04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2526)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt mörgum fleiri þm., — við erum 15 alls flm. þáltill., — að flytja þáltill. þá, sem er á þskj. 82, um rannsókn á því, hvað kosta muni að gera steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun, og einnig er lagt til í þáltill., að fram fari athugun á kostnaði við nauðsynlegar breytingar á legu vegarins og gerð á þessari leið með tilliti til flutninga að vetrarlagi.

Það mun e. t. v. mörgum hv. þm. finnast, að nokkuð mikill stórhugur liggi á bak við tillögu þessa, sem fer fram á það að leggja steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun. En vegagerðir og viðgerðir á vegum þessa leið eru mjög kostnaðarsamar með því fyrirkomulagi, sem nú er. Það er því nauðsyn á að breyta til í þessu efni. Það er líka þannig með Suðurlandsundirlendið, að það hefur þá sérstöðu að vera hafnlaust: Ein mestu framleiðsluhéruð landsins, sem eru fyrir austan fjall, eru hafnlaus og verða að nota Reykjavík sem innflutnings- og útflutningshöfn. Flutningar til og frá þessum héruðum verða að fara fram á bifreiðum langa leið eða um 100–300 km. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að þeir, sem verða að búa við þessi kjör, hugsi sér einhverjar úrbætur á þessu sviði, þar sem ekki er um annað að ræða en að fara yfir erfiðan og tiltölulega langan fjallveg til þess að komast til hafnarinnar. Og þessi leið teppist oft að vetri til, og leiðin verður þess vegna lokuð og það e. t. v. meiri hluta vetrarins.

Það hefur fyrir löngu verið rætt og ritað um að bæta úr þessum samgönguörðugleikum héraðanna fyrir austan fjall. Það var á sínum tíma talað um að leggja járnbraut yfir Hellisheiði og talið öruggt, að ef hún yrði lögð, kæmu tryggar samgöngur austur. Ef járnbraut hefði verið lögð þessa leið á þeim tíma, sem mest var talað um að gera það, þá hefði það verið gert á tiltölulega ódýran hátt. En málið strandaði á þeim tíma á því, að búizt var við því, að járnbraut mundi ekki hafa nægilega mikið að flytja, til þess að hún gæti borið sig.

Enda þótt ég telji, að það hefði verið hagur að leggja járnbrautina á þeim tíma, þegar mest var um það rætt, þá er ekki þar með sagt, að rétt væri nú að ráðast í þær framkvæmdir með þeim kostnaði, sem það hefði nú í för með sér. Bifreiðakostur er nú orðinn þannig, að ef vegir eru góðir, þá má nota þau farar- og flutningatæki, sem trygg og örugg samgöngutæki. Það er þess vegna skoðun mín, að það bezta, sem gert verður fyrir héruðin austan fjalls, sé að reyna að gera vegina góða til flutninga með bifreiðum og með því verði bezt tryggðar samgöngurnar að vetrarlagi.

Það hefur verið byrjað á því að leggja veg um Krýsuvík, og það var gert vegna þess, að sú leið var álitin snjóléttari og gæti verið þrautaleiðin, þegar heiðin er ófær. Það er þess vegna út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja, að sá vegur kæmi. Ég geri þess vegna líka ráð fyrir því, að það verði haldið áfram með þann veg, hvað sem gert verður við Hellisheiðarveginn, því að hann er kominn hálfa leiðina. En sá vegur er 35–40 km lengri en Hellisheiðarleiðin. Og þegar ekki er hægt að koma neinum vörum til þessara héraða nema frá Reykjavík, þá hygg ég, að það þyki tæplega sanngjarnt, að bændur austan fjalls leggi krók á leið sína, sem nemur 70–80 km í hverri ferð. Og ég hygg, að enginn undrist það, að bændur fyrir austan Hellisheiði hugsi sér einhverja aðra möguleika hentugri og betri en fara þann krók mikinn hluta vetrarins. Hitt væri eðlilegt, að þessi krókur væri notaður sem þrautalending, ef svo miklum snjó kyngdi niður á heiðina, að hún yrði ófær, jafnvel þó að vegarstæðinu yrði breytt og vegagerðinni breytt. Það er útilokað, að ætlazt sé til þess, að Krýsuvíkurvegurinn sé notaður sem vetrarvegur yfirleitt austur fyrir heiði. Það er útilokað, að hann geti verið notaður nema sem þrautalending, þegar heiðin er lokuð vegna snjóa.

