30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið alllengi til athugunar í sjútvn., og var það einkum vegna þess, að frv. inniheldur ákvæði, sem eru nokkuð frábrugðin því, sem gerist um hafnarframkvæmdir víðs vegar á landi hér, sökum þess að aðstaðan á þessum stað er talin önnur. Kemur þetta einkum fram í 6. gr. frv., og var hún nokkuð ýtarlega athuguð, og þá einkum og sér í lagi skiptingu kostnaðar milli þeirra einstaklinga, sem eiga eða hafa á leigu lóðir, er liggja að höfninni á Siglufirði, milli þeirra og bæjarfélagsins. 6. gr. inniheldur allströng ákvæði viðvíkjandi þessu, sem beita mætti og beitt yrði gagnvart þeim einstaklingum, er til mála koma. Þetta er vegna þess, að kaupstaðurinn á ekki sjálfur nærri því allt það land, sem að höfninni liggur, og er aðstaðan þarna því ólík því, sem er á mörgum öðrum stöðum, þó ekki öllum.

N. sendi mál þetta, eins og venja er til, til vitamálastjóra, enda hafði hann það mál, sem frv. ræðir um, til meðferðar og hefur skipzt á bréfum við bæjarstjórn Siglufjarðar um þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru samkv. frv., og hvernig réttlátast er að hafa skiptingu þess kostnaðar og þess verks, er hér um ræðir.

Að öðru leyti skal ég geta þess, að í frv. er prentvilla í 1. gr., um kostnaðarhlutföllin, þar sem talað er um, að ríkissjóður greiði 2/3 kostnaðar, ætlaðist flm. til, að væri 1/3 kostnaðar, eins og venja er til við sambærilegar framkvæmdir í öðrum kaupstöðum. Þetta leiðréttir n., svo og þar af leiðandi þær upphæðir í 1. og 2. grein, sem tilgreindar eru.

Þá segir svo í 5. gr. frv.: „Hafnarsjóður á allt það land, sem flýtur yfir með stórstraumsflóði“. — Til þess að koma í veg fyrir misskilning síðar út af þessu ákvæði, þótti n. rétt að bæta við þessa setningu: „En leigumálar þeir, sem nú eru í gildi, haldist, eftir því sem samningar um lóðaleigu standa til“. — Þetta er gert með það fyrir augum, að þótt hafnarsjóður kunni að eignast meira land en nú er talið hans eign, þá haggi það ekki leigumálum, sem nú hafa verið gerðir, heldur standi þeir. En breyt. er sú, að þar, sem leiga félli nú í einhverju tilfelli til einhvers eins manns, þá yrði hafnarsjóður leigusali og fengi leiguna sér greidda.

6. gr. breytir n. á þá leið, er segir í þskj. 527, og er það í samræmi að mestu við þær ráðleggingar um fyrirkomulag, sem hv. vitamálastjóri hafði í sínu álitsskjali sett niður. N. er sammála um orðun þessa. Þó skal geta þess, að eftir að gengið var frá nál., hefur komið fram ósk um, að tekið væri til athugunar milli 2. og 3. umr., hvort bærinn ætti að leggja til endurgjaldslaust uppgröft úr höfninni, sem mokað yrði inn fyrir fyrirstöðuþil, sem á að byggja á kostnað lóðareigenda, — að frádregnu því, sem ríkissjóður leggur til hlutfallslega við kostnað lóðareiganda. Í viðtali við hv. þm. Siglf. kom upp sú spurning, hvort bærinn ætti að fá endurgjald fyrir það, sem mokað er inn fyrir fyrirstöðuþilin upp úr höfninni. Sjálfur hafði ég tilhneigingu til að líta þannig á, að bænum væri það engu óhentugra, þó að hann léti moka leðjunni úr höfninni inn fyrir fyrirstöðuþil, en ef hann þyrfti að flytja hana þangað, sem hún nýttist ekki jafnvel á haf út. Um þetta atriði skal ég í bili ekki hafa fleiri orð. Það var þetta, sem hann og einn meðnm. minna hafði við till. að athuga, og sjálfsagt að hlusta á öll skynsamleg rök.

Þá þótti n. rétt að bæta við 6. gr. ákvæði um, að þær verðhækkanir á lóðum á Siglufirði, sem óhjákvæmilega verða, þegar þetta er gert, reiknist ekki til tekna þeirra, sem lóðirnar eiga, að svo miklu leyti sem endurbæturnar eru kostaðar af opinberu fé, ef bærinn síðar meir þarf að kaupa þessar lóðir.

Annars vil ég geta þess, að það bezta fyrirkomulag, þar sem bæði bær og ríki leggja til fé í framkvæmdir, væri, að bærinn eignaðist allar lóðir, sem að framkvæmdunum liggja. En það bar á góma, að bænum væri ofurefli að kaupa þær allar í þessu tilfelli. Þess vegna varð að finna skynsamlega leið, til þess að þessar framkvæmdir gætu farið þannig fram, að hvorugum yrði íþyngt um of, bæjarfél. eða einstaklingum þeim, sem nú ráða yfir lóðum þeim, sem að höfninni liggja.

Ég hef svo ekki meira að segja um þetta, en vona, að hv. d. geti séð sér fært að láta frv. halda áfram til 3. umr.