18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Garðar Þorsteinsson:

Um þetta síðasta atriði skal ég ekki segja annað en það, að þetta sýnir, að þessi hv. þm. veit vel, að fjörueigandi á þetta land. En ég vil benda honum á annað, og það er það, að á þeim stöðum, þar sem svo hefur viljað til, að land hefur komið upp úr sjó, er viðurkennt, að fjörueigandi eigi það land líka. Það kann að vera, að það sé eitthvað í hafnarlögum um þetta, en það hefur þá farið fram hjá mér, en það er alveg víst, að það hefur ekki í l. verið gerður neinn greinarmunur á því, hvort hér sé um fjöru að ræða í útfiri eða innfiri. En það er alveg víst, að það þyrfti þá eignarnámsheimild fyrir hafnarsjóð, ef það ætti að taka af fjörueiganda þetta land, og yrði þá að koma fullt verð fyrir.

Svo var hv. þm. að tala um það, að það sé lóðareigenda að borga nokkurn hluta af þessu, þeir eigi að njóta góðs af þessu og þeir eigi því að taka þátt í kostnaðinum, og lóðareigandi á að láta rífa burtu öll mannvirki og hús, sem hann hefur áður á lóðinni, ef þess þykir við þurfa vegna hafnarinnar. Og mér er ekki kunnugt um, að höfnin eigi að borga annan kostnað en þann að rífa þetta niður. — Svo kemur það, að höfnin á að halda nægu dýpi við bryggjurnar, og má vera, að það sé nokkurt framlag frá hennar hálfu, en ef þessi hv. þm. vill fara í gegnum rekstrarkostnað söltunarstöðvanna á Siglufirði, þá getur hann séð, að það eru ekki nema tvær bryggjur, sem hafa haft verulegan kostnað af þessu, svo að það hefur ekki hlotizt mjög mikill kostnaður af því, og ég býst við, að þetta loforð um að halda ákveðnu dýpi á höfninni geti ekki lokkað þessa menn til þess að leggja í mikinn kostnað.

Þá eru þessir menn skyldaðir til að byggja þetta upp á næstu 10 árum. Þetta er svo fjarstætt, að það kemur náttúrlega ekki til mála, að slíkt ákvæði geti staðizt. Það vita allir, sem til þekkja, hvað það kostar mikið fé að byggja þessar bryggjur. En það er ekki nóg, að það eigi að skylda þessa menn til þess að halda þessum bryggjum við, heldur eru þeir skyldaðir til að rífa allar bryggjur upp og fylla þar upp, sem með þarf. Það er síður en svo, að það sé hægt að segja, að þessir menn eigi að taka smávægilegan þátt í þessum framkvæmdum, eftir því sem fram kemur í frv.