29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2559)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég gat ekki orðið sammála a. m. k. nokkrum af hinum hv. nm. í fjvn. um það að leggja til, að þáltill. yrði samþ. óbreytt, og til þess bar ýmsar ástæður. Ég hef nú að nokkru leyti tekið það fram í nál. mínu á þskj. 209, sem til þess bar, og skal ég ekki eyða að því mörgum fleiri orðum. En fyrsta ástæðan til þess, að ég gat ekki lagt til, að þáltill. yrði samþ. óbreytt, er sú, að ég vil láta rannsaka alla leiðina milli Ölfusár og Reykjavíkur, en ekki bara part af henni. Í öðru lagi er sú ástæða fyrir þessu, að ég hef enga trú á, að það verði frekar nú en áður, að þetta mál leysist, nema saman séu bornar allar þær till., sem fram hafa komið til þess að fullnægja flutningaþörfinni milli þessara staða. Og út frá þeim samanburði er fyrst hægt að mynda sér skoðun um, hvaða leið mundi verða bezt til þess. Mér dettur ekki í hug að neita því né játa, að bezta leiðin til þess að leysa þetta mál sé að hafa steinsteyptan veg þarna, en þó eru sumir, sem trúa á aðrar lausnir og breyta ekki þeirri trú sinni, nema þeir fái að sjá og þreifa á, og það geta þeir ekki gert, nema þeir fái reglulegan samanburð á þeim lausnum málsins, sem hugsaðar hafa verið. Þetta mál liggur þá líka þannig fyrir, að þær leiðir, sem um hefur verið rætt til þess að fullnægja flutningaþörfinni, bæði að því, er snertir mismunandi leiðir fyrir vegarlagningu, og mismunandi farartæki, hafa verið rannsakaðar. Snjódýpt hefur verið rannsökuð o. fl. í sambandi við leiðirnar, sem hugsanlegt væri að leggja veginn um, þannig að nú telur vegamálastjóri, að ekki sé annað eftir af þessari rannsókn en innistörf við samanburð á leiðum, sem vel getur verið, að taki tvo menn einn vetur, til þess að fá þennan samanburð. Þennan samanburð vil ég fá og álít hann fyrsta grundvöllinn, sem þurfi að fá, til þess að hægt sé raunverulega með rökum að ákveða, hvaða leið á hér að fara, hvort sem það svo verður sú leið að leggja steinsteyptan veg eða hvað, — því að við verðum að horfa á þann sannleika, að þarna fara um 300 bílar daglega um þessa leið og flytja kannske eins mörg tonn á dag og flutt eru alls á heilu ári eftir sumum vegum, sem við erum að berjast fyrir að fá lagða. Það verður því að mæta flutningaþörfinni þarna með betri, öruggari og ódýrari vegum í viðhaldi og rekstri farartækjanna en víðast annars staðar á landinu. Þennan sannleika verðum við að horfast í augu við.

Ég vil ekki væna þá menn um óheilindi, sem að þessari þáltill. standa, a. m. k. ekki suma þeirra. En ég hef ekki trú á því, að málið leysist nokkurn tíma, fyrr en búið er að fá samanburð á þeim leiðum, sem til greina koma í þessu sambandi.

Í þriðja lagi get ég ekki sætt mig við till. óbreytta, því að hún mun alltaf hafa í för með sér kaupgreiðslur til eins eða tveggja verkfræðinga, sem svarar fyrir eins eða tveggja ára vinnu, og ríkisstj. er ekki veitt heimild til fjárgreiðslna til þess að láta framkvæma þessar athuganir, sem hér er um að ræða, og getur hún þess vegna með góðri samvizku látið þáltill. detta upp fyrir koffort hjá sér, þótt samþ. verði, því að stj. hefur þá verið sagt að gera þetta, en að gera það með engu. Það vantar inn í þáltill., að ríkisstj. megi verja nokkru fé til þessa, og þess vegna vil ég breyta till. að þessu leyti.

Í stuttu máli sagt: Ég vil fá leiðina alla athugaða milli Ölfusár og Reykjavíkur, í öðru lagi fá samanburð á þeim leiðum um vegagerðina, sem athugaðar hafa verið og til greina koma, og ég vil í þriðja lagi heimila ríkisstj. fé til þess að láta gera þennan samanburð, því að án þeirrar heimildar tel ég, að till. sé fyrir fram dæmd dauð og ómerk, en svo vil ég ekki vera láta.