06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

30. mál, einkasala á tóbaki

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það virðist vera tilætlunin með þessu frv. að afla ríkissjóði tekna umfram það, sem gert er ráð fyrir samkv. gildandi löggjöf. — Ég veitti því athygli, að hæstv. fjmrh. svaraði lítt eða ekki fyrirspurn, sem fram kom í Nd., um það, vegna hvers ríkisstj. leitaði þessarar heimildar eða til hvers hún ætlaði að nota fé það, sem með henni fengist, en ég tel óefað, að ríkisstj. muni hafa sínar ástæður til að veita ekki slík svör að svo stöddu.

Ég vil þó spyrja hæstv. ráðh., hvort hann muni ekki vilja skýra þ. eða n. innan þingsins frá þessu, áður en tekin er ákvörðun um ráðstöfun þessa tekjuauka. Mér finnst eðlilegt, að svo verði gert. Ég óska því eftir svari frá hæstv. ráðh. við því, hvort hann vill tjá hv. d., á hvern hátt ríkisstj. hugsar sér að nota tekjuaukann, ef heimildin verður samþ.