03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

133. mál, raforkusjóður

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram af 5 þm. og flutt eftir tilmælum mþn. í raforkumálum. Í þeirri n. hefur orðið samkomulag um að hefja fjársöfnun til raforkuframkvæmda. Það er vitað, að þær framkvæmdir, sem væntanlega verður ráðizt í á næstu árum, kosta mikið fé. Við álítum tímann heppilegan til að hefja fjársöfnun. Nú ætti að vera auðvelt að safna talsverðu fé í þessum tilgangi, en vafi leikur á, að það verði eins auðvelt síðar.

Í frv. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að taka innanlands lán handa raforkusjóði, allt að 20 milljónir króna, með útgáfu skuldabréfa, sem yrðu boðin til sölu víðsvegar um land. Þess er að vænta, að áður en langt líður, komi ákveðnar tillögur frá mþn. í raforkumálum og þá verði ákveðið, hvernig framkvæmdum ríkisins í þeim málum skuli fyrir komið.

Mikill áhugi er ríkjandi meðal almennings á því að fá rafmagn, og væntum við flm., að enginn ágreiningur verði um málið hér á Alþ. Við treystum því, að frv. nái samþykki Alþ. og að ríkisstj. noti heimildina, sem þingið væntanlega veitir, til þeirra framkvæmda, sem frv. þetta fer fram á.