01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

131. mál, styrktarsjóður verkalýðsfélaga

Flm. (Þóroddur Guðmundsson) :

Herra forseti. Það hefur sýnt sig, að alþýðutryggingal. hafa komið í mjög góðar þarfir, en í sumum efnum ná þau engu að síður skammt. Það hefur m. a. verið viðurkennt af þeim bæjarfélögum, sem veitt hafa árlegan styrk þeim sjóðum, sem hér ræðir um og verkalýðsfélögin hafa komið upp á mjög mörgum stöðum. Ýmislegt getur komið fyrir menn, svo að þeir geti ekki unnið fyrir sér og sínum um stund og fái þess vegna engar bætur eftir alþýðutryggingal. Þess vegna hafa þessir styrktarsjóðir verið stofnaðir um land allt, án þess að neitt hafi verið gert til að ýta undir það af heildarsamtökum verkamanna, og þar sem verkalýðsfélög hafa ekki hrundið því í framkvæmd, hafa stundum aðrir aðilar eins og kvenfélög gert það. Það sjónarmið kom fram í n. á síðasta þingi, að þessi starfsemi ætti að falla undir alþýðutryggingar, en meðan svo er ekki orðið, er rétt, að þessi mjög svo virðingarverða viðleitni njóti viðurkenningar og stuðnings bæjar- og sveitarsjóða og ríkissjóðs. Þó að styrkur til sjóðs sé ekki hár, getur munað um hann og orðið veruleg hvöt til að koma alls staðar upp slíkri styrktarstarfsemi. Það er til marks um vinsældir styrktarsjóðanna, að víða hafa atvinnurekendur sett það af fúsum og frjálsum vilja í samninga við verkalýðsfélögin að leggja styrktarsjóðum nokkurt fé, lágar upphæðir að vísu, en nóg til að sýna, að þeir líta þetta svipuðum augum og verkamenn.

Nú hafa verið í fjárl. undanfarinna ára nokkrir styrkir til einstakra þjóða af þessu tagi, 200–1000 kr. til hvers og nokkru meira hér í Reykjavík. Við samning hverra fjárl. koma beiðnir frá ýmsum sjóðanna um styrk, og Alþ. hefur sýnt vilja sinn til að veita þar úrlausn. En ég held það sé miklu óeðlilegra að veita þannig í mörgum smáveitingum án fastrar reglu og togast kannske á um, hvort veita skuli tvö eða þrjú hundruð í þennan staðinn og fimm eða sex hundruð í hinn, heldur en skera úr um þetta með löggjöf í einu lagi. Ég óska, að málinu verði vísað til 2. umr., og ef það fer til n., þá til félmn.