06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

30. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Ég get sagt eins og aðrir þm., sem talað hafa, að hér er ekki sagt mjög mikið eftir orðanna hljóðan. Úr framsöguræðu hæstv. ráðh. var einnig mjög lítið að fá af upplýsingum um málið. Ég hlustaði ekki á umr. um það í Nd., en mér skildist á þeim, sem þar hlýddu, að ekki hefði komið margt til skýringar hjá þeim, sem töluðu.

Þessi hækkun er náttúrlega ákaflega rífleg, frá 50 og upp í 150 af hundraði. Ég veit ekki, hvort heimildin fyrir 50% álagningu er notuð til fulls, hygg það sé ekki á öllum tegundum.

En það er auðséð, að í þessu frv. er ákaflega víðtæk heimild, sem felur í sér stórfé í ríkissj., ef hún er notuð út í æsar. Það fyrsta óvissa er það, að hér er aðeins heimild, í öðru lagi hvað mikið fé er um að ræða, og í þriðja lagi, hver tilgangurinn er með fjáröfluninni. Er það fjárskortur? Eða ný verkefni? Og hver eru þá þessi verkefni? Því er ómögulegt að neita, að þetta er ákaflega mikið á huldu. Ég vil hins vegar sem einn í fjhn. segja út af orðum hv. 1. þm. Eyf., að það er hefndargjöf að vera að kasta málinu í n., sem hefur engan tíma til að rannsaka það. (BSt: Ég stakk ekki upp á því.) Ja, að n. ætti að segja, hvernig henni litist á það. En það er ómögulegt með mál, sem engar upplýsingar liggja fyrir um. Ég segi það sem mína skoðun almennt, að það er alveg eðlilegt, að ríkissj. sé aflað yfirleitt tekna með tollum og álagningu á munaðarvöru eins og þessari. Hversu mikil nauðsynjavara sem tóbakið kann að verða þeim, sem fara að nota það, er það þó áreiðanlega ein af þeim vörutegundum, sem menn geta nokkuð stillt í hóf kaupum á. Enda er alls staðar viðurkennt, að þessi vara er mjög svo til þess fallin að taka af tekjur í ríkissj. Og úr því að leggja á aukin gjöld á þessa vöru, þá er eðlilegt að því sé hraðað, af ástæðum, sem hver maður skilur. Tekjuþörf ríkisins er sjálfsagt mikil, og við vitum, að mörg eru verkefnin. En mér finnst megingalli á, að ekki hafa fengizt um það alveg skýlausar yfirlýsingar frá hæstv. ráðh., — ef þær hafa ekki komið fram í hinni d.; — að það verði að sjálfsögðu á valdi þingsins að ráðstafa þessum tekjum. Það finnst mér vera meginatriðið. Ég sé ekkert athugavert við, að málið gangi þegar til 2. umr., en áskil mér rétt til að hafa hönd í bagga með afgreiðslu málsins, ef ekki fæst yfirlýsing alveg skýlaus. Þetta frv. er að vísu ekkert annað en tekjuöflunarfrv., en felur ekkert í sér um ráðstöfun teknanna. En ég vildi þó taka undir áskorun hv. 5. þm. Reykv. um það, að hæstv. ráðherra lýsti yfir, að það mundi koma til kasta Alþ. að ráðstafa fénu, sem aflast á þennan hátt. Það hefði kannske ekki verið ástæða til þessa, ef hv. 3. landsk. hefði ekki verið með nokkurn undanslátt, þar sem hann virtist álíta, að stj. gæti talað við einhverja n. í þinginu um það, hvernig eigi að ráðstafa þessu fé. Ég tek undir þær raddir, að það er Alþ. sjálft, sem hefur ráðstöfunarréttinn á þessu fé.