11.12.1943
Efri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson):

Mál þetta er komið frá hv. Nd., og hefur sjútvn. Ed. athugað það gaumgæfilega og birt álit sitt á þskj. 631. N. leggur með frv., en er einróma samþykk því að gera á því viðeigandi breytingar.

Í niðurlagi 5. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafnarsjóður á allt það land, sem flýtur yfir með stórstraumsflóði, en leigumálar þeir, sem nú eru í gildi, haldast, eftir því, sem samningar um lóðaleigu standa til.“

Hér er um nýmæli að ræða, en n. lítur svo á, að ekki sé hægt að afnema eignarrétt þeirra, er hlut eiga að máli, á þennan hátt, og telur það vera á móti stjskr. og gildandi l. um þessi efni. Samkv. þeim telst landeigandi eiga 60 faðma út fyrir fjöruborð, og getur Alþ. því ekki afnumið þennan rétt, nema þessum l. sé fyrst breytt. Mér hefur verið bent á það af frsm. sjútvn. Nd., að þetta sé ekkert einsdæmi, og tilnefndi hann Dalvík. En því er til að svara, að þar standa yfir málaferli um skilning á núgildandi l. um þetta efni, þar sem eigandinn álítur ekki hægt að taka af sér land á þennan hátt, meðan þau 1. eru í gildi. En ef þetta skyldi standa í öðrum hafnarl., sem mér er þó ekki kunnugt um, en getur þó skeð, að sé einhvers staðar annars staðar og þá líklega komið inn af þeim ástæðum, að landið er eign viðkomandi bæjarfélags, þá skerti það einskis manns rétt, og þá er það aðeins atriði milli hafnarstjórnar og sveitarstjórnar, hvernig farið er með það land, sem bærinn á. En þegar rætt er um land einstakra aðila, þá lítur sjútvn. svo á, að ekki sé rétt að lögbjóða, að réttur þeirra verði tekinn af þeim. Samkvæmt 3. gr. er sérhver skyldugur til að láta af hendi mannvirki og land gegn fullu verði. N. sér ekki annað en að hér sé tryggður að fullu réttur hafnarsjóðs Siglufjarðar og hann geti fengið ákveðið land tekið eftir þeim ákvæðum, sem eru í 3. gr. N. leggur því til, að þessi liður sé felldur úr frv.

Í 6. gr. eru sérstök og víðtæk ákvæði snertandi eignarrétt einstaklinga. N. lítur svo á, að hér sé á ferðinni breyt., sem sé að sumu leyti mjög hættuleg. Þess vegna leggur hún til, að 6. gr. verði felld úr frv. N. hefur átt viðtal við hv. flm. frv., og viðurkennir hann, að þetta geti valdið stórkostlegum deilum, þó að það verði samþ. á Alþ. Einnig hefur n. leitað upplýsinga hjá bæjarstjóra Siglufjarðar. Hafa þeir báðir sameiginlega lýst yfir, að þeir óski eftir því, að ef þessar tvær gr. kæmu til með að valda ágreiningi á Alþingi, þá verði þeim heldur sleppt úr frv., til þess að unnt sé að fá frv. samþ. í heild. Siglufirði er bráðnauðsynlegt að fá frv. samþ., m. a. vegna þess, að það þarf að fá breytt 1. gr. um fjárframlög og 2. gr. um ábyrgð. Hins vegar eru möguleikar fyrir Siglufjörð að bera fram breyt. á næstu þingum um þau atriði, sem nú yrðu felld burt, og er þá undir þeim þingum komið, hvernig fer um það mál. Það er því samkomulag við þessa aðila, eins og ég hef tekið fram, að þetta sé fellt burt og frv. flýtt gegnum þessa d. eins og hægt er, og er þess að vænta, að það fái þá einnig greiðan gang gegnum Nd., svo að það öðlist gildi á þessu ári.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í efni 6. gr. Það er farið inn á það nýmæli, að hafnarstjórn geti fyrirskipað öðrum aðilum að byggja vissan hluta hafnarmannvirkisins, og þegar hann er byggður, geti hafnarstjórn haldið áfram að fylla upp landið á kostnað einstaklinganna. Sjútvn. telur, að þetta sé a. m. k. ekki nægilega vel undir búið, til að það verði samþ. á þessu þingi.

En úr því að n. fór að gera breyt. á frv. á annað borð, þá þótti henni rétt að gera á því einnig smávægilegar breyt. til samræmis við það, sem gilt hefur í öðrum hafnarl. Hefur hún því lagt til, að 11. gr. verði breytt, en það er aðeins til að færa til samræmis við það, sem stendur í öðrum hafnarl., en engin efnisbreyt., og þarf því eigi að fjölyrða um það.

Loks ber n. fram till. um, að nýrri gr. verði bætt aftan við frv., um, að l. skuli þegar öðlast gildi, en það var ekki í frv. upphaflega og ekki eins og það kom frá Nd.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar. Ég vil óska þess, að d. samþ. frv. með þeim breyt., sem n. leggur til, og málinu verði svo flýtt áfram, því að Siglufirði er mikil nauðsyn að fá frv. afgr. sem l. frá þessu þingi.