06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

30. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. drap á, vildi ég mega benda á það, að ríkisstj. ráðstafar hvorki þessu fé né öðru án heimildar. Og eins og allar aðrar ríkisstj. er hún náttúrlega bundin við að fara ráðvandlega með fé ríkissj. og ráðstafa því með fullri ábyrgð. Mér dettur ekki í hug að halda, að hv. þingmenn væni stj. í þessu efni, en af því að orð féllu á þann veg, sem þau féllu, vil ég geta þessa.

Út af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv., hvort ég vilji skuldbinda mig til að bera undir þingið ráðstöfun á væntanlegum tekjum af þessu frv., vil ég segja, að ef þinginu þætti ríkisstj. misnota þann trúnað, sem henni er veittur með samþ. frv., þá hefur þingið vitanlega jafnan í hendi sér að kippa burt þeim heimildum, sem hér eru gefnar, ef notaðar eru á þann hátt, sem það teldi sig ekki geta við unað. Svo að þó að hér sé kannske farið að á nokkuð óvenjulegan hátt, sem ég alls ekki ber á móti — og get því vel skilið afstöðu sumra hv. þm. —, þá getur samt frá mínu sjónarmiði ekki verið stefnt í neina hættu. Alþingi hefur alltaf heimild til að afnema slíka heimild, ef það kærir sig um.