14.10.1943
Neðri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

97. mál, flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir flugvélar

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. fluttum við flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, till. til þál. um flugmál Íslendinga. Meginkjarni þeirrar þáltill. var sá, að skorað var á ríkisstj. að láta fram fara í samráði við Flugfélag Íslands rækilega athugun á flugvallastæðum á landinu, enn fremur, að hafinn yrði undirbúningur að því að taka flugið inn í heildarkerfi samgangnanna og komið yrði upp ákveðnu kerfi flugvalla og flugskýla í landinu. Þessi þáltill. var einróma samþ. á Alþ., en síðan hefur ekkert verið gert í þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstj. Hins vegar hefur okkur flm. frv. fundizt rétt að halda áfram á þeirri braut, sem hæstv. Alþ. markaði með samþ. fyrrgreindrar till., og því höfum við flutt þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Með þessu frv. er fyrst og fremst lagt til, að flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir verði gerð á allmörgum stöðum á landinu. Þeir staðir, sem greindir eru í 1. gr. frv., þar sem lagt er til, að flugvellir skuli koma, eru teknir upp í þessa gr. í samráði við formann og framkvstj. Flugfélags Íslands, sem framkvæmt hafa allvíðtæka rannsókn á þessu máli af sjálfsdáðum. Um allmarga þessara staða er það að segja, að þegar er tekið að nota þá sem flugvelli. En allur viðbúnaður þar er svo ófullkominn, að ekki verður við það unað til lengdar. Okkur flm. er það að vísu ljóst, að til þess að flugvellir verði gerðir, þarf töluvert ýtarlegri rannsókn að fara fram á því en fyrir liggur, á hvaða stöðum skuli byggja flugvelli hér á landi, enda er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að ákveðnum skilyrðum þurfi að fullnægja, áður en Alþ. veitir fé til þess að byggja slík mannvirki á hinum einstöku stöðum, sem þarf, til þess að flugvélar geti lent þar.

Í 2. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, að flugskýli fyrir sjóflugvélar og dráttarbrautir skuli vera á ákveðnum stöðum. Um þá staði er sama að segja og um hina staðina, sem 1. gr. er um, að þeir eru settir í frv. í samráði við þá menn, sem fyrr voru greindir og bezt skyn hafa á þörfum í flugmálum hér á landi.

Nú er það hins vegar svo, að samkv. 1. gr. frv. eru nokkur héruð tekin upp í þá gr., þar sem til er tekið, að flugvellir skuli byggðir, en ekki hefur verið unnt að ákveða flugvallastæðið nákvæmlega í frv. og hins vegar gert ráð fyrir því, að áður en komi til fjárveitinga til slíkra framkvæmda, þá skuli ýtarleg rannsókn fara fram í þessum efnum. Og því hugðum við flm., að ekki kæmi að sök, þó að ekki væri í þeirri gr. nánar til tekið um flugvallastæðin en þar er gert. Og sama gildir um staðina, sem í 2. gr. getur viðkomandi flugvélaskýlum og dráttarbrautum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þessa staði, sem í frv. getur, og val þeirra. Það verður hlutverk framtíðarinnar að rannsaka möguleikana nánar í þessum efnum. En við flm. höfum með flutningi þessa frv. viljað fyrst og fremst leggja hornstein að því, sem síðar verður, og hyggjum hins vegar, að sú bráðabirgðarannsókn liggi fyrir í þessum efnum, sem sanni, að tímabært sé að hefjast handa um að setja löggjöf um þessi efni.

Þá er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., að hafizt verði handa um að koma upp öryggistækjum fyrir flugsamgöngur landsmanna, þ. e. a. s. þráðlausum sendi- og móttökutækjum, sem flugvélar geti notað til öryggis á ferðum sínum. En eins og málum er háttað í þessum efnum, munu engar stöðvar vera fyrir hendi hér, sem séu beinlínis til aðstoðar fyrir flugvélar sérstaklega. Sérfræðingar í þessum efnum telja, að grundvallaratriði flugsamgangna sé, að slík tæki séu fyrir hendi. Þess vegna höfum við tekið ákvæði um þetta inn í frv. okkar. Og reynslan hefur sannað það hér hjá okkur, sem höfum þær ófullkomnu aðstæður, sem flugsamgöngur okkar búa við, að til þess beri brýna nauðsyn, að þessum tiltölulega ódýru tækjum verði upp komið á allmörgum stöðum á landinu.

Ég kem þá að einu meginatriði þessa frv., sem er það, að með því er lagt til, að ríkissj. kosti að öllu leyti mannvirkjagerð þá, sem þar um ræðir. Með því er farið inn á nýja braut í þessum efnum hér hjá okkur. Þeir flugvellir, sem hafa verið gerðir til þessa í þessu landi af íslenzkum aðilum, hafa í raun réttri verið réttlausir í þessum efnum, þ. e. a. s. þeir, sem fyrir gerð þeirra hafa staðið, hafa ekki átt heimtingu á sjálfsögðu framlagi úr ríkissjóði til þeirra. Það er hins vegar vitað, að hér er oft um svo dýr mannvirki að ræða, að sjálfsagt er og eðlilegt, að ríkissjóður beri raunverulegan hluta kostnaðar við þau. Hins vegar er það einnig vitað, að á flugvelli og önnur mannvirki, sem nauðsynleg eru í sambandi við flugsamgöngur, ber beinlínis að líta svipuðum augum og þau mannvirki, sem nauðsynleg eru til þess, að greiðar og góðar samgöngur séu milli allra landshluta þessa lands. Þess vegna hafa forustumenn flugmálanna álitið rétt og tímabært, að sama „prinsip“ sé tekið upp um þátttöku ríkissjóðs í þessari mannvirkjagerð eins og um það, að ríkissjóður ber allan kostnað af lagningu þjóðvega. Það er skoðun okkar flm. frv., að flugið eigi eftir að verða mjög mikilsverður þáttur í samgöngumálum okkar Íslendinga. Og öll reynsla, ekki aðeins okkar þjóðar, heldur fyrst og fremst margra annarra þjóða, sannar, að flugsamgöngur eiga sér mjög mikla framtíð. Þess vegna hefur okkur flm. fundizt eðlilegt og sjálfsagt, að ríkissjóður tæki að sér að annast þá fjárhagslegu hlið þessa máls, þ. e. a. s. bæri allan kostnað af byggingu flugvalla og annarra mannvirkja, sem þarf, til þess að greiðum flugsamgöngum verði á komið við alla landshluta á sem skemmstum tíma og í samræmi við fjárhagslegt bolmagn þjóðarinnar á hverjum tíma. Það er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður verði skyldugur til þess að leggja þetta fé fram allt í senn, heldur er gert ráð fyrir, að hér gildi sama regla og þegar um þjóðvegi er að ræða, til þeirra verði veitt fé eftir því, sem fjárveitingarvaldið sér ríkissjóði fært á hverjum tíma, þannig að þetta árið verði flugvöllur eða flugskýli eða dráttarbraut byggt á þessum stað og svo næsta ár annars staðar o. s. frv., eftir því sem fjárhagslegt bolmagn ríkissjóðs er. Það hlýtur einnig þannig að verða um gerð flugvalla og flugvélaskýla og dráttarbrauta, að þessi mannvirki verði ekki öll til í einu, alveg eins og þjóðvegir okkar lands hafa fyrst verið fáir og síðan greinzt til fleiri landshluta, er fleiri og fleiri byggðum og bæjum var veitt samband við akvegakerfi landsins. Þannig hlýtur þetta einnig að verða með flugvellina og önnur þau mannvirki, sem í frv. greinir. En til tryggingar því, að ekki verði rasað fyrir ráð fram í þessum efnum og ríkissjóði þannig bundnir baggar með ófyrirsjáanlegum kostnaði, eru tekin hér upp í 5. gr. frv. skilyrði þau, sem gerð eru fyrir því, að fé verði á hverjum tíma veitt í fjárl. til slíkrar mannvirkjagerðar, og er þar fyrst og fremst það gert að skilyrði, að nákvæm rannsókn um slíka mannvirkjagerð hafi farið fram á hverjum stað, og í öðru lagi, að kostnaðaráætlun liggi fyrir um framkvæmd verksins. Með því að setja þessi skilyrði og mörg önnur fyllri skilyrði, sem atv.- og samgmrn. er falið að setja með reglugerð samkvæmt þessari gr., er trygging fengin fyrir því, að hér sé með allri forsjá farið af stað.

Og kem ég þá að því, að samkvæmt frv. er yfirstjórn allra flugmálanna sett undir atv.- og samgmrn. og vegamálastjóra í samráði við flugfélag Íslands. Okkur flm. þykir það eðlilegur hlutur, að atv.- og samgmrn. í samráði við vegamálastjóra, sem hefur stjórn allra vegaframkvæmda í landinu undir sinni umsjón, hafi einnig með framkvæmdir og yfirumsjón slíkrar mannvirkjagerðar að gera, sem um er að ræða í þessu frv., sem fyrst og fremst krefst verklegrar kunnáttu og þekkingar. Okkur fannst eðlilegt, að þessum aðilum væri falin yfirstjórn þessara mála í samráði við þá menn, sem hafa haft forustu í þessum efnum á þeim stutta tíma, sem flugsamgöngur hafa verið tíðkaðar í þessu landi. Og það er ekki of djúpt tekið í árinni, þótt sagt sé, að þegar hafizt er handa um veruleg átök í flugmálum landsins, þá sé rétt og skylt að hafa samráð við þá menn, sem hafa unnið mikið og heillavænlegt starf á þessu sviði, því að vissulega hefur Flugfélag Íslands og ýmsir í sambandi við það unnið hér heilladrjúgt starf, sem þjóðinni ber að þakka og meta, því að brautryðjendastarf er oft erfitt, og hefur það að sjálfsögðu einnig verið það í þessu efni eins og mörgum öðrum efnum.

Ég tel nú ekki ástæðu til að fara að skýra fleiri einstakar greinar þessa frv. Þau ákvæði, sem tekin eru upp í 7.–11. gr. frv., eru hliðstæð ákvæðum vegal. um þau efni, sem þar greinir, þ. e. a. s. um skyldur landeigenda til þess að láta af hendi land sitt og um bætur fyrir jarðrask og landnám o. fl., sem lýtur að þessum framkvæmdum. Öll rök hníga til þess, að slík hin sömu ákvæði gildi í sambandi við þessi mannvirki, sem í frv. greinir, eins og þegar um lagningu þjóðvega er að ræða.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að það er tilgangur okkar flm. með flutningi þessa frv. að hraða því, að Íslendingar geti tekið flugið í þjónustu sína og notið þeirra miklu samgöngubóta, sem að því er. Það er áreiðanlegur hlutur, að áður en þessi mál eru komin í fullkomið horf hér heima hjá okkur Íslendingum, sem þau þurfa að komast í og munu komast í, þarf mikill undirbúningur og mikið starf að fara fram. Og það er rétt að hefjast handa heldur fyrr en seinna um þann undirbúning. Við flm. þykjumst hafa leitt rök að því, að nægilegur undirbúningur sé þegar farinn fram, til þess að hornsteinninn verði lagður í þessum málum. En okkur er ljóst, að ýtarlegri rannsóknir þurfa að fara fram á mörgum stöðum á landinu, til þess að hægt sé að snúa sér að því með fullu öryggi og festu að gera flugvelli og önnur mannvirki, sem upp þarf að koma til þess að skapa greiðar flugsamgöngur og öruggar í landinu. En það. er trú okkar, að með þessum bættu samgöngum sé þjóðin ekki að reisa sér hurðarás um öxl fjárhagslega, heldur muni þessar samgöngur skapa þjóðinni margháttuð þægindi. — Það er sem sé takmark okkar, að í tiltölulega náinni framtíð skapist öruggar flugsamgöngur innan lands milli allra landshluta.

Annað atriði flugmála okkar eru millilandaflugferðir, en inn á þær brautir höfum við ekki farið í þessu frv., enda má segja, að þegar þjóðin hefur komið flugmálum sínum innan lands í sæmilegt horf, hafi hún skapað sér möguleika til þess að hefja millilandaflug.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgöngumálanefndar.