02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég gat þess við 2. umr., að eftir að gengið hafði verið frá brtt., þá hefðu komið fram raddir frá hlutaðeigendum og þá sérstaklega frá bæjarstjóra Siglufjarðar um það, að þeir væru ekki fyllilega ánægðir með þessa afgreiðslu málsins og þá sérstaklega það, að bærinn skyldi láta endurgjaldslaust af hendi uppgröft úr höfninni, sem yrði notaður til uppfyllingar.

Með því að það er fjarri því, að sjútvn. vilji setja inn ákvæði, sem verði bænum til óþæginda, þá lýsti ég yfir því, að við 3. umr. mundi verða borin fram brtt. til þess að ráða bót á þessu. Ég hef nú sem frsm. sjútvn. haft aðstöðu til þess að ræða við bæjarstjóra Siglufjarðar og fleiri, og það hefur orðið samkomulag milli okkar um brtt., sem ég vil nú leggja fram skriflega, og er hún sem hér segir:

Við 6. gr. Fyrir orðin „en uppfylling . . . eftir því sem hann hrekkur til“ í 1. málsgr. komi: en uppfylling innan við fyrirstöðuþil annast bæjarfélagið með uppgreftri úr höfninni gegn endurgjaldi lóðareigenda, eftir því sem um semst.

Þessa skriflegu brtt. vil ég nú afhenda hæstv. forseta með tilmælum um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.