21.10.1943
Neðri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki gera langa aths. við ræðu hv. þm. V.-Sk.

Ég tók eftir því, að eftir því sem lengra leið í ræðu hans, æstist hann upp og lauk henni með hótunum án þess þó að nefna, hvað það væri, sem ætti að gera. Ég vil því óska þess, að hann geri betur grein fyrir því, hvað hann á við með þessu.

Hann minntist á það, að ég hefði átt kú og stundað þannig búrekstur, en að ég hefði talið borga sig betur að hætta því. En af hverju hætti ég því? Af því að skipulagið gerði mér ómögulegt að halda því áfram. (SvbH: Það var af því, að hv. þm. fór á snið við l. og borgaði ekki verðjöfnunargjald). Það var nú ekki ástæðan, vegna þess að það var nóg land á bak við, til þess að ég þyrfti ekki að greiða verðjöfnunargjald. En Framsfl. reyndi að ná af mönnum verðjöfnunargjaldi, þótt nægilegt land væri á bak við nautgripaeign þeirra. Þetta gjald var tekið í nýrri mynd af þeim framleiðendum, sem sendu mjólk til búsins. En það var ekki þetta heldur, skortur á beitilandi á sumrin, sem gerði það nauðsynlegt að koma kúnni fyrir utan bæjarlandsins, en þá fær eigandinn ekki að láta senda sér mjólkina úr henni heim. Ég ætla ekki að segja fleira um þetta, en ég er hv. þm. þakklátur fyrir það, að hann skuli nú hafa fallizt á það, að Hafnarfjörður skuli fá að vera svæði út af fyrir sig og engum öðrum háður í mjólkursölumálunum. Ég mun því með ánægju koma skilaboðum hv. þm. áleiðis, og ég get fullvissað hann um það, að Hafnfirðingar muni ekki láta standa á sér, ef þeir fá tækifæri til þess að losna úr skipulaginu, og ég vona þá, að hv. þm. V.-Sk. láti ekki heldur standa á sér að samþ. það fyrir sitt leyti, eins og hann hefur lofað.

Hv. þm. sagði, að Mjólkurbúið í Hafnarfirði hefði ekki fengið næga mjólk vegna þess, að bændur hefðu ekki viljað láta mjólk sína þangað, og hann gekk svo langt að segja, að hann hefði sjálfur hvatt menn til þess að senda mjólk sína til búsins í Hafnarfirði, en ég veit, að hann hefur heldur hrætt menn frá því að skipta við það bú en hvatt þá til þess, með þeim rökum, að þar væri þeim ekki tryggt sama verð fyrir framleiðslu sína eins og ef þeir sendu hana beint til samsölunnar.

Þá minntist hv. þm. á dreifingarkostnaðinn og sagði, að hann væri. ekki nema 6% og það væri lægra en þekktist á nokkurri annarri vörutegund. En hann minntist ekkert á það, að í mjólkurbúðunum er einnig verzlað með aðrar vörutegundir, sem bera uppi dreifingarkostnaðinn. En þrátt fyrir það að sölukostnaðurinn sé svona lítill, þá er álagningin þó ekki 6% af kr. 1.23, heldur er álagningin 47 aurar á hvern lítra, frá því að hann er sloppinn úr kúnni og þar til hann kemur til neytenda, þar sem bændur fá kr. 1.23 fyrir lítrann, en neytendum er seldur hann á kr. 1.70, þannig að það er 47 aura verðmunur frá framleiðendum til neytenda, og er því heildarálagningin 32 % á þessari vörutegund þrátt fyrir hinn lága dreifingarkostnað.

Ég skal nú fara fljótt yfir sögu. Hv. 2. þm. N.-M. tók að sér að sanna það, að mjólkurgæðin færu vaxandi með fjarlægðinni, sem mjólkin væri flutt. Ég verð nú að segja það, að ég er ekki búinn að átta mig á þessari kenningu, því að ég hef alltaf haldið, að mjólk væri eftir því betri, sem hún væri nýrri og að hún skemmdist á því að geyma hana, og ég veit, að víða erlendis er framleiðslu- og sölusvæðunum skipt niður í hverfi með það fyrir augum að flytja mjólkina sem allra stytzt, þannig að tryggt sé, að hún verði ný og þannig óskemmd neyzluvara.

Þá vil ég aðeins víkja örlítið að því, sem hv. þm. sagði um Alþýðubrauðgerðina. Hann sagði, að það hefði verið kvartað um óhreinlæti í fjórum búðum Alþýðubrauðgerðarinnar. En um þetta er það að segja, að tvær af þessum búðum höfðu ekki verið leigðar áður sem mjólkurbúðir, en þriðja búðin var tekin í því ástandi, sem hún var í, þegar Kaupfélag Reykjavíkur seldi hana, en það er búðin í Bankastræti, og er hún eign ríkisins. Í fjórðu búðinni hefur einvörðungu verið seld flöskumjólk. Þegar svo sú skipulagsbreyting var gerð, að hætt var að selja flöskumjólk, en mjólkin var seld í lausu máli, þá voru gerðar aðrar kröfur og strangari til búðanna, og því var ekki nema eðlilegt, að það þyrfti að breyta þeim eins og búðum samsölunnar hefur verið breytt. En þessar kröfur hafa ekki enn komið til Alþýðubrauðgerðarinnar, heldur hefur henni verið tilkynnt, að hún yrði að sækja um það á löglegan hátt að fá að halda sölunni áfram. Eftir því sem ég veit bezt, hafa nauðsynlegar breytingar farið fram á búðum samsölunnar, vegna þess að mjólkin er seld í lausu máli.

Hv. þm. minntist á blöndun smjörlíkis með smjöri, og það virtist honum óskiljanlegt, að hægt væri að fara eftir nokkurri annarri reglu en þeirri, hversu mikið væri til af smjöri innan lands. En ég hélt því fram, að ef hér hefði átt að bera fyrir brjósti hollustuhætti, hefði átt að blanda smjörlíkið jafnmikið, hvort sem smjörið var framleitt innanlands eða keypt frá útlöndum. En þetta var aldrei gert, þegar nóg var til af smjörinu. Og það var jafnan í lausu lofti, hvað mikið smjörlíkið var blandað á hverjum tíma. Það var eingöngu miðað við það, sem til var hjá samsölunni eða mjólkurbúðunum af smjöri. Þá sagði hv. þm., að vegna þess, hvað verð á þurrmjólk hefði verið lágt, hefði ekki verið stofnað til þurrmjólkurvinnslu úr undanrennu. En vill ekki þessi hv. þm. lesa næst síðasta hefti „Freys“, þar sem Sigurður Pétursson gerlafræðingur, sem oft er vitnað til í þessum umr., segir álit sitt um þetta. Hann telur eitt af þeim fáu úrræðum til að bæta úr mjólkurvandræðunum einmitt þurrmjólkurblöndun í brauð, sem fékkst samþ. fyrir 6 árum, en hefur aldrei verið notað. Hv. þm. vildi halda því fram, að umsögn mín um þetta stafaði af ókunnugleik eða þá, að ég færi með hreina blekkingu. En væntanlega vill hann ekki væna þennan sérfræðing um ókunnugleik eða blekkingar. en hann (S. P.) kemst samt að sömu niðurstöðu og ég hef áður komizt.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en þó get ég ekki stillt mig um að minnast lítið eitt á atriði, sem kom fram hjá hv. 2. þm. S.-M. hér í dag. Hann sagði, að það væri fullkomið áhyggjuefni, hvernig málum þjóðarinnar nú væri komið, og kaupgjaldið hefði meiri áhrif en nokkuð annað á framleiðslustarfsemina og iðnaðurinn og framleiðslustarfsemin yfirleitt væri komin á þá heljarþröm, að annaðhvort mundi bráðum henda, að kaupgjaldið yrði að lækka eða gengið yrði að lækka eða þá að allt mundi hrynja saman í rúst. Og hann vildi kenna þetta kaupgjaldi launamanna í landinu. En hann gleymdi að taka það til greina, af hverju kaupið hefur hækkað. Vísitalan er nú 262 stig, og helmingur þessarar vísitöluhækkunar stafar af landbúnaðarvörunum tveim, kjöti og mjólk. Sjá nú ekki allir hv. þm., að með slíkri hækkun á þessum tveim vörutegundum hefur málinu verið stefnt í þann voða, sem það er nú komið í. Ég skal svo ekki lengja þetta frekar, umr. eru orðnar nógu langar, en þó get ég ekki stillt mig um að lokum að lesa ummæli sérfræðings Mjólkursamsölunnar um það, hvernig málefnum landbúnaðarins er nú komið í höndum þeirra manna, sem með þau hafa farið undanfarin ár. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr grein þessa sérfræðings, en hún birtist í ágúst-hefti „Freys“ í sumar og er á þessa leið: „Hver lagasetningin hefur rekið aðra um verðjöfnunargjöld, styrkveitingar, verðuppbætur o. fl. vegna þessarar framleiðslu, en ekkert virðist hafa dugað. Landbúnaðarmálin eru eftir sem áður í mesta öngþveiti. Úreltir búnaðarhættir, vanhugsaðar styrkveitingar, fjárpestir, atkvæðaveiðar og óseljanlegar afurðir eru þær plágur, sem íslenzkur landbúnaður líður nú hvað mest undir“. Þeir taka svo til sín sneiðina, sem eiga, frá þessum sérfræðing Mjólkursamsölunnar.

Sigfús Sigurhjartarson: Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt, var í gær lokið umr. um frv. til l. um breyt. á mjólkurlögunum, og hafði ég vænzt atkvgr. um málið í dag.

Það er vitað að þetta er vegna þess að marga hv. framsóknarþm. vantar. Ég vil og geta þess, að tvívegis áður hefur þetta mál verið tekið af dagskrá af sömu ástæðu og einu sinni ekki tekið á dagskrá vegna fjarveru þm. sama flokks.

Get ég ekki séð annað en verið sé að draga málið á langinn og fresta nú atkvgr. fram á mánudag.

Vil ég hér með leyfa mér að óska eftir, að það verði tekið á dagskrá í dag.