11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

90. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég get ekki komið auga á, að þær niðurstöður, sem fást við búreikningana geti orðið nokkuð öruggari, þótt framkvæmd laganna sé lögð undir hagstofustjóra. Ekki svo að skilja, að það sé neitt vantraust á hann. Hann er viðurkenndur heiðursmaður og sér um sitt verk prýðilega. Samt sem áður finnst mér málið þannig, að ekki sé hægt að fela það hagstofunni, því að vitað er, að eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur hér, er ekki hægt að vinna þetta verk öðruvísi en að það sé sérstakur maður, sem finnur hvöt hjá sér til að afla þeirra gagna, sem með þarf, og það er mjög mikill áhugamaður á þessu sviði, sem gerir þetta nú, og hefur hann aðstöðu til þess að standa í nánu sambandi við bændur úti um allt land. Auk þess er hann kennari við annan bændaskóla landsins og hefur þannig sérstætt tækifæri til að koma á framfæri hvatningu til bænda um búreikningshald. Það er fullvíst, að þessi maður er alveg óhlutdrægur í starfi sínu. Hann stundar ekki búskap sjálfur. Að því leyti er afstaða hans sú sama og hagstofustjóra. Ég sé því ekki, að það veiti neitt meira öryggi gagnvart því verki, sem á að vinna, að færa það inn á hagstofuna.

Mér skilst, að miðað við það, sem nú fer, þá ætlist flm. raunar til, að Guðmundur Jónsson hafi áfram þetta starf. En það liggur í hlutarins eðli, að hann getur ekki haft það áfram, ef það er lagt undir hagstofuna, nema hann vinni það undir handleiðslu hagstofustjóra. En þetta mundi valda því, að Guðmundur Jónsson þyrfti að gera þetta starf að aðalstarfi sínu, en leggja niður kennsluna. En hann hefur innt bæði störfin af hendi, án þess að að hafi verið hægt að finna. Ég held, ef þessi breyt. verði gerð, að þá yrði Guðm. Jónsson að leggja niður starf sitt við bændaskólann. En það er einmitt starf hans við bændaskólann, sem veitir honum sérstaka aðstöðu til þess að hafa áhrif á, að búreikningar séu haldnir. Enda kennir hann nemendum skólans færslu búreikninga, og er það mikils virt.

Það hefur ekki ævinlega verið auðvelt að fá nægan fjölda búreikninga, því að eins og hv. 2. þm. N.-M. sagði, hefur hann oft þurft að beita sérstökum áróðri til þess að fá næga tölu þeirra til að styðjast við. Þarna höfum við alveg sérstakan áhugamann og í þeirri stöðu og þeirri aðstöðu, sem hið mesta óráð er að spilla á nokkurn hátt. Mér skilst, að aðalástæðan fyrir því, að þessi till. kom fram, sé sú, að landbúnaðarvísitölun. hafi verið neitað um frumgögnin að búreikningunum. Ég hef ekki talað við Guðm. Jónsson um þetta, en ég hef ástæðu til að ætla, að hér sé ekki rétt með farið, en hitt getur verið, að á þeim takmarkaða tíma, sem n. hafði, hafi ekki verið hægt að nota frumgögnin, svo sem æskilegt hefði verið. Hins vegar væri gott, að tekin væru afrit af þessum reikningum, sem lægju hjá þeim manni, sem hefði starfið með höndum, svo að hægt væri að nota frumritin, ef þörf gerðist. Og ef hægt væri að gera þær breyt. á þessu frv., að því yrði komið þannig fyrir, skal ég vera með þeim. En ég tel ekki hyggilegt að samþ. aðalbreytinguna, sem frv. gerir ráð fyrir, a. m. k. ekki á meðan við höfum svo ötulan mann sem Guðmundur Jónsson er við búreikningana. Hitt er sjálfsagt, að málið fari til n. og fái venjulega afgr. Tel ég þá sjálfsagt, að það fari til landbn. Mig minnir, að öll mál þessu viðvíkjandi hafi verið samstarfsmál landbn. og fjhn.