11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

90. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði hér nú, vil ég segja það, að ég fæ ekki séð, að nokkur rök séu fyrir því, að erfiðara sé að halda þessa búreikninga eða fá menn til þess, þó að Guðmundur Jónsson, kennari á Hvanneyri, væri talinn gera það í umboði Hagstofunnar, heldur en þótt hann sé, eins og nú er, talinn gera það í umboði Búnaðarfélags Íslands. Ég sé enga ástæðu til þess að halda, að það yrði verra verk hjá honum, þó að þannig væri breytt til. Það er engin ástæða til þess að álíta, að hagstofustjóri gæti eða ætti fremur öðrum að safna þessum reikningum og vinna úr þeim. Ég býst við, að enginn annar maður en Guðmundur Jónsson komi til greina til þess fremur hér eftir en hingað til, meðan hans nýtur við og hann getur fengið þessa 40 bændur til þess að halda þessa búreikninga, því að Guðmundur Jónsson hefur staðið sig mjög vel í þessu starfi, eftir því sem ég bezt veit. Heldur er það hitt, sem fyrir mér vakir, að gengið sé þannig frá, að með búreikningaskrifstofurnar sé farið nákvæmlega á sama hátt og gögn hagstofunnar og þar sé um fyrirkomulag fylgt ráðum þess manns, sem falið er það tekniska starf, sem hagstofunni er falið að láta framkvæma.

Ég sé engin rök til þess liggja að vísa þessu máli til landbn. Þessa breyt. er fyrst og fremst lagt til að gera með tilliti til þessarar n., sem skipuð var á síðasta þingi, sex manna n. Fjhn. gekk frá ákvæðunum um þá n., þess vegna er ákaflega eðlilegt, að fjhn. fái þetta mál til meðferðar, vegna þess að hér er gert ráð fyrir því, að sex manna n., landbúnaðarvísitölun., hafi úr betri gögnum að vinna en verið hefur í þessum efnum, sem hér er um að ræða.

Í öðru lagi hefur hv. síðasti ræðumaður sagt, að þetta mundi stórauka útgjöld ríkissjóðs til þessarar skrifstofu. Það kann vel að vera, en mér finnst það enginn galli á þessu máli, vegna þess að það skiptir svo miklu máli fyrir þjóðina í heild, að réttar upplýsingar fáist í þessum efnum, að það er ekki horfandi í þann aukna kostnað til þess að tryggja það. Og einmitt með tilliti til þess, að þarna er um aukin fjárútlát fyrir ríkissjóð að ræða, er það líka eðlilegast, að málið fari til fjhn. Þetta er ekki mál, sem snertir landbúnað eingöngu, heldur bæði framleiðendur og neytendur landbúnaðarvara. Mér finnst því öll rök hníga til þess, að þetta mál eigi að fara til fjhn., en ekki landbn.