06.10.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2537)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þáltill. gerði grein fyrir henni og hvað fyrir flm. hennar vakir með flutningi hennar. Og í sjálfu sér fannst mér, að ekki hefði þurft þar við að bæta, ef ekki hefði verið ráðizt á málið af hv. þm. Barð. Mér fannst þar kenna nokkuð mikils misskilnings hjá honum og vanþekkingar á þessu máli, en hann gerði þó það í sínu máli sem eitt aðalatriði, hversu mikillar fáfræði og skorts á vitsmunum gætti í afskiptum af þessu máli á undanfarandi tíð. Væri þá ekki óhætt að ætla, að þessi hv. þm. hefði ekki sýnt, einmitt það í sínum málflutningi, að hann ber ekkert skyn á þessi mál. Þannig kom það fram a. m. k. í ummælum hans.

Fyrsta atriði þessa máls er að gera leiðina yfir Hellisheiði betri og auðveldari til umferðar og þá sérstaklega með flutninga að vetrar lagi og það verði reynt að nota þá leið að vetrarlagi sem allra mest. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér á hlut að máli nær helmingur þjóðarinnar. Það er þess vegna ekki rétt að tala um, að vegurinn austur fyrir Hellisheiði sé aðeins fyrir Árnes- og Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, því að hér er um veg að ræða, sem Reykjavík, Hafnarfjörður og einnig allmikið af Gullbringusýslu þurfa nauðsynlega að hafa mikil not af. Þessi vegagerð snertir þess vegna áreiðanlega nær 60 þús. af íbúum þessa lands heldur en 50 þús. Þá er mörgum það vel kunnugt, að vegaviðhald á Hellisheiði er ákaflega mikið vegna mikillar umferðar og vegurinn oft lítt fær bílum, en ekki vegna þess, að liggi mikið í, heldur stafar það af því, að hann endist svo illa, og verður hann því afar dýr á allan hátt. Hann þarf mikla lagfæringu, slítur auk þess mikið farartækjunum og eyðir mjög miklu benzíni. Við vitum, að leiðin um Hellisheiði er bezta leiðin austur í sveitir. Hún verður alltaf farin að sumarlagi og vetrarlagi og eins lengi haust og vetur og mögulegt er vegna snjóa. Það varðar þess vegna miklu að fá þennan veg sem beztan, því að sú leið mun þá alltaf verða hin ódýrasta með betri vegi, sem þá líka yrði notaður eins lengi og unnt er vegna snjóþyngsla til allra flutninga frá héruðum austan fjalls og þangað. Og ég hygg, að ég megi segja, að það hafi vakað jafnt fyrir öllum flm. þessarar till. Þeir flutningar, sem hljóta að fara fram um þennan veg, varða almenning, og hygg ég, að það geti allir séð, ekki aðeins þeir, sem flytja þetta mál, heldur allir hv. þm., sem vit hafa á þessu máli, að vegurinn um Hellisheiði verður ódýrasti vegurinn með tilliti til allra flutninga og sá vegurinn, sem fyrst og fremst verður farinn hvaða tíma ársins, sem er, á meðan mögulegt er. Það er alveg víst, að Reykjavík og Hafnarfjörður þurfa í náinni framtíð, ef ekki alla tíð, að fá mjólk austan yfir Hellisheiði, og það er nauðsynlegt, að sá flutningur falli aldrei niður, og getur sá flutningur orðið ákaflega dýr, ef fullnægja á nauðsyn þeirrar mjólkureftirspurnar. Nú er öllum, sem til þekkja, augljóst mál, að snjóalög geta orðið það mikil, að leiðin lokist, vegurinn verði ófær. Til þess að komizt yrði í þvílíkum snjóalögum yfir Hellisheiði, yrði vegurinn að vera yfirbyggður. En ég hugsa nú, að allir yrðu sammála um, að slíkt yrði allt of kostnaðarsamt og kæmi ekki til greina í náinni framtíð, en það yrði það eina, sem dygði. Nokkuð kann að bæta úr vegurinn um Þingvöll, en engan veginn svo, að það breytist með leiðina um Hellisheiði. Það sýndi sig á síðastliðnum vetri, hvernig snjóinn lagði, því að hefðu þá ekki útlendingarnir verið með sín fullkomnu tæki, mundu samgöngur yfir fjallið hafa fallið niður um margra vikna skeið. Og að unnt var að halda uppi samgöngum svo lengi þrátt fyrir snjó, var að þakka hinum voldugu snjóplógum, sem Bandaríkjamenn ruddu veginn með. En þess verður að gæta, að snjóalög í fyrravetur voru ekki í meðallagi, en samt skipti það mörgum vikum, ég man ekki, hvað mörgum, að leiðin var ófær. Það er þá hægt að gizka á, hvernig þessi leið yrði í miklum snjóavetrum, þegar vegurinn tepptist á vetri eins og þeim í fyrra þrátt fyrir hina dýru og góðu snjóplóga. Við, sem höfum ferðazt að vetrarlagi á fjöllum uppi, vitum vel, að þessi tæki geta ekki haldið veginum opnum fyrir bíla, því að á stuttri stund getur fennt svo mikið, að snjóplógarnir hafa ekki við. Og slíkt mundi líka verða svo kostnaðarsamt, að það væri langur vegur frá því, að það borgaði sig. Í fyrra, þegar erfiðast var að komast að austan yfir Hellisheiði, varð flutningskostnaðurinn svo mikill, að mjólkurbúin fengu ekkert fyrir mjólkina, allt verð hennar fór í flutningskostnað og hefði auðvitað borgað sig miklu betur að láta alla mjólkurflutninga falla niður. Það getur nú verið, að sumum mönnum, sem um slík mál tala, standi alveg á sama um það. Því beini ég þó ekki til hv. þm. Barð., því að það snertir hann alls ekki. Til þess að geta sem bezt greitt fyrir því, að slíkar samgöngur falli ekki niður og geti orðið sem þægilegastar, er um að gera að leggja veginn þannig þar, sem mestar líkur benda til, að hann verði sem lengst fær, sem vitanlega verður sem næst sjónum. Og kemur þá fyrst til greina Krýsuvíkurleiðin, sem hv. þm. Barð. sagði, að hefði verið lögð af vitleysu og ákveðinn af þeim mönnum, sem ekkert vit hefðu á því máli. Þetta er stofulærdómur af hálfu þeirra manna, sem kunna ekki skil á þessu máli, lærdómur frá þeim mönnum, sem aldrei hafa komið út í íslenzkt veður á fjöllum uppi að vetrarlagi. Ég hef að vetrarlagi oft farið yfir Hellisheiði, og það hefur svo verið þrásinnis, að allar vörður voru í kafi í snjó á þeirri leið og lítið upp úr af símastaurum, og mundu þá snjóskaflarnir ná nokkuð hátt yfir kollinn á okkur hv. þm. Barð., — ef við færum að mæla okkur við þá. Hv. þm. Barð. minntist á leið, sem talað hefur verið mikið um, að bætt gæti úr þeim erfiðleikum, sem eru á samgöngum austur yfir Hellisheiði að vetrarlagi, um hin svo kölluðu Þrengsli. Jú, ég kannast svo sem við þessa kenningu. Þessi Þrengsli eru dálítill kafli fyrir austan Kolviðarhól og niður í Ölfus. Segjum, að þessi Þrengsli væru auð og falli bara aldrei snjór í þau, — hvað eru þau þá margir km af leiðinni austur? Ég geri ráð fyrir, að það séu svona fimm til átta km. Það er mjög einfalt mál að mæla það á kortinu. Það náttúrlega tekur engu tali, að aldrei falli þar snjór. Þetta er dalverpi, sem fyllist og verður nær slétt yfir, þegar snjóalög eru mikil. En ef Þrengslin væru auð, þyrfti þá ekki að reyna að komast upp í Þrengslin úr Reykjavík? Hvernig ætli leiðin sé frá Lögbergi upp að Kolviðarhóli? Þann veg verður að fara til þess að komast í Þrengslin. Þá er skemmst af að segja, að þegar snjóalög eru mikil, þá eru bráðófærir lengri eða skemmri kaflar leiðarinnar. Og þegar svo hefur fallið mikill snjór, hefur verið erfitt að komast upp að Árbæ, og venjulegir bílar hafa ekki komizt lengra, svo hefur orðið að halda uppi flutningum á snjóbílum og sleðum. En slíkur flutningur er svo dýr og erfiður í framkvæmd, að það er ekki hægt að flytja nema mjög lítinn hluta þannig af því, sem þarf að flytja á milli. Nú dettur mér ekki í hug að staðhæfa, að Krýsuvíkurleiðin kunni undir öllum kringumstæðum að bæta úr þessum samgönguerfiðleikum, meira að segja get ég búizt við, að nokkur kafli af þessari leið kunni að verða torveldur, en hann er nokkuð fyrir sunnan Hafnarfjörð. En langmestur hluti hans mun verða fær miklu lengur og lengur en jafnvel vegurinn upp að Kolviðarhóli, þótt svo Þrengslin væru farin. Þá er önnur leið, sem er ekki alveg tilbúin og er að vísu nokkru lengri, það er Grindavíkurleiðin. Það er kostur hennar, að fara má hana í sambandi við hina fyrirhuguðu Krýsuvíkurleið, og þá verður sú leið svo lengi fær að vetrarlagi sem hægt verður að ferðast um láglendið austan fjalls og láglendið austan heiðar. Við þessa leið vinnst það, að við höfum miklu lengur færð milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins en með hverri annarri leið, sem farin er. En þótt svona sé háttað um þetta atriði, á þessi till. engu að síður fullkominn rétt á sér, og flutningar um þessa leið verða ódýrari en með öðrum leiðum, því að vegurinn er þarna betri og þessi leið mun ætíð verða notuð til flutninga austur yfir heiði, á meðan fært er vegna snjóa.

Mér er ákaflega ókært að fara út í nokkurn samanburð á því, hvað einstök héruð hafa fengið af fjárveitingum í þessum efnum. Ég hef gjarnan viljað greiða fyrir því, að önnur héruð fengju sínum málefnum komið fyrir, og reynt að greiða fyrir því, eftir því sem mér hefur verið unnt. Og ég veit ekki, hvort ég hef tekið minna nærri mér, þegar ég hef neyðzt til þess af fjárhagsástæðum að vera á móti framlagi til héraða til vegagerða, heldur en hv. þm. Barð., þegar hann hefur greitt atkv. gegn einhverju máli. Ég segi þetta ekki af því, að hv. þm. sé óljúft að styðja að framförum annars staðar en í sínu kjördæmi, en ég tek þetta fram út af því, sem hann sagði, að fé til vegagerða hefði ekki verið réttilega skipt á milli héraða. Nú kann það vel að vera, að við hv. þm. Barð. (GJ) getum báðir bent á það, að ekki hafi verið bætt úr nauðsyn allra landsmanna eins og bezt verður á kosið. En þegar um það er að ræða að bæta úr þeirri nauðsyn, verður að reyna að bæta úr henni þar, sem hún er brýnust og snertir sem flesta þegna þjóðfélagsins. Ég get mjög vel skilið, að hv. þm. Barð. (GJ) hafi áhuga á að bæta úr þörfum kjósenda sinna og það er virðingar vert og mjög vel gert. En hann ætti að láta vera að vega að öðrum og því, sem gert er fyrir aðra landsmenn og aðra landshluta. Og þótt svo sé ástatt um kauptún í Barðastrandarsýslu, sem mun vera Patreksfjörður, að það hafi allt of litla mjólk og bæta hefði mátt úr þeirri þörf með bættum vegum, þá er enginn bættari þó að staðið sé á móti umbótum hjá öðrum og aðrir líði. Ég veit, að þegar hv. þm. Barð. athugar þetta, sér hann, að það hæfir ekki að halda slíku fram. Hitt er annað mál, ef þeim er sýnd einhver sérstök ósanngirni og engin viðleitni höfð í frammi til þess að bæta úr þörf hinna afskekktari staða. Hv. þm. sagði, að miklum fjármunum hefði verið veitt til þessa vegar undanfarið, og vildi halda því fram, að hærri upphæðir hefðu verið veittar þar en nokkurs staðar annars staðar. Ég ætla, að þetta sé ekki rétt, og hygg, að það muni svo litlu, að áhöld muni vera um fjárveitingu til Krýsuvíkurvegar og annarra vega á landinu. Vissulega væri það ekki svo stórkostlegt, þótt það væri eins og hv. þm. segir, og því síður, ef það er svo í framkvæmdinni, að ekki sé unnt að nota féð. Það er þá betra, að það sé til, ef þeir tímar koma, að unnt sé að nota það. En fyrir árið 1932, ætla ég, að féð hafi ekki verið tekið út, enn sem komið er. Ég veit, að Alþingi verður fúst til að gera leiðréttingu á þessu, því það nær engri átt um jafnmikið nauðsynjamál og vegagerð er og snertir alla þjóðina, að sú fjárveiting verði látin falla niður og sé ekki til staðar, þegar unnt verður að hefja verkið af kappi, svo að þótt svona hafi tekizt til, vil ég ekki ætla, að það verði ekki leiðrétt. Og þó að því sé þannig farið um þessar framkvæmdir, að þær hafi legið niðri þessi tvö til þrjú síðustu árin, þá hefur ekki verið við öðru að búast, þar sem vinnuaflið hefur verið of bundið til þess að anna framleiðslu landsmanna, sem þjóðin þó verður að lifa á. Ég veit ekki um hugarfar sumra nýmóðins manna, sem telja annað betur henta en að þjóðin sjái sjálfri sér fyrir bjargræði, en ég vil ætla, að meiri hl. Alþingis sé svo sinnaður, að hann vilji, að þjóðin reyni sem allra mest að sjá sér fyrir bjargræði til þess að lifa af.

Ég hefði alveg getað leitt þessar umr. hjá mér, ef ekki hefði verið farið að draga þessa vegagerð, sem þarna er í smíðum, inn í á þann hátt, sem gert var. En skoðun mín er sú, að þeir menn hafi betur vit á þessu, sem hafa kynni af því, hvernig ástatt er um samgöngur austur yfir Hellisheiði eftir þeim vegum, sem nú eru til. Ég legg meira upp úr því en ummælum þeirra manna, sem þá, þegar verst er að ferðast, þegar veðrátta er hörðust og ófærðin mest, sitja í mjúkum stólum inni í stofu, þótt það kunni að vera, að þeir hafi einhverja bóklega þekkingu, sem virðist, — án þess að nánar sé út í þá sálma farið, — vera ósköp miklum takmörkunum háð.

Ég vona, að Alþ. taki þessari till. vel, og það gleður mig mjög, að þm. þeirra héraða, sem málið snertir svo mjög, hafa bundizt samtökum um að flytja þetta hér inn í þingið til þess að fá ráðna bót á þessum samgöngum. Og ég vil einmitt vona, að það sé merki þess, að þm. þessara héraða haldi hópinn um allar þær nauðsynlegu endurbætur, sem gera þarf á samgöngum milli þessara staða: Reykjavíkur, byggðanna suður með sjó og héraðanna austan Hellisheiðar, og að sýnd verði sú viðleitni og forsjá, að samgöngur þurfi ekki að falla niður á þessari leið, en það verði reynt að leggja veginn þar, sem samgöngum milli þessara héraða verður haldið uppi, eftir því sem frekast er unnt. Lengra verður ekki komizt. Það getur enginn staðhæft, þó að vegurinn verði lagður alveg með sjónum héðan og austur fyrir fjall, að hann verði alltaf fær að vetrinum, því að svo er ástatt, að jafnvel á láglendinu geta snjóalögin orðið það mikil, að það sé meira og minna ófært af þeim ástæðum. En það verður því auðveldara að halda uppi samgöngum sem meira er gert til þess að hafa vegina sem bezta.