27.10.1943
Sameinað þing: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2504)

52. mál, samgöngubætur á eyðisöndum Skaftafellssýslu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Allshn., sem haft hefur mál þetta til meðferðar, er sammála um að mæla með því, að það verði samþ. óbreytt, því að eins og sjá má á nál. 246, eru þær brtt., sem gerðar eru þar, aðeins að litlu leyti efnisbreytingar.

N. er sammála um, að sjálfsagt sé að reyna þau nýju tæki, er hugsazt gæti, að gætu leyst þá samgönguþörf, sem þarna er um að ræða. En óumflýjanlegt er að ætla til þess fé. Það er þýðingarlaust, að Alþ. samþykki till., sem hafa í för með sér fjárútlát, en heimila ekki fé til þeirra. Það er nauðsynlegt að fá fé í þessu skyni, hvort heldur það er ríkisstj. eða vegamálastjórnin, sem fær að láni þau flutningstæki, sem hér um ræðir. Hér kemur til greina bíll, sem ýmist fer á vatni eða á þurru landi, athugun á því, hversu hæfur hann reynist í vötnum þeim, sem torveldust eru yfirferðar austur þar. Auk þess kemur til athugunar, hvort bíllinn geti haldið áfram á milli ánna. Ég hygg, að hæpið sé, að sandurinn sé nógu þéttur nema fyrir beltabíl, og þyrfti þá annan milli ánna en yfir þær.

Líklegt er, að hægt sé að fá þessi tæki að láni hjá setuliðinu til að reyna þau. En eins og ég tók fram, hefur það kostnað í för með sér, og er nauðsynlegt, að Alþ. veiti heimild til fjárútláta í þessu skyni.

Í nál. hefur misprentazt á einum stað, og, en á að vera að. Þetta er augljóst, og bið ég þm. að athuga þessa prentvillu. Síðari breyt. er að heimila ríkisstj. fé til þess að fá gerðar tilraunir með samgöngutæki þau, sem hér koma til greina.

Það var satt, sem hv. forseti tók fram áðan, en hann átti bara að veita þessum ágalla athygli fyrr. En það er þó ekki sagt honum til hnjóðs, að hann áttaði sig ekki á þessu strax.