingi að skipa n. í því skyni að bæta póstsamgöngur, þá hefur það starf ekki gengið betur en svo, að enn hafa engar bætur verið gerðar á póstsamgöngunum. Þetta frv. og fréttir um það í blöðum hafa þó borizt út um land og eru nú komnar í hendur margra landsmanna.

Einnig hafa menn í haust átt í margs konar annríki og ekki gefið sér meira en svo tíma til þess að fylgjast með því, sem gerzt hefur hér á Alþ. Hins vegar sé ég það, að nú eru menn bæði búnir að fá blöð með fréttir af þessu frv. og sömuleiðis þá líka hitt, að menn eru búnir að kynna sér það úti um land, því að í dag voru send til mín tvö mótmælaskeyti gegn frv. frá bændum utan af landi, annað frá Reyðarfirði, þar sem bændur úr Reyðarfirði og Fljótsdalshéraði orða mótmæli sín þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur framleiðenda af Héraði og Reyðarfirði, haldinn á Reyðarfirði 20. okt. 1943, mótmælir eindregið frumvarpi sósíalista á þingskjali 77, er nú liggur fyrir Alþingi, um breytingar á mjólkurlögunum. Fundurinn telur frumvarp þetta ganga í öfuga átt, þar sem framleiðendum einum beri að annast sölu og dreifingu á framleiðsluvörum sínum svo og að verðleggja þær. Fundurinn skorar því fastlega á Alþingi að fella frumvarp þetta“.

Önnur samþ. liggur hér fyrir frá fundi í Loðmundarfirði og fer í sömu átt. Og það er víst, að enginn bóndi verður með þessu frv., frá hve mörgum þeirra sem mótmæli koma. Enginn bóndi verður með því að láta ekki leyfa sér að hafa sínar eigin stöðvar til þess að vinna sínar eigin vörur. Og ekki er nóg með það, að bændur eigi ekki að fá að vinna úr vörum sínum, heldur vilja formælendur líka láta taka af bændum þau tæki, sem þeir hafa komið sér upp til vinnslu mjólkurinnar. Og svo vilja þeir láta kaupa af bændum til sölu og vinnslu bara það mjólkurmagn, sem bærinn á hverjum stað þarf til sinna nota. Það er margyfirlýst af frumvarpsflytjendunum, að það sé ekki meiningin að borga kr. 1,23 fyrir lítrann fyrir meira af mjólk en það, sem selst innan lands, en þau rúml. hundrað tonn af ostum, sem liggja hér og er verið að byrja að selja út úr landinu, þau á ekki að vera hægt að gera. Bærinn á að eiga mjólkurstöðina, eftir því sem þessir menn vilja, og á ekki að þurfa að taka við meiri mjólk í hana en selst sem neyzlumjólkurvörur á verðlagssvæðinu, mun vera meining þeirra. Svo getur vel verið, að bændur megi fyrir náð og miskunn fá að hafa sína eigin stöð til þess að vinna úr þeirri mjólk, sem framleidd er á verðlagssvæðinu fram yfir það, sem bærinn þarf að kaupa á hverjum tíma. Annars veit ég ekki, hvort þeir vilja leyfa það eða ekki. Það liggur ekkert fyrir um það, og sýnilega er það ekki meiningin. En þó að hér séu nokkrir einstakir menn á þingi, sem eru svo illviljaðir í garð bænda, að þeir vilja ekki lofa þeim að ráða yfir sínum eigin vörum, vinnslu þeirra og afhendingu, heldur taka hana af þeim, þá skipa þeir mikinn minni hluta á hæstv. Alþ. enn, og vonandi lengi enn.