Það hefur stundum verið talað um það, að miklar vegagerðir og mikið vegaviðhald væri á Suðurlandsundirlendinu. Og það er von. Það hefur líka verið talað um það, að mikið vegaviðhald væri á veginum yfir Hellisheiði og Svínahraun. Það er líka von, því að Suðurlandsbrautin er sá vegurinn hér á landi, sem mest umferð er um, sá vegur, sem tengir helztu framleiðsluhéruð landsins við höfuðstaðinn og er samgönguæð á milli aðalframleiðsluhéraða landsins og aðalinnflutnings- og útflutningshafnarinnar. En menn geta tekið tillit til þess, um leið og talað er um þessar miklu vegagerðir og vegaviðhald á leiðinni austur, að það hafa hvorki verið gerð nein hafnarmannvirki né neinar bryggjur á þessum svæðum. Víðs vegar annars staðar á landinu hefur mörgum hundruðum þús. og jafnvel milljónum króna verið varið til hafnargerða og bryggjugerða. En vegna Suðurlandsundirlendisins hefur ekki verið kostað til slíks. Þó verða þau héruð, sem notið hafa bryggjugerða og lendingarbóta, vitanlega líka að hafa vegi og fá þar af leiðandi fé úr ríkissjóði til vegalagninga og viðhalds vega ekki síður en hafnlausu héruðin. Strandferðastyrkir eru einnig veittir í stórum stíl til þeirra héraða, sem hafa hafnir. En slíkir styrkir koma ekki til fyrir þau svæði, þar sem um engar hafnir er að ræða. Það væri þess vegna ekki óeðlilegt, þó að eitthvað væri gert fyrir þessi hafnlausu héruð, sem kæmi eins og hliðstætt framlagi til hafnargerða og bryggjugerða. Það væri ekkert óeðlilegt þó að byrjað væri á því að leggja steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun, ef það gæti orðið trygging fyrir greiðum vetrarsamgöngum frá aðal útflutnings- og innflutningshöfninni til stærsta og blómlegasta landbúnaðarhéraðsins á landinu, þar sem eru sveitirnar austan fjalls.

Ég veit, að margir munu halda fram, að steinsteyptur vegur yrði mjög dýr og kannske svo dýr, að óframkvæmanlegt sé að ráðast í þann kostnað. Mér er það ljóst, að slíkur vegur yrði dýr í fyrstu. En viðhaldskostnaður á slíkum vegi er hverfandi lítill og jafnvel enginn, ef miðað er við þann mikla viðhaldskostnað, sem er á vegum eins og þeir eru nú lagðir. Það hagar líka sérstaklega vel til að leggja steinsteyptan veg yfir Hellisheiði og Svínahraun vegna þess, að þar er föst undirstaða. Þar er líka nóg af grjóti og sandi alveg við höndina. En þó að það sé vitanlegt, að það sé dýrt að leggja steinsteyptan veg á þessari leið, þá er þess að gæta, að þessi þáltill. er ekki þannig vaxin, að hún ákveði, að þetta skuli gert, heldur fer hún fram á rannsókn á því, hvort það muni vera tiltækilegt kostnaðarins vegna og hvort hentugt þyki að leggja veginn þannig, að hann sé á þessum stað, eða hvort ekki sé mögulegt að fá hentugra vegarstæði en þar, sem vegurinn liggur nú. Ég hef heyrt verkfræðing segja, að ef vegarstæðið væri valið þar, sem snjóléttast er á þessum slóðum, og vegurinn hækkaður upp, þá væru miklar líkur til þess, að snjór yrði ekki á veginum, heldur yrði hann upp úr mestan hluta ársins og jafnvel kannske allt árið. Og ef vegurinn yrði lagður þannig og steinsteyptur, þá mætti telja víst, að ríkissjóður mundi losna að kalla alveg við viðhaldskostnað á veginum og snjómokstur á Hellisheiði. Og hvað kostar allt vegaviðhaldið? Ég held, að það séu miklar líkur til þess, að það geti orðið fjárhagslegur sparnaður að því að leggja steinsteyptan veg ekki aðeins þarna, heldur og víðar á landinu. Við vitum, að erlendis er vegagerðin framkvæmd á þann hátt. Og hvers vegna skyldi það þá ekki líka vera hagnaður fyrir okkur, þar sem tæknin er komin á það stig, sem nú er?

Það eru 15 þm., sem standa að flutningi þessarar þáltill. Hv. þm. Reykv. töldu sjálfsagt að vera meðflm. hennar, vegna þess að þeir skilja, hve mikils virði það er fyrir Reykjavík, að samgöngur yfir Hellisheiði geti verið tryggar að vetrarlagi. Bærinn hefur oft orðið mjólkurlaus fyrir það, að heiðin hefur teppzt. Það er þess vegna ekki síður hagsmunamál bæjarbúa en bændanna austan fjalls, að þessi leið sé gerð trygg og örugg til flutninga allt árið. Og eftir því sem vegurinn yfir heiðina verður betri, eftir því verða flutningarnir öruggari á þessari leið og eftir því getur mjólkin til neytenda orðið ódýrari.

Ég tel óþarft að fara miklu fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni. Ég veit, að það á mikið fylgi hér í hæstv. Alþ. Ég vil aðeins óska þess, að þáltill. verði vísað til ríkisstj. og síðan verði þessu máli haldið vakandi. Væntanlega gerir ríkisstj. þá ráðstafanir til að láta þessa rannsókn fara fram samkvæmt því, sem tekið er fram í þáltill. Og verði niðurstöður þeirrar rannsóknar jákvæðar, þá verður vonandi eitthvað úr framkvæmdum í þessum efnum.