29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2561)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Eiríkur Einarsson:

Þegar þáltill. þessi var til fyrri umr. hér í hæstv. Sþ., þá gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til hennar sem einn á meðal flm. En að ég var meðal flm. þáltill., var af því, að ég skoða aldrei huga minn um það, þegar þetta mál er til umr., hver nauðsyn hér er á ferð og hve réttlátt það er að gera það, sem hægt er, til þess að flýta samgöngubótum milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að svo miklu leyti sem það styðst við skynsamleg rök. Og ég tel þessa þáltill. styðjast við rök. Í till. er talað um að steypa veginn og færa hann til, ef þörf gerist með tilliti til flutninga. En ég lét þess getið jafnframt, að ég væri flm. að þessari till. með hliðsjón til þess, að athugun á þessu yrði gerð frá því víðtæka sjónarmiði, að t. d. tilfærsla á veginum og annað slíkt væri ekki þröngskorðað, og sem sagt, að möguleikarnir faglega séð væru athugaðir á sem víðtækustum grundvelli, til þess að þetta mætti verða að verulega traustum frambúðarnotum. Ég vil í því sambandi endurtaka það hér, sem ég sagði þá, að þessi leið um Svínahraun og Hellisheiði er að mínu áliti helzt til þröngskorðað til tekin í þáltill., en ég vil leggja í þau orð víðtækari skilning, því að við getum tekið undir það, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. N.-M., að það er í raun og veru öll leiðin frá Reykjavík og austur yfir, sem hér er um að ræða, þótt það sé einkanlega þetta svæði, sem um er rætt í þáltill. Ég veit, að margir kalla Hellisheiði svæðið fyrir austan Kolviðarhól austur að Kömbum og langt suður á Reykjanesfjallgarð. En þeir, sem kunnugastir eru, telja Hellisheiði varla ná lengra en flatlendið suður að næstu heiðalöndum til hægri handar við veginn, þegar austur er ekið. En mér virðist, að hugsanleg tilfærsla á veginum væri að leggja hann um Þrengslin. Það er talið vafi, hvort orðalag till. muni leyfa þá breyt. Ég er ekki fær um að dæma um það, hvort sú rannsókn, sem hér er gert ráð fyrir, mundi leiða í ljós, að sú tilfærsla mundi vera álitin tiltækileg, þó að ég frá mínu sjónarmiði mótmæli því sem fjarstæðu, að það sé fjarstæð lausn. Ég held, að það liggi mjög nærri og væri það rétta í málinu, að við athugun á því, hvort eða hvernig tilfærsla á veginum austur yrði gerð, þá kæmi leiðin um Þrengslin til gaumgæfilegrar athugunar sem líklegt framtíðarvegarstæði. Ég get sagt það til dæmis, að í síðustu kynslóðinni var Þorleifur bóndi á Grímslæk, refaskytta á þessu fjalllendi, sem vegurinn liggur um austur, og var hann mjög vel kunnugur allstaðar þar á fjallinu og heiðinni. Þegar hann var um sjötugt og verið var að tala um að treysta samgöngur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins með járnbraut eða á annan hátt, áleit hann, að bezt mundi vera að nota Þrengslin, þau væru jafnan snjóléttust. Þessi maður var allra manna kunnugastur þarna á slóðum, m. a. að vetrar lagi. Þetta mun hafa verið 1895 eða 1897, þegar járnbrautarmálið var að komast á hreyfingu.

Það er eingöngu hvatning til þess, að málið verði tekið svona, upp, sem vakti fyrir mér með þessum orðum. Ég verð þó að segja, að mér finnst till. hv. 2. þm. N.-M. byggð á góðum rökum að ýmsu leyti, en þetta verður allt að athuga vel, því að fljótfærni í stórum framkvæmdum er dýrt spaug. Það er þessi vari, sem fylgir frá minni hálfu till., eins og hún liggur fyrir. Ég vil, að till. gangi fram sem ótvíræðust. Og þá vil ég spyrja, hvort það geri mikið til, þegar um svona till. er að ræða, þar sem rannsaka á stórt og mikið framtíðarmál, hvort till. er afgr. þrem til fimm dögum eða vikum fyrr. Ég hygg, að framtíðin mundi þar verða mér sammála, að mest er um vert, að vel sé vandað til till., þó að það kynni að verða til þess, að málinu yrði frestað um viku eða svo. Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta og fjvn., hvort þessir aðilar geti ekki hvor fyrir sig og báðir sameiginlega fallizt á, að umr. verði nú frestað, svo að hægt væri að finna sameiginlegan grundvöll, sem til umbóta teldist og víðtækari væri en er í okkar upprunalegu till. Að svo mæltu vil ég biðja leyfis að fá að víkja af fundi.