01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

128. mál, iðnskólar

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um iðnskóla er nú borið fram í 3. sinn hér í d. Fyrst var það í lok aðalþingsins 1941, og var tilgangurinn, að mönnum gæfist kostur á að kynna sér málið fyrir næsta þing. Á aðalþingi 1942 var málið athugað af iðnn. og frv. breytt nokkuð og síðan borið fram, er langt var liðið á þing. Skorti þá tíma til afgreiðslu þess, fremur en það mætti nokkurri andstöðu. Samkv. beiðni frá landssambandi iðnaðarmanna leggur iðnn. frv. enn fram, óbreytt frá því sem það var samþ. á síðasta iðnþingi. Það hefur verið athugað á tveim iðnþingum í röð og verið samþ. þar jafnt af sveinum sem meisturum. Þarna er ætlazt til, að lagður sé fastur grundvöllur fyrir iðnskólana í landinu, fjallað um hlutverk þeirra og fyrirkomulag og hverjir beri kostnað af stofnun þeirra og rekstri. Ákveðið er, að ríkið beri 2/5 stofnkostnaðar, bæjar- eða sveitarfélög, aðra 2/5 og iðnaðarmenn 1/5. Um þetta hafa verið nokkuð skiptar skoðanir og ýmsir talið eðlilegast, að ríkið bæri kostnaðinn eitt, eins og það ber allan kostnað af bændaskólum, sjómannaskóla o. s. frv. En iðnaðarmenn vilja hafa þetta svona, og sízt ætti það að torvelda samþ. þessa frv., að vonum minni kostnaður er ætlaður ríkissjóði. Gert er ráð fyrir, að ríki og bær eða sveitarfélag beri rekstrarkostnað nokkurn veginn að hálfu hvort.

Frv. er að öðru leyti rammi um það, hvað kennt skuli, hverjir kennslukraftar skuli vera o. s. frv. Í skólanefnd skulu vera þrír menn kosnir af iðnaðarmönnum á staðnum, einn tilnefndur af ríkisstj. og einn af bæjar- eða sveitarstjórn, alls fimm menn í n. Rætt er um undirbúningsskóla fyrir þá, sem ætla sér að læra iðnaðarstörf, og stendur sá skóli nærri ár. Þá ræðir um kvöldskólana, sem nú er haldið uppi, og verða það þó a. n. l. dagskólar, þegar eins stendur á og nú í Rvík, að 560 nemendur verða að komast fyrir í sjö litlum og óvistlegum kennslustofum, og liggur í augum uppi, að ekki er hægt að kenna þeim þar öllum að kvöldinu. Það er mál, sem hlýtur mjög bráðlega að koma til kasta ríkis og bæjarstjórnar, ef þetta verður samþ., að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Þá eru þau nýmæli frá síðasta iðnþingi, að halda skuli námskeið hér í Rvík í þeim námsgreinum, sem skólar úti um land eiga erfitt með að útvega sérkennara í og fyrir iðnnema, sem stunda nám sitt á þeim stöðum, þar sem engir iðnskólar eru. Einnig er gert ráð fyrir sendikennurum í sérgreinum. Þetta er nauðsynlegt og miklu heppilegra en setja hvarvetna á stofn fullkomna iðnskóla. Kostnaður við námskeiðin greiðist úr ríkissjóði.

Þá er í fjórða kafla gert ráð fyrir skóla fyrir sveina og er algert nýmæli, en um það hefur mikið verið rætt, að menn yrðu að ljúka nokkru skólanámi til þess að geta fengið meistararéttindi. Engu er slegið föstu um, hvenær það komist í framkvæmd, nema það verður eins fljótt og ástæður leyfa. Það, sem mest kallar að, er að koma kvöldskólunum í frambúðarhorf. Þeir eru enn mjög í lausu lofti. Í l. er ekkert um þá nema það, sem er í iðnnámsl. og hrekkur það skammt.

Undirbúningur frv. er orðinn rækilegur, eins og ég hef lýst, og ætti það ekki að þurfa til n. Ágreiningur gæti helzt orðið um það, hvort ekki sé of skammt gengið um framlög af hálfu ríkisins til bygginga fyrir skólana og hvort eigi væri rétt, að ríkið bæri eitt allan veg og vanda af rekstri þeirra. En úr því að iðnaðarmenn treysta sér til að bera 1/5 kostnaðar og vilja, að sveitir og bæir beri jafnt og ríkissjóður, virðist mega hlíta því, og ætti þetta að flýta samþ. frv., en ekki tefja. Ég óska, að málinu verði vísað til 2. umr.