04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2485)

52. mál, samgöngubætur á eyðisöndum Skaftafellssýslu

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 64 till. til þál. um samgöngubætur á eyðisöndum Skaftafellssýslu.

Það blandast engum hugur um, að höfuðskilyrði fyrir velgengni hinna ýmsu héraða og sveita landsins er greiðar samgöngur. Á síðustu árum höfum við sótt mjög fram á þessu sviði sem öðrum. Miklu fé hefur verið varið til vegagerða og annarra samgöngubóta, eins og raun ber vitni um.

Nú fleygir tækninni svo mjög fram um ýmislegt, að margt, sem var talið ógerlegt að yfirstíga, er orðið auðvelt viðfangs.

Það er kunnugt, að setuliðið notar hér áður óþekkt, vélknúið tæki. Gefur það vonir um, að hægt sé að ráða bót á hinum mestu samgönguörðugleikum, sem íbúar landsins og þó sérstaklega íbúar héraðsins, sem hér um ræðir, hafa átt við að stríða, með því að nota þessi tæki. Það er kunnugt, að setuliðsmenn á Hornafirði fóru yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi á þennan hátt nú nýlega.

Þegar sézt, að hægt er að ráða bót á þessum samgönguörðugleikum, má það ekki undir höfuð leggjast að gera það, sem hægt er, til hagsbóta í þessu efni, bæði fyrir héraðið og landið í heild.

Það er ekki hægt fyrir íbúa héraðanna einna að ráðast í þetta vegna kostnaðarins, en sjálfsagt virðist, að ríkið taki að sér að annast það. Það virðist sjálfsagt, að Alþ. hafi opin augu fyrir þessu efni sem öðru. Það hefur og skipað n. til að athuga, hvað setuliðið getur af höndum látið af tækjum, sem nothæf kynnu að reynast til samgöngubóta hér á landi, þá er það hverfur héðan. Ef til vill gæti það, sem hér er farið fram á um val og útvegun tækja, fallið undir starfssvið þeirrar nefndar.

Mér virðist hér vera um svo sjálfsagt mál að ræða, að ekki sé ástæða til að vísa því til n. En hins vegar mun ég ekki vera á móti því, ef till. kemur fram um n.

Prentvilla hefur slæðzt inn í till., en hún er ekki meinleg. Í 3. línu að ofan stendur: á hvern hátt sé hagkvæmt og bæta, en á að vera: hagkvæmt að bæta.