29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2565)

67. mál, vegagerð yfir Hellisheiði og Svínahraun

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hv. 2. þm. N.-M. hefur nú gert grein fyrir minnihlutaáliti sínu viðvíkjandi samgöngubótunum austur yfir heiði. Eins og hann sagði, vill hann láta rannsaka alla leiðina, en ekki hluta af henni. Það út af fyrir sig hljómar ekki nema vel, að leiðin sé rannsökuð öll. Við, sem förum oft þessa leið, vitum, að leiðin upp að Lækjarbotnum er oftast fær, og meðan ekki hefur fengizt viðunanleg bót á vegagerð á þeim hlutanum, sem oftast er ófær, þá höfum við ekki gerzt svo djarfir að fara fram á rannsókn á þeim kaflanum, sem er alltaf fær, en teljum, að hún verði að bíða, þar til bætt hefur verið um hinn kaflann.

Hv. þm. sagðist ekki trúa, að mögulegt væri að leysa þetta mál, nema allar leiðirnar, sem til mála koma, væru rannsakaðar. En hann gat þess, að það lægju fyrir áætlanir um þessar þrjár leiðir og ekki væri annað eftir en setjast niður og reikna út, hver leiðin væri heppilegust. En ef það er rétt, þá held ég, að hv. þm. gæti með góðri samvizku samþ. till. okkar óbreytta, því að í henni stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt fari fram athugun á kostnaði við nauðsynlegar breytingar á legu vegarins og gerð á þessari leið með tilliti til flutninga að vetrarlagi“. Ég held, að ef hann les síðari part till., sannfærist hann um, að hann getur með góðri samvizku fylgt henni, því að ef ekki er annað eftir en setjast niður og reikna, hvað eigi að gera, þá fer till. okkar vissulega fram á það, því að samkvæmt henni á að athuga heppilegustu leiðina fyrir veginn með tilliti til vetrarflutninga.

Þá heldur hv. þm., að þeir menn, sem vilja, að járnbraut sé lögð á þessari leið, muni ekki ljá samþykki sitt til þess að steypa þennan veg, nema ýtarleg rannsókn liggi fyrir um, hvort það sé heppilegra en járnbraut. En það er orðið þannig úti um lönd, þar sem járnbrautir hafa rutt sér til rúms, að bílar eru meira og minna að drepa járnbrautirnar, því að þær þola ekki samkeppni við bílana. Þess vegna verður það hér eins og annars staðar, að kröfur framtíðarinnar verða um góða vegi og stóra bíla. Og eftir að bílarnir eru orðnir eins góðir og þeir eru nú, vantar ekki nema góða vegi, til þess að flutningarnir með þeim geti orðið tiltölulega ódýrir. Járnbrautarmálið er því alveg úr sögunni, þó að það væri gott út af fyrir sig frá sjónarmiði þeirra manna, sem börðust fyrir því, þegar bílarnir voru óþekktir með öllu.

Hv. þm. sagði enn fremur, að hann gæti ekki samþ. till. okkar, vegna þess að hún hefði útgjöld í för með sér. Ef till. væri samþ. óbreytt, væri stj. falið að láta fram fara rannsókn, sem kostaði fé, en hún hefði enga heimild til að taka það fé, sem þessi rannsókn kostaði. Ég held, að ef það er rétt, sem hann sagði, að þessar rannsóknir liggi að miklu leyti fyrir, þá muni vegamálaskrifstofan geta framkvæmt þessa athugun með því starfsliði, sem hún hefur, og því þurfi þetta ekki að hafa aukinn kostnað í för með sér og þurfi því ekki að taka til þess fé sérstaklega.

Mér dettur ekki í hug, að hv. 2. þm. N.-M. hafi farið að kljúfa sig frá n., af því að hann beri ekki góðan hug til samgöngubóta á þessari leið, því að ég held, að hann geri það þrátt fyrir einkennilega framkomu í málinu. En um leið verður ekki hjá því komizt að minna á það, að undanfarið, þegar talað hefur verið um samgöngubætur austur yfir heiði, hvort sem það hefur verið járnbraut eða eitthvað annað, hafa alltaf komið einhverjar mótbárur, einhverjir fleygar, sem hafa sprengt málið og valdið því, að lítið hefur orðið úr framkvæmdum. Ég get þó endurtekið það, að ég held, að þessi hv. þm. geri þetta ekki í því skyni að drepa málið, þótt þannig líti það út.

Ég vil mælast til þess, að Alþingi samþ. till. eins og meiri hl. fjvn. leggur til, en ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, enda hlyti það að verða að miklu leyti endurtekningar á því, sem sagt hefur verið við fyrri umr. málsins